Námskeið um fyrirtækjamenningu og siðfræði, daginn fyrir Reikningsskiladag

Fimmtudaginn 17. september verður haldið námskeið á Grand hóteli kl. 13-16.  SKRÁ MIG HÉR.  Yfirskriftin er Fyrirtækjamenning - siðfræði eða spilling? Leiðbeinendur eru þau Vilhjálmur Jens Árnason stundakennari í viðskiptasiðfræði í HÍ og Ingunn H. Hauksdóttir endurskoðandi hjá Ernst & Young ehf. Námskeiðið er opið öllum og þátttökugjald er kr. 18.000 fyrir félagsmenn og starfsmenn endurskoðunarfyrirtækja en 24.000 fyrir aðra. Námskeiðið veitir 3 einingar í flokknum siðareglur og fagleg gildi. Hér má nálgast ítarlegri námskeiðslýsingu. 

Fjallað verður almennt um siðfræði og hvernig siðferði virkar innan veggja fyrirtækja.  Hvernig getur siðferði í viðskiptum haft áhrif á traust og tiltrú markaðarins? Stenst það að heilbrigðir viðskiptahættir og hátt siðferðisgildi haldist í hendur við tekjuvöxt?  Einnig rætt um mismunandi fyrirtækjamenningu og hvort hægt sé að byggja upp menningu sem styrkir siðferðislega hegðun. Hvað ber að hafa í huga þegar þú mætir mismunandi menningu og hvað ber að varast? Farið yfir hugmyndir um gagnrýna hugsun, fagmennsku og faglega tortryggni og þátt endurskoðenda í að vinna á móti og uppgötva sviksemi og spillingu.  Þá er gerð grein fyrir könnun sem EY gerði nýverið varðandi sviksemi og spillingu og verða helstu niðurstöður reifaðar. Þátttakendur fá raunhæf dæmi og verkefni að glíma við.