Það sem hefur kannski vantað er verkfæri til að draga athygli erlendra aðila að íslenskum tæknifyrirtækjum.

Eflum umhverfi tæknifyrirtækja

Haraldur I. Birgisson lögfræðingur á skatta- og lögfræðisviði Deloitte

Það er mikilvægt fyrir fyrirtæki á sviði endurskoðunar, eins og önnur, að fylgjast náið með straumum og stefnum í atvinnulífinu. Af þeirri ástæðu meðal annars kynnti Deloitte til sögunnar verkefni Technology Fast 50 á ráðstefnunni Startup Iceland í maí. Með því bætist Deloitte á Íslandi í hóp um 30 aðildarfyrirtækja Deloitte um allan heim sem keyra þetta verkefni ár hvert t.d. í Noregi, Svíþjóð, Hollandi, Belgíu, Þýskalandi, Bretlandi, Indlandi, Ástralíu, Kanada og Bandaríkjunum.

Í stuttu máli felst verkefnið í því að taka saman lista yfir þau tæknifyrirtæki sem vaxa hraðast með tilliti til veltu á sérhverju fjögurra ára tímabili. Tiltekin skilyrði eru sett hvað varðar aldur og veltu fyrirtækjanna en í sjálfu sér er þetta tiltölulega einföld aðferðafræði og auðvitað ekki fullkomin. En það er einmitt einfaldleikinn og samræmi í skilyrðum milli ríkja, auk mögulegs ábata fyrir þátttakendur,sem veldur því að þetta verkefni hefur varað í yfir 20 ár og meira en 30.000 fyrirtæki á heimsvísu hafa tekið þátt.

Hvert af þessum 30 aðildarfyrirtækjum Deloitte birtir sinn lista að hausti ár hvert á sérstökum viðburði og öll fyrirtæki sem komast á þá lista eru gjaldgeng á álfulistana, sem birtir eru í nóvember, en fyrirtæki sem birtast þar eru svo aftur gjaldgeng á heimslistann, sem birtur verður í fyrsta skipti núna í desember. Með verkefninu Technology Fast 50 er þannig skapaður sérstakur vettvangur fyrir íslensk tæknifyrirtæki til að vekja athygli fjárfesta, mögulegra samstarfsaðila og annarra hagsmunaaðila í fjölmörgum löndum.

Til að ná allri aldursflóru tæknifyrirtækja eru samhliða Fast 50 keyrð svokölluð Rising Star-verðlaun, í samstarfi við Félag kvenna í atvinnulífinu (FKA) og Samtök iðnaðarins (SI). Þau verðlaun ná til fyrirtækja frá stofnun og að fjögurra ára aldri, en Fast 50-fyrirtækin verða að vera orðin a.m.k. fjögurra ára. Verkefnið passar því ágætlega við það stuðningskerfi nýsköpunar og tækni sem er til staðar hérlendis, sem er fyrir margar sakir gott. Þar spila inn í skattalegar ívilnanir vegna rannsókna og þróunar, öflugur Tækniþróunarsjóður og fjölgun fjárfestingarsjóða á þessu sviði. Auk þess eru reglulega haldnar gagnlegar ráðstefnur um efnið og þá hefur vinna aðila á borð við Innovit, NMÍ, Arion banka og nýsköpunar-húsanna reynst umhverfinu mikil lyftistöng.

En alltaf má gott bæta og það sem hefur kannski vantað er verkfæri til að draga athygli erlendra aðila að íslenskum tæknifyrirtækjum. Þar kemur verkefnið Technology Fast 50 sterkt inn, í takt við tillögu Vísinda- og tækniráðs um að efla sókn á markaði á alþjóðlegum vettvangi. Sem slíkt er verkefnið þannig til þess fallið að auka hróður íslenskra tækni-fyrirtækja erlendis. Vonandi mun verkefnið samhliða auðvelda þeim að vaxa hvort heldur með samstarfi við erlenda aðila eða með öflun erlendrar fjárfestingar og til langframa ýta undir vöxt alþjóða-geirans á Íslandi, enda tæknifyrirtæki engum landamærum bundin.

Verkefnið getur einnig verið gagnleg upplýsingaveita inn í stefnumótun á sviði nýsköpunar enda hægt að kortleggja hvaða fyrirtæki raðast á listann, hvað greinir þau frá fyrirækjum á sömu listum í öðrum löndum, hvernig vaxtarferli þeirra er m.v. fyrirtæki í öðrum löndum, hvert bakland þeirra er s.s. samsetning stofnenda- og stjórnendateyma, hvort þau nutu stuðnings nýsköpunarhúsa, hvers konar fjárfestar komu að rekstri þeirra, hvaða keppnir þau unnu o.s.frv. Þessar upplýsingar geta svo nýst þegar kemur að alþjóðageiranum almennt og hvað gera má til að auka líkurnar á að hraðvaxtarfyrirtæki eða svokallaðar „gasellur“ verði til á Íslandi.

En góðir hlutir gerast hægt og er stefnan því nú sett á að birta fyrsta íslenska Technology Fast 50-listann í lok október í ár og koma þeim flotta hópi fyrirtækja á framfæri hérlendis sem erlendis. Þátttaka kostar ekkert og eru þátttökuskilyrðin bæði fá og einföld, þar sem engin krafa er gerð um viðskipti við Deloitte eða félagsaðild að FKA eða SI. Allar frekari upplýsingar um verkefnið Technology Fast 50 og skráningareyðublöð má finna á www.fast50.is.

Birt í Viðskipta Mogganum fimmtudaginn 30. júlí 2015 bls. 12.

Mbl.is - Viðskiptamogginn, 30. júlí 2015
30.07.2015