Að verða endurskoðandi, samanburður milli norðurlandanna

FLE er aðili að norræna endurskoðendasambandinu (NRF). Hjá öllum félögunum á norðurlöndunum hefur verið unnið markvisst að því að fjölga fólki sem vill leggja fyrir sig endurskoðun og reikningsskil. Því var komið á fót vinnuhópi sem gengur undir vinnuheitinu Attractiveness of the profession.

Nýverið var ákveðið að bera saman þær kröfur sem þarf að uppfylla til að verða löggiltur endurskoðandi. Eftirfarandi er samanburður á því eftir löndum. Hann takmarkast við menntunarkröfur, starfsreynslu og löggildingarpróf en ætla má að önnur skilyrði séu eins eða áþekk milli landanna en með þeim er átt við atriði svo sem gott orðspor, starfsábyrgðartryggingu, framlagningu sakavottorðs og fleira.

 

Ísland

Um skilyrði til löggildingar er fjallað í 3. gr. laga nr. 94/2019 um endurskoðendur og endurskoðun. Til að fá löggildingu til endurskoðunarstarfa þarf viðkomandi að uppfylla eftirfarandi skilyrði: (1) að hafa meistaragráðu í endurskoðun og reikningsskilum sem viðurkennd er af endurskoðendaráði, (2) að hafa staðist löggildingarpróf (sjá nánar um prófin í rgl. nr. 595/2020) og (3) að hafa starfað að lágmarki í þrjú ár undir handleiðslu endurskoðanda við endurskoðun ársreikninga og annarra reikningsskila hjá endurskoðunarfyrirtæki með starfsleyfi, auk þess að uppfylla nokkur önnur skilyrði sem talin eru upp í fyrrnefndri lagagrein og snúa að lögheimili, orðspori, andlegri heilsu, starfsábyrgðartryggingu og fleiru.

Löggildingarpróf hér á landi skiptast nú í tvo prófhluta, sbr. 3. gr. reglugerð nr. 595/2020. Annars vegar er það próf í reikningsskilum og endurskoðun en hins vegar próf í skattalögum, félagarétti, kostnaðarbókhaldi og stjórnendareikningsskilum.

Löggildingarprófin eru skrifleg á Íslandi en ekkert munnlegt próf er haldið þó það væri heimilt að haga því þannig sbr. 3. gr. fyrrnefndar reglugerðar.

Löggildingarpróf eru haldin einu sinni á ári á Íslandi. Eins og gefur að skilja er það misjafnt milli ára hversu margir prófmenn ná prófunum. Haustið 2024 náðu 11 prófmenn af 16 prófinu í endurskoðun og reikningsskilum eða 69% en árið áður náðu 10 prófmenn af 15 því prófi eða 67%. Af þeim sem þreyttu próf í skattalögum, félagarétti, kostnaðarbókhaldi og stjórnendareikningsskilum árið 2024 náðu 12 af 27 eða um 45% en árið á undan 11 prófmenn af 19 eða 58%.

Danmörk

Ljúka þarf meistaraprófi í reikningsskilum og endurskoðun, hafa starfað við fagið að lágmarki í þrjú ár eftir 18 ára aldur, og standast löggildingarpróf.

Löggildingarprófin eru tvö, annars vegar skriflegt próf og hins vegar munnlegt próf. Skriflega prófið er tekið á tveimur dögum. Próftími er sex klst. hvorn dag og prófið því samtals 12 klst. Þegar kemur að munnlega prófinu fá prófmenn 40 mín. til að undirbúa sig áður en kemur að prófinu sem er 40 mín. Til að vera gjaldgengur til þátttöku í munnlega prófinu þarf próftaki að hafa staðist skriflega prófið.

Í Danmörku eru nokkuð ítarlegar reglur um fyrrgreinda 3ja ára starfsreynslu. Þannig skal tryggt að a.m.k. eitt ár hafi liðið frá því meistaraprófsnámi lauk og að a.m.k. tvö ár falli innan síðustu þriggja ára áður en hægt er að skrá sig til leiks í munnlega hluta endurskoðunarprófsins.

