Bryndís meðeigandi hjá Deloitte í Danmörku.

Um síðustu mánaðamót var tilkynnt í Danmörku að einn félagsmaður FLE, Bryndís Símonardóttir, varð meðeigandi hjá Deloitte í Danmörku. Hún er löggiltur endurskoðandi bæði í Danmörku og hér heima og fyrst íslenskra endurskoðenda að gerast meðeigandi (partner) hjá einum af fjórum stóru endurskoðunarfyrirtækjunum, annars staðar en á Íslandi - aðeins 36 ára gömul. Bryndís er dóttir Símonar Á. Gunnarssonar endurskoðanda og á því ekki langt að sækja dugnaðinn. Hún féllst á að svara nokkrum spurningum frá FLE.

„Það eru í raun engar skilgreindar kröfur sem uppfylla þarf til þess að verða meðeigandi en á endurskoðunarsviði er löggilding nánast skilyrði og þar að auki er unnið með ákveðin viðmið. Það geta verið mjög ólík viðmið allt eftir hvernig „business case“ þú vinnur að. Það er hins vegar mikilvægt að geta sýnt fram á hvernig Deloitte hagnast á því að gera þig að meðeiganda.“ segir Bryndís þegar hún er spurð um hvert ferlið sé þegar Deloitte í Danmörku velur sér meðeiganda.

Bryndís er fædd árið 1983 og varð löggiltur endurskoðandi á Íslandi árið 2010. Hún flutti síðan til Danmerkur og lauk löggildingarprófinu þar árið 2015 og þá strax hófst undirbúningsvinna og stefnan sett að því að komast að sem meðeigandi hjá Deloitte sem fyrst. „Sú undirbúningsvinna er í raun að skapa sér skýra stefnu og sitt eigið „business case“. Því hef ég unnið að því undanfarin ár að sérhæfa mig í ákveðnum atvinnugreinum og í samvinnu við leiðbeinendur farið vandlega yfir það hvernig ég nýti eiginleika mína best, með bæði mín markmið og markmið Deloitte að leiðarljósi“ útskýrir hún.

„Haustið 2018 var ég beðin um að kynna „business case“ mitt fyrir helstu stjórnendum endurskoðunarsviðs og í framhaldinu var lögð enn skýrari stefna um meðeigendastöðu á þessu ári sem markmið. Á sama tíma hóf ég ferlið sem er kallað HPP (High Potential Program), þar sem 20-25 starfsmenn eru valdir hvert ár sem stefna að því að verða meðeigendur. Þar er unnið með mismunandi þema í hvert sinn, þar sem við hittumst 2-4 daga í senn í 5 skipti yfir hálft annað ár með ýmsum sérfræðingum á mismunandi sviðum. Hér var fyrst og fremst lögð áhersla á mannlega þáttinn og styrkja einstaklinginn og okkur sem stjórnendur, bæði andlega og líkamlega“ segir hún og heldur svo áfram:

„Ég fór líka í gegnum hin ýmsu persónuleikapróf, gekk með mælitæki til að mæla m.a. gæði svefns, púls og stress og lærði heilmikið um næringu, hugleiðslu og markmiðasetningu. Ég varð svo ófrísk í millitíðinni en ákvað í samráði við yfirmenn mína að halda áfram mínu striki varðandi þetta ferli. Ég eignaðist dóttur í ágúst 2019 og hélt kynningu aftur í lok árs 2019 fyrir stjórnendur á endurskoðunarsviðinu.“

 

 

Hjá Deloitte Danmörku starfa samtals um 2.900 manns og þar af eru 242 meðeigendur. Starfsmenn endurskoðunarsviðs eru tæplega 40% af heildarfjölda starfsmanna. Kynjahlutfallið er 60% karlmenn og 40% konur í heildina. Hins vegar eru hlutföllin allt önnur þegar kemur að meðeigendum, þar sem 88% eru karlmenn en einungis 12% eru konur, og hlutfall kvenna er í raun enn lægra þegar litið er á endurskoðunarsviðið. „Þetta er klárlega málefni sem Deloitte í Danmörku tekur alvarlega og vinnur skipulega að því að bæta stöðuna“ segir Bryndís og snýr aftur að kjarnanum.

