Að færast milli flokka

 

Í haust barst álitsnefnd FLE beiðni um álit á því hvenær félög færast á milli stærðarflokka samkvæmt lögum um ársreikninga (sjá 11. tölul. 2. gr.), þ.e. hvort það væri strax á 2. ári sem félag fer yfir eða undir tiltekin stærðarmörk eða frá og með 3ja ári. Álitamálið snýst um það hvernig túlka skuli orðalagið „Flokkun félaga skal ekki breytast nema félag annaðhvort fari yfir eða undir viðmiðunarmörk viðkomandi og síðastliðins reikningsárs“. Stærðarflokkun félaga skiptir miklu máli þegar kemur að upplýsingagjöf og fleiri atriðum, ekki síst ef félag fer yfir mörk og verður að einingu tengdri almannahagsmunum.

Slík álitsgjöf fellur undir hlutverk álitsnefndar samkvæmt 12. gr. samþykkta félagsins en þar kemur m.a. fram að nefndin hafi það hlutverk að láta uppi fyrir félagsins hönd rökstutt álit um hvers konar fyrirspurnir varðandi starfssvið endurskoðenda, sem fyrir félagið kynnu að verða lagðar af Alþingi, framkvæmdavaldi ríkisins, dómstólum, samtökum, einstökum félagsmönnum eða viðskiptamönnum þeirra. Nefndin tók því beiðnina til umfjöllunar.

Í niðurstöðu álitsnefndar segir að skv. lokamálsgrein 11.tl. 2. gr. laga um ársreikninga nr. 3/2006 skuli flokkun félags ekki breytast nema félag annaðhvort fari yfir eða undir viðmiðunarmörk viðkomandi og síðasta reikningsárs. Niðurstaða álitsnefndar FLE var að þar sem, samkvæmt orðanna hljóðan, færist félag á milli stærðarflokka miðað við tiltekinn dag, þ.e. síðasta dag þess árs sem félag hefur í annað sinn í röð fallið undir viðmið annars flokks en áður, eigi hinn nýi stærðarflokkur við frá og með upphafi þriðja árs frá því félag fer fyrst undir eða yfir stærðarmörk. Engin ákvæði eru í ársreikningalögum sem skylda félög til að spá fyrir um, jafnvel strax í upphafi árs, hvort þau muni fara undir eða yfir mörk samkvæmt stærðarflokkun 2. greinar á yfirstandandi ári. Þá segir í niðurstöðu nefndarinnar að ef túlka ætti það sem svo að fara skuli að reglum fyrir stærri eða minni flokk strax á ári tvö hefði það í för með sér verulega íþyngjandi byrði fyrir ýmis félög sem færast upp um stærðarflokk og þar á meðal virkjuðust ákvæði sem ómögulegt er að beita í eða eftir lok árs en er samt refsivert að hlíta ekki.

Í áliti nefndarinnar er áréttað að hún hafi ekki lögformlegt hlutverk við túlkun íslenskra laga og reglna. Formleg túlkun laga og reglugerða er varða starfssvið endurskoðenda er í höndum stjórnvalda og dómstóla.