Siðareglur fyrir endurskoðendur

Í lögum um endurskoðendur og endurskoðun nr 94/2019 kemur fram að endurskoðandi skal rækja störf sín í samræmi við góða endurskoðunarvenju og siðareglur endurskoðenda og skal af kostgæfni og samviskusemi í hvívetna fylgja ákvæðum þeirra laga og reglna sem gilda um störf hans. Góða endurskoðunarvenju skal túlka í samræmi við þær kröfur sem er að finna í lögum, reglum og alþjóðlegum stöðlum hverju sinni og það efni sem kennt er í íslenskum háskólum og lagt til grundvallar löggildingarprófum endurskoðenda hér á landi.

Jafnframt kemur fram að endurskoðandi og endurskoðunarfyrirtæki skulu vera óháð viðskiptavini sínum við vinnu endurskoðunar verkefna, bæði í reynd og ásýnd. Endurskoðandi skal ekki framkvæma endurskoðun ef einhver þau tengsl eru milli endurskoðandans og viðskiptavinar hans sem eru til þess fallin að vekja efa um óhæði hans hjá vel upplýstum þriðja aðila, svo sem atvinnutengsl, fjölskyldutengsl, bein eða óbein fjárhagsleg tengsl eða viðskiptatengsl önnur en leiðir af endurskoðuninni. Endurskoðandi skal vera óháður viðskiptavini sínum það tímabil sem reikningsskilin sem eru endurskoðuð ná til og þar til endurskoðun er lokið.
Endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki skal ekki taka þátt í ákvarðanatöku innan hinnar endurskoðuðu einingar.

Siðareglur endurskoðenda eru því mikilvægar í daglegum störfum okkar endurskoðenda. FLE er aðili að alþjóðasamtökum endurskoðenda (IFAC) og gefa þeir út siðareglur fyrir endurskoðendur sem okkur ber að fylgja. Tengill á siðareglurnar er hér: Siðareglur IFAC