„Þá hófust skrif á hinni eiginlegu umsókn sem á bæði að sýna fram á góðan árangur og góða innsýn í framtíðarplön. Þessi umsókn fer fyrir sérstaka nefnd og stjórnendur Deloitte í Danmörku og samhliða fer fram nokkurs konar áreiðanleikakönnun á öllum umsækjendum. Það vildi svo heppilega til að stýrihópnum leist vel á umsóknina og ég fékk því tækifæri til þess að halda kynningu fyrir þau í vor. Þá var loks komið að leiðarlokum og mikið fagnað þegar ég fékk endanlegt jákvætt svar.“


Bryndís er spurð um hvort það sé mikill munur á að starfa í Danmörku og á Íslandi, en hún vann hjá KPMG hér heima áður en hún fór utan.

„Almennt er ekki mikill munur á okkar starfi, þar sem við vinnum að sjálfsögðu með sömu endurskoðunarstaðla á Íslandi og í Danmörku og því er grunnurinn sá sami. Viðskiptamenn mínir starfa margir í umhverfi þar sem sérstök lög og reglugerðir gilda og því er það eflaust nokkuð ólíkt. Ég myndi segja að starfsumhverfið sé ekki mjög ólíkt en að sjálfsögðu hefur stærðin og mismunandi menning áhrif á starfsumhverfið. Það er t.d. mjög algengt að yngstu starfsmenn byrji strax eftir menntaskóla og eru því 19 ára þegar þeir byrja og vinna með háskólanámi í 7 ár. Einnig er undirbúningsferlið að löggildingu töluvert lengra hér í Danmörku með tveggja ára ferli fram að skriflegu prófunum og auk þess er munnlegt próf í lokin fyrir þá sem hafa náð skriflegu prófunum.“

Við spurðum Bryndísi nánar um hvað starf hennar innifelur og hún er skjót til svars: „Ég starfa á endurskoðunarsviði á skrifstofunni okkar í Kaupmannahöfn, nánar tiltekið í deild sem heitir „Public Serviceline“. Ég vinn við endurskoðun og ráðgjöf fyrir sveitarfélög, háskóla og félög í eigu hins opinbera, m.a. Københavns Kommune, Metroselskabet, Udviklingsselskabet By&Havn, Københavns Universitet, Copenhagen Business School og Danmarks Radio. Þar fyrir utan sinni ég einnig innri vinnu í deildinni sem er í mikilli þróun.“ svarar hún og bætir svo við: „Ég er mjög ánægð í mínu starfi og ég hef sannarlega notið góðs af þeim stuðningi sem ég hef fengið við að ná markmiðum mínum og finna mína hillu.“   

Að lokum vildum við fá að vita meira um persónulega hagi Bryndísar og hún svarar af ljúfmennsku: ”Á perónulegu nótunum þá líkar mér mjög vel hér í Danmörku og við erum búin að koma okkur vel fyrir í úthverfi Kaupmannahafnar eins og hver önnur vísitölufjölskylda. Þar bý ég með Mathias, dönskum kærasta mínum og börnunum okkar, Ísak Erni og Rakel Kötlu. Almennt myndi ég segja að Danmörk sé frábær fyrir fjölskyldufólk þó að endurskoðunarbransinn sé sennilega ekki best þekktur fyrir það“ segir hún og brosir.

„Eitt af markmiðum mínum er að sýna það í verki að tveggja barna móðir geti vel skilað sínu starfi sem endurskoðandi og meðeigandi hjá Deloitte. Ég er mjög markmiðadrifin en ekki á kostnað mannlega þáttarins. Það er mikilvægt fyrir mig að ég og allir í kringum mig hafi það gott á sama tíma og við náum markmiðum okkar.“ lýkur hún viðtalinu á sinn hógværa hátt.