Standast þarf munnlega prófið eigi síðar en á sjöunda almanaksári eftir það ár sem próftaki stóðst skriflega prófið. Engin takmörk eru fyrir fjölda próftilrauna innan þess tímamarks.

Samkvæmt upplýsingum frá danska endurskoðendasambandinu ná að meðaltali 50% til 60% prófmanna skriflega prófinu en 65% til 75% munnlega prófinu.

Bæði skriflega prófið og munnlega prófið eru haldin tvisvar á ári.

Noregur

Grunnskilyrðin eru að fólk hafi lokið meistaragráðu í reikningsskilum og endurskoðun, hafi starfað við fagið í þrjú ár og staðist skriflegt löggildingarpróf. Skilyrðin eru því þau sömu eða mjög áþekk því sem er hér á landi. Í Noregi er ekki haldið munnlegt próf. Í Noregi er löggildingarpróf haldið einu sinni á ári.

Það er athyglisvert að í Noregi er að flestir prófmenn standast löggildingarprófið því samkvæmt upplýsingum frá norska endurskoðunarsambandinu eru það eingöngu um 5% prófmanna sem ekki ná prófinu.

Svíþjóð

Grunnskilyrðin eru BSc gráða þar sem gerð er krafa um að fólk hafi lokið námskeiðum í tilteknum fögum, að það hafi starfað hjá endurskoðunarfyrirtæki í að lágmarki þrjú ár og hafi staðist skriflegt löggildingarpróf. Prófið er tekið á tveimur dögum og er samtals 12 klst. Í Svíþjóð er ekki haldið munnlegt próf en prófið er haldið tvisvar á ári.

Síðast þegar löggildingarpróf var haldið í Svíþjóð náðu 76% prófinu.

Finnland

Finnland er nokkuð frábrugðið öðrum norðurlöndum þegar kemur að þessum málum. Þar eru fjórar mismunandi löggildingar sem skammstafaðar eru HT, KHT, KRT og JHT.

HT (Hyväksytty tilintarkastaja): Grunnlöggilding sem veitir endurskoðanda heimild til að endurskoða minni félög.

KHT (Keskuskauppakamarin tilintarkastaja): Endurskoðanda er heimilt að endurskoða einingar tengdar almannahagsmunum og önnur stór félög. Viðkomandi þarf áður að hafa lokið HT, sbr. hér að ofan.

JHT (Julkishallinnon tilintarkastaja): Endurskoðandi er með sérhæfða löggildingu til að endurskoða ríki, sveitarfélög, opinber fyrirtæki og stofnanir. Þannig er JHT-gráðan sérsniðin að opinberum fjármálum og stjórnsýslu og krafist er sérstakrar þekkingar á lögum, reglugerðum og reikningsskilareglum sem gilda hjá hinu opinbera.

KRT (Kestävyysraportointitarkastaja): Endurskoðandi hefur heimild til að staðfesta sjálfbærnireikningsskil.

Í samræmi við ofangreint eru prófin fjögur. HT prófið (grunnlöggildingarprófið) tekur tvo daga, 6 klst. hvorn dag. Til að öðlast frekari réttindi eru viðbótarpróf. KHT prófið er 8 klst. og hið sama gildir um JHT prófið en KRT prófið er sex klukkustundir.

Öll prófin eru skrifleg og haldin einu sinni á ári.

Samkvæmt upplýsingum frá finnska endurskoðendasambandinu er algengast að um 40-45% prófmanna standist framangreind próf. Í Finnlandi eru eingöngu skrifleg próf en ekki munnleg.

Kröfur um háskólamenntun og starfsreynslu eru flóknari en á hinum norðurlöndunum. Sem dæmi má nefna að til þess að öðlast grunnlöggildinguna HT þarf til viðbótar því að standast framangreint próf að hafa lokið háskólaprófi eða búa að sjö ára viðeigandi starfsreynslu, sem snúa að verkefnum er tengjast reikningsskilum, fjármálum og lögum. Til að verða KHT eða JHT endurskoðandi þurfa viðbótarskilyrði að vera uppfyllt sem ekki er fjallað nánar um í þessari samantekt.