Hins vegar var skattstofninn breikkaður töluvert, en þær breytingar hafa ekki verið eins mikið í umræðunni og mætti ætla þegar horft er til þeirra áhrifa sem að þær munu hafa þegar þær hafa að komið til framkvæmda.

Mikil breyting á starfsumhverfi ferðaþjónustunnar

Soffía Eydís Björgvinsdóttir hdl. og partner hjá KPMG ehf.

Viðamiklar breytingar voru gerðar á virðisaukaskattslöggjöfinni í lok síðasta árs og má skipta þeim í tvo meginþætti. Annars vegar var skatthlutföllum í virðisaukaskatti breytt, þar sem efra skatthlutfallið var lækkað úr 25,5% í 24% en það neðra hækkað úr 7% í 11% frá síðustu áramótum. Hins vegar var skattstofninn breikkaður töluvert, en þær breytingar hafa ekki verið eins mikið í umræðunni og mætti ætla þegar horft er til þeirra áhrifa sem þær munu hafa þegar þær hafa komið til framkvæmda. Þessar breytingar snúa fyrst og fremst að ferðaþjónustunni og taka gildi um næstu áramót. Ástæða þess er sú að í mjög mörgum tilvikum var búið að ganga frá sölu vegna ársins 2015 til erlendra ferðaþjónustuaðila áður en frumvarp um breytingar
á lögunum var lagt fram á Alþingi síðasta haust. Ferðaþjónustufyrirtæki eru á þessum fyrstu vikum ársins 2015 að ganga frá sölu og bókunum vegna ferða á næsta ári og því eru þessar breytingar strax farnar að hafa töluverð áhrif þar sem taka þarf tillit til þeirra í verðlagningu á þjónustu eftir 1. janúar 2016.

Frá 1. janúar 2016 verður ákveðin tegund fólksflutninga, þ.e. fólksflutningar í afþreyingarskyni virðisaukaskattsskyldir. Almenningssamgöngur eftir fyrirfram birtri áætlun verða þó áfram undanþegnar virðisaukaskatti. Einnig verður þjónusta og milliganga ferðaskrifstofa, ferðaskipuleggjenda og annarra er koma að skipulagningu ferða, bæði innlendra og erlendra aðila, virðisaukaskattsskyld. Þá verður aðgangur að baðstöðum sem falla utan undanþágu sem tekur til íþróttastarfsemi og aðgangs að íþróttamannvirkjum einnig virðisaukaskattsskyldur. Með einföldum hætti er því hægt að segja að erlendur ferðamaður sem kemur til landsins á næsta ári og kaupir hér þjónustu við að skipuleggja fríið sitt, fer í Bláa lónið og skoðar Gullfoss og Geysi greiðir virðisaukaskatt af allri þeirri þjónustu sem hann kaupir en greiðir fram til áramóta eingöngu virðisaukaskatt af hótelgistingu og veitingum.

Margar spurningar hafa vaknað vegna þeirra áhrifa sem þær breytingar sem gerðar hafa verið á virðisaukaskattsumhverfi ferðaþjónustunnar muni hafa. Aðilar sem eru á leið í virðisaukaskattsumhverfi þurfa því að huga að þeim breytingum sem verða í mörgum þáttum bæði er varðar uppsetningu bókhalds og breytingu á skattskilum, skráningu á virðisaukaskattsskrá og áhrif á söluverð vöru og þjónustu á næsta ári. Fjölmörg ferðaþjónustufyrirtæki eru nú þegar farin að send frá sér tilboð, taka við bókunum og gera ráðstafanir vegna ferða á næsta ári. Áhrif af því að fara inn í virðisaukaskattsumhverfi eru mismunandi á ferðaþjónustufyrirtækin og því nauðsynlegt að þau séu metin og tekið tillit til þeirra sem fyrst.

Ýmis álitaefni munu vakna og má þar nefna atriði eins og mögulegan rétt á að fá innskatt endurgreiddan af fjárfestingum sem ráðist var í áður en fyrirtæki urðu virðisaukaskattsskyld, en eru ennþá í notkun. Spurt hefur verið hvort fyrirtæki eigi rétt á að fá endurgreiddan hluta af virðisaukaskatti af fjárfestingum í rekstrarfjármunum sem verða teknar til virðisaukaskattsskyldra nota frá næstu áramótum. Þessari spurningu hefur ekki verið svarað með fullnægjandi hætti en í reglugerð um innskatt er að finna ákvæði sem taka til leiðréttingar á nýtingu innskatts þegar hlutfall virðisaukaskattsskyldrar starfsemi breytist. Færa má rök fyrir því að ákvæði þetta eigi einnig við þegar nýjar atvinnugreinar verða virðisaukaskattsskyldar en skýr svör hafa ekki fengist við þeirri túlkun. Um mikla hagsmuni er að ræða fyrir ferðaþjónustufyrirtækin enda mikið verið fjárfest í ferðaþjónustu á undanförnum árum.

Birt í Viðskipta Mogganum fimmtudaginn 12. febrúar 2015 bls. 12.

Mbl.is - Viðskiptamogginn, 12. febrúar 2015
12.02.2015