Þrátt fyrir að einhver þessara verkefna hafa verið unnin í samræmi við skilgreininguna á hefðbundnum PPP-verkefnum, hefur ýmislegt mátt betur fara. Í flestum tilvikum tengist það áhættudreifingu verkefnanna.

Aðkoma einkaaðila að innviðaframkvæmdum

Ágúst Heimir Ólafsson löggiltur endurskoðandi og yfirmaður Fjármálaráðgjafar Deloitte og Lovísa Anna Finnbjörnsdóttir liðsstjóri í Fjármálaráðgjöf Deloitte

Á undanförnum árum má finna þó nokkur dæmi um samstarfsverkefni opinberra aðila og einkaaðila hér á landi á sviði innviðaframkvæmda (e. Public Private Partnership, eða PPP). Árangur þessara verkefna hefur verið misjafn og ljóst að ýmislegt má læra af reynslunni. Þrátt fyrir að einhver þessara verkefna hafi verið unnin í samræmi við skilgreininguna á hefðbundnum PPP-verkefnum, hefur ýmislegt mátt betur fara. Í flestum tilvikum tengist það áhættudreifingu verkefnanna. Af þessu tilefni stóðu Deloitte og Samtök iðnaðarins nýverið fyrir fjölsóttum morgunverðarfundi undir yfirskriftinni „PPP-verkefni – ábati og áhættur“.

En hvað aðgreinir PPP-verkefni frá hefðbundnum framkvæmdum hins opinbera, sem margar eru framkvæmdar af einkaaðila í kjölfar útboðs? Í PPP-verkefni felst að opinber þjónusta er þróuð og/eða rekin af einkaaðila (eða í samstarfi við opinberan aðila) að beiðni hins opinbera, þannig að áhættu sé skipt milli einkaaðilans og hins opinbera. Áhættudreifing er lykilatriði í þessum verkefnum og forsenda þess að vel takist til. Til að hámarka arðsemi beggja aðila er áhættu dreift til þess sem getur betur stýrt henni með minni tilkostnaði. Þannig ætti til dæmis einkaaðilinn að jafnaði að bera áhættu af framkvæmdum og rekstri verkefnisins.

Hefðbundin PPP-verkefni fela í sér að þau eru langtímaverkefni þar sem einkaaðilar eru fengnir að borðinu til að skila af sér fyrirfram skilgreindri þjónustu yfir ákveðið tímabil. Fyrstu skref eru ávallt í höndum hins opinbera, sem setur fram kröfur um notagildi og gæði. Slíkt tryggir hagkvæmar lausnir þar sem einkaaðili sér síðan um að hanna, byggja og viðhalda framkvæmd sem uppfyllir kröfur opinbera aðilans. Greiðslur fara jafnan fram við afhendingu og eru út líftíma samnings og fela þannig í sér hvata til að byggja og afhenda lausnir með réttum gæðum á réttum tíma.

Það loðir gjarnan við opinber verkefni að þau fara fram úr áætlun, bæði hvað varðar kostnað og tíma. Þá er ekki aðeins átt við framkvæmdakostnað því hagkvæmni í rekstrarkostnaði er ekki síður mikilvæg. Á morgunverðarfundinum var fjallað um reynslu Norðurlandanna af PPP-verkefnum en tveir fyrirlesarar fundarins komu frá Danmörku og hafa töluverða reynslu af slíkum verkefnum á ólíkum sviðum.

Á Norðurlöndum er að finna fjölmörg dæmi um slíkt samstarf á ýmsum sviðum, t.d. um byggingu og rekstur leikskóla og grunnskóla, sundlauga og íþróttamannvirkja, samgöngumannvirkja, sjúkrahúsa og flugvalla. Reynsla Norðurlandanna sýnir að PPP-verkefni hafa skilað árangri við hönnun hagkvæmra lausna og hafa tryggt fyrirframþekktan framkvæmda- og rekstrarkostnað. Reynsla nágrannalanda hefur auk þess sýnt að raunhæf áhættudreifing með aðkomu einkaaðila hefur dregið úr framúrkeyrslu kostnaðar og seinkun afhendingar.

Opinberar fjárfestingar hafa verið litlar hér á landi síðastliðin ár og er víða þörf á innviðaframkvæmdum. Sé vandað til verka við undirbúning og áhættudreifingu og lærdómur dreginn af fyrri reynslu og reynslu nágrannalanda er aðkoma einkaaðila að innviðaframkvæmdum raunhæf lausn sem brýnt er að skoða.

Hér má nálgast greinina sem birtist 15. sept 2016 á Mbl. 

Mbl.is - Viðskiptamogginn, 15. sept. 2016