Áritanir ríkisendurskoðanda

Eins og fram kom í tölvupósti til félagsmanna FLE þann 19. mars þá áritaði ríkisendurskoðandi þann 26. febrúar síðastliðinn ársreikning Íslandspósts ohf. fyrir árið 2023 með endurskoðunaráritun: „Áritun Ríkisendurskoðunar“. Fram kemur í áritun ríkisendurskoðanda að endurskoðað hafi verið í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla. Eins og fram kom í tölvupóstinum telur stjórn FLE að það fáist ekki staðist að ríkisendurskoðandi áriti ársreikning 2023 með þeim hætti sem hann gerir enda er hann ekki löggiltur endurskoðandi og að félagið vinni nú að því að koma afstöðu sinni á framfæri til viðeigandi aðila og stofnana.

Til samanburðar má geta þess að í ársreikningi Íslandspósts ohf. fyrir árið 2022 er að finna tvær áritanir, ólíkt því sem er í ársreikningi 2023. Í ársreikningi 2022 er annars vegar hefðbundin áritun löggilts endurskoðanda: „Áritun óháðs endurskoðanda“ og hins vegar áritun frá ríkisendurskoðanda: „Áritun ríkisendurskoðanda“ þar sem rætt er um húsbóndaábyrgð ríkisendurskoðanda á störfum þeirra endurskoðenda sem starfa hjá Ríkisendurskoðun og framkvæma endurskoðun á grundvelli laga um endurskoðendur og endurskoðun, lögum um ársreikninga og þeim almennu reglum sem þeir hlíta samkvæmt alþjóðlegum endurskoðunarstöðlum.

Hið sama gildir um ársreikning Isavia ohf. fyrir árið 2023.

 

Nokkur fjölmiðlaumfjöllun hefur verið um þetta mál. Viðskiptablaðið hefur fjallað um málið í tveimur greinum:

FLE undrast áritun ríkisendurskoðanda

Áritunin staðfesting á vinnu stofnunarinnar

Þá hefur jafnframt verið fjallað um málið á mbl.is og geta áskrifendur Morgunblaðsins nálgast ítarlegri umfjöllun í blaðinu. Í grein Morgunblaðsins staðfesti Áslaug Árnadóttir, formaður endurskoðendaráðs, að ráðið væri með málið til athugunar.