FLE færir hjartadeildum gjöf

Félag löggiltra endurskoðenda varð 80 ára á þessu ári og af því tilefni ákvað stjórn félagsins  að láta gott af sér leiða.  Félag löggiltra endurskoðenda var stofnað 16. júlí, árið 1935 og hefur félagið minnst merkisafmæla gegnum tíðina ýmist með ráðstefnum, veisluhöldum eða með útgáfu. Nú var sú ákvörðun tekin að gefa Hjartadeild og Hjartagátt Landspítalans upphæð til tækjakaupa að eigin vali að  verðmæti kr. 1.000.000. 

Héldu því formaður og framkvæmdastjóri til fundar við forsjármenn Hjartadeildar þann 22. desember 2015 með ávísun upp á eina milljón í pokahorninu. Vonast félagið til að gjöfin nýtist Landspítalinum til tækjakaupa eða annars sem kemur sér vel í því stóra hlutverki sem hjartadeildirnar gegna. Er gjöfin gefin af hlýhug þeirra rúmlega 400 félagsmanna sem standa að félaginu. 

Á myndinni má sjá þegar formaður og framkvæmdastjóri FLE, þau Margrét Pétursdóttir og Sigurður B. Arnþórsson, afhenda forsjármönnum hjartadeildanna ávísunina, þeim Björgu Sigurðardóttir hjúkrunardeildarstjóri á Hjartagáttinni, Olgu Bjarnadóttur, aðstoðardeildarstjóra á Hjartadeild Davíð Ottó Arnar yfirlækni Hjartadeildar og  Karli Andersen yfirlækni Hjartagáttar.