Löggilding

Löggiltir endurskoðendur eru þeir einu sem mega kalla sig endurskoðendur og eru réttindi þeirra og skyldur tryggð í lögum um endurskoðendur nr. 94/2019. Í lögunum er endurskoðandi skilgreindur þannig: "Sá sem hefur þekkingu til að gefa hlutlaust og áreiðanlegt álit á reikningsskilum og öðrum fjárhagsupplýsingum, hefur löggildingu til starfa við endurskoðun og fullnægir að öðru leyti skilyrðum laga þessara." Ráðherra gefur út löggildingarskírteini til handa endurskoðanda.  

Endurskoðendaráð birtir opinbera skrá yfir endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki sem fengið hafa réttindi til endurskoðunarstarfa. Öðrum en endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum er eigi heimilt að nota orðin endurskoðandi eða endurskoðun í starfs- eða firmaheiti sínu. Þá er óheimilt að vekja þá trú að aðili sé endurskoðandi ef hann er það ekki, sbr. 1. mgr., með notkun starfsheitis, firmanafns eða með öðrum misvísandi hætti svo vísað sé í 4. gr. ofangreindra laga. 

Löggiltir endurskoðendur geta lagt inn réttindi sín ef þeir vilja, svo fremi sem mál viðkomandi er ekki til meðferðar hjá endurskoðendaráði. Sjá innlögn réttinda. 

Endurskoðendaráð er eftirlitsaðili með löggiltum endurskoðendum.