Hnappurinn verður virkur

FLE hefur lengi barist fyrir því að skil ársreikninga hjá litlum fyrirtækjum verði gerð einfaldari. Loksins verður hnappurinn að veruleika fyrir skil á ársreikningi fyrir rekstur ársins 2016. 

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra skrifaði undir samning við Ríkisskattstjóra 20. júní síðast liðinn um vinnu við að koma á rafrænum skilum ársreikninga. Breytingarnar taka til yfir 80% íslenskra fyrirtækja sem skilgreind eru sem örfyrirtæki þ.e. uppfylla a.m.k. tvö af þremur skilyrðum; að vera með efnahagsreikning upp á 20 milljónir króna eða minna, ársveltu undir 40 milljónum króna og ekki meira en þrjú ársverk að meðaltali.

Forsvarsmenn fyrirtækjanna þurfa að gefa samþykki fyrir því að lykiltölur úr skattframtali fyrirtækisins verði sendar ársreikningaskrá og nægir síðan að haka við hnappinn í tölvukerfi ríkisskattstjóra og þá er ársreikningi skilað.