Áhrif Covid veirunnar á störf endurskoðenda

FLE hefur unnið að því undanfarið að vekja athygli opinberra aðila á áhrif Covid veirunnar á starfsemi endurskoðunarfyrirtækja

  1. Í annarri viku marsmánaðar sendum við eftirfarandi fyrirspurn á Ársreikningaskrá:
    “Það fer ekki framhjá neinum þessa dagana þau áhrif sem covid-19 hefur í þjóðfélaginu. Eins og gefur að skilja þá er þessara áhrifa farið að gæta hjá endurskoðendum og hafa forrsvarsmenn endurskoðunarfyrirtækja haft samband við félagið og lýst áhyggjum sínum og umbjóðenda sinna hvað varðar skilum til Ársreikningaskrár og þá sérstaklega IFRS ársreikningum sem ber að skila fyrir apríl lok. Dæmi eru um að endurskoðendur séu í sóttkví eða einangrun og eins á það við þá starfsmenn fyrirtækja sem koma að ársreikningagerð. Við viljum því hér með koma þessum áhyggjum okkar á framfæri fyrir hönd félagsmanna okkar og óska eftir því að Ársreikningaskrá taki málið til skoðunar.”
    Svar hefur nú borist frá Ársreikningaskrá þar sem fram kemur að ekki verða lagðar á sektir vegna IFRS félaga fyrr en í byrjun júní.

  2. Jafnframt var sendur tölvupóstur til FME þar sem lýst var yfir áhyggjum hvað varðar ársreikningaskil eftirlitsskyldra aðila og fengum í kjölfarið eftirfarandi svar: Seðlabankinn er meðvitaður um þá erfiðu stöðu sem margir eru nú í m.a. aðilar er koma að gerð ársreikninga og endurskoðun þeirra. Neðangreint erindi verður tekið til skoðunar og verðum við í sambandi við þig með framhaldið á allra næstu dögum. Eftirfarandi svar barst 19. mars:

    Eins og kom fram í fyrri tölvupósti þá er Seðlabankinn meðvitaður um að staðan getur verið erfið hjá einstökum fyrirtækjum og/eða endurskoðendum. Við munum að svo stöddu ekki breyta skiladagsetningunum og hvetjum fyrirtækin til að vinna að sínum skýrslum miðað við skilaeindaga í skilayfirlitunum. Hins vegar ef sú staða kemur upp að einstök fyrirtæki lenda í vandræðum vegna þeirra aðstæðna sem nú eru uppi og sjá ekki fram á að geta skilað skýrslum innan settra tímamarka ætti viðkomandi fyrirtæki að hafa samband við sinn tengilið hjá Fjármálaeftirliti Seðlabankans.

  3. Í þriðja lagi var send fyrirspurn til RSK varðandi skil á einstaklingsframtölum í ljósi aðstæðna. RSK hefur tekið málið til skoðunar en engin formleg svör hafa borist.