Aðild

Í nýjum lögum um endurskoðendur sem gilda frá 1. janúar 2020 er aðild að FLE frjáls. Aðild að félaginu er bundin því að viðkomandi sé löggiltur endurskoðandi og þar með uppfyllt þær kröfur sem löggjafinn gerir samanber hér að neðan. Sækja þarf sérstaklega um aðild og fylla út þar til gert eyðublað. Þá var á aðalfundi haustið 2011 samþykkt að þeir sem skráðir væru sem nemar í endurskoðun gætu óskað eftir aukaaðild að félaginu.

Félagsmenn fá ýmislegt fyrir aðild sína eins og:

 • Félagið heldur uppi hagsmunagæslu fyrir félagsmenn gagnvart opinberum aðilum
 • Félagið hefur áhrif á lög og reglugerðir með því að vinna með ráðuneytum og senda inn álit
 • Aðgang og umtalsverðan afslátt af viðburðum félagsins
 • Aðgang að endurmenntunarbrunninum en þar er hægt á einfaldan hátt að halda utan um endurmenntunareiningar
 • Félagið og þar með félagsmenn eru með aðild bæði að alþjóðasamtökum endurskoðenda IFAC, Evrópusambandi endurskoðanda Accountancy Europe og norræna endurskoðendasambandinu NRF og hafa í gegnum það rödd á alþjóðavettvangi
 • Aðgang að innri vef félagsins, þar sem er að finna ógrynni af upplýsingum og efni frá námskeiðum og fyrirlestrum frá fyrri árum
 • Aðgang að þjónustu skrifstofu félagsins

 

Löggilding endurskoðenda.

Endurskoðendaráð veitir löggildingu til endurskoðunarstarfa.

Til þess að öðlast löggildingu þarf viðkomandi að fullnægja eftirtöldum skilyrðum:

 1. Eiga lögheimili hér á landi eða vera ríkisborgari aðildarríkis að Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyja.
 2. Vera lögráða og hafa ekki sætt því að bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta.
 3. Hafa gott orðspor og vera þannig á sig kominn andlega að hann sé fær um að gegna störfum endurskoðanda.
 4. Hafa ekki hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef hann var fullra 18 ára þegar brotið var framið nema fimm ár hafi liðið frá því að afplánun var að fullu lokið.
 5. Hafa meistaragráðu í endurskoðun og reikningsskilum sem viðurkennd er af endurskoðendaráði.
 6. Hafa staðist sérstakt próf, sbr. 7. gr.
 7. Hafa starfað að lágmarki í þrjú ár undir handleiðslu endurskoðanda við endurskoðun ársreikninga og annarra reikningsskila hjá endurskoðunarfyrirtæki með starfsleyfi.
 8. Hafa starfsábyrgðartryggingu, sbr. 8. gr.