Hér er fjallað um nauðsyn innri endurskoðunar hjá íslenskum ríkisstofnunum en þær þurfa að sinna því hlutverki sem þeim ber samkvæmt gildandi lögum á hverju tíma

Af hverju innri endurskoðun hjá ríkisstofnunum?

Sif Einarsdóttir - er löggiltur endurskoðandi og eigandi hjá Deloitte, sinnir innri endurskoðun fyrirtækja í fjölbreyttri starfsemi, meðal annars opinberra fyrirtækja

Íslenskar ríkisstofnanir þurfa að sinna því hlutverki sem þeim ber samkvæmt gildandi lögum á hverjum tíma. Líkt og aðrar skipulagsheildir þurfa stofnanirnar jafnframt að aðlaga sig að þörfum viðskiptavina sinna, halda í við tækniþróun, stjórna sínum auðlindum og í stuttu máli að ná sínum markmiðum í starfsemi.

Hver stofnun þarf því að spila vel úr þeim fjármunum sem hún hefur til umráða og ná fram hagkvæmni á sama tíma og kröfur um þjónustu verða síst minni. Til þess að ná þessu fram þurfa að vera til staðar hæfir stjórnendur og starfsfólk og viðeigandi stjórnskipulag með sterku innra eftirliti, þar sem góðir stjórnarhættir eru viðhafðir og áhættum er stýrt. Innri endurskoðun hefur eftirlit með því að þessi markmið náist.

Hættan á sviksemi
Af og til koma fram fréttir í fjölmiðlum um sviksemi í opinberum stofnunum og algengustu sögurnar eru um stofnanir þar sem hægt er að sækja um greiðslur af einhverjum toga, þegar óprúttnir aðilar sjá sér hag í því að svíkja út fjármuni með því að notfæra sér veikleika í innra eftirliti viðkomandi stofnunar. Skemmst er að minnast dansks hneykslismáls frá árinu 2018 þegar Britta Nielsen, starfsmaður dönsku félagsþjónustunnar hafði dregið sér 115 millj­ón­ir danskra króna, um 2,1 milljarð íslenskra króna, frá danska rík­inu á árunum 1997-2018 án þess að það uppgötvaðist og komu í ljós mjög alvarlegar brotalamir í innra eftirliti stofnunarinnar í kjölfarið.

Nú á tímum COVID 19 hafa ákveðnar opinberar stofnanir á Íslandi fengið aukið hlutverk í því að veita ívilnun til viðeigandi aðila, sem viðbrögð við COVID 19, og má þá helst nefna Vinnumálastofnun og Skattinn. Um leið þarf að tryggja sem best tryggt eftirlit hjá viðkomandi stofnunum um að leikreglum sé fylgt í einu og öllu. Innri endurskoðunarúttektir leika lykilhlutverk í því að fyrirbyggja að sviksemi eða mistök eigi sér stað.

Orðsporsáhætta
Annað mikilvægt atriði þar sem upp geta vaknað spurningar um orðspor opinberrar stofnunar, er spurningin um hagsmunaárekstra og siðareglur. Þar hefur innri endurskoðun eftirlit með því til staðar séu hæfilegar fyrirbyggjandi aðgerðir til að sporna við að hagsmunaárekstrar verði og einnig því að til staðar séu ferlar sem tryggja viðeigandi viðbrögð og eftirfylgni, ef upp koma hagsmunaárekstrar.

Innri endurskoðun opinberra stofnana
Ofangreind upptalning er alls ekki tæmandi um þau markmið ríkisstofnana sem innri endurskoðun getur stuðlað að. Innri endurskoðun veitir óháða og hlutlæga staðfestingu og ráðgjöf, sem ætlað er að vera virðisaukandi og bæta rekstur fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka. Með kerfisbundnum og öguðum vinnubrögðum leggur innri endurskoðun mat á og bætir virkni áhættustýringar, eftirlits og stjórnarhátta og stuðlar þannig að því að fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök nái markmiðum sínum.

Lög um opinber fjármál kveða á um að opinberar stofnanir, þ.e. ríkisaðilar A- hluta, skuli framkvæma innri endurskoðun á grundvelli reglugerðar sem ráðherra setur, þar sem fjalla skuli um fyrirkomulag innri endurskoðunar, verklagsreglur, skráningu verkferla, viðmið um góða starfshætti og mat á megináhættuþáttum rekstrar. Þrátt fyrir framangreint lagaákvæði hafa enn sem er aðeins fáar slíkar stofnanir sett á fót innri endurskoðun. Mögulega spilar þar inn í að enn, rúmlega 5 árum eftir að lögin voru sett, hefur áðurnefnd reglugerð ekki enn verið birt.

Hagkvæm lausn
Innri endurskoðun þarf ekki endilega að vera kostnaðarsöm starfsemi. Ekki er endilega nauðsynlegt að setja strax á fót stóra fjárfreka deild sem sinnir þessu hlutverki innan stofnunarinnar heldur eru til staðar hér á Íslandi sérfræðingar og ráðgjafafyrirtæki sem sérhæfa sig í innri endurskoðun og hafa áralanga reynslu af innri endurskoðun fyrirtækja í útvistun. Slíkir sérfræðingar geta aðstoðað opinberar stofnanir við að sinna innri endurskoðun ásamt því að aðstoða við að setja á fót innri endurskoðun. Þannig er hægt að byrja smátt og skoða einungis aðalatriðin, með það í huga að útvíkka innri endurskoðunarstarfsemina síðar.

Sif Einarsdóttir

 

Morgunblaðið