Áform um lagasetningu, lög um ársreikninga
Í dag var áformaskjal um lagasetningu sem varðar lög um ársreikninga birt í samráðsgátt. Eins og fram kemur hér er áformað að gera þríþættar breytingar á lögum um ársreikninga.
Í fyrsta lagi er um að ræða breytingu á stærðarmörkum. Stærðarmörk félaga í lögum um ársreikninga eru nú þau sömu og innan EES og er með frumvarpinu verið að hækka þau til samræmis við breytingar innan ESB. Einnig verður farið yfir endurskoðunarmörkin í lögum um ársreikninga.
Í öðru lagi er um að ræða breytingar sem lúta að skilum ársreikninga til opinberrar birtingar. Er þar lagt til að stærri og kerfislega mikilvæg félög skili ársreikningi fyrr á árinu en minni félög og að skilafrestur fyrir örfélög verði lengdur.
Í þriðja lagi er um að ræða innleiðingu á tilskipun (ESB) 2021/2101 um breytingu á tilskipun 2013/34/ESB að því er varðar upplýsingagjöf tiltekinna fyrirtækja og útibúa um tekjuskattsupplýsingar þar sem kveðið er á um skyldu um að útbúa skýrslu með tekjuskattsupplýsingum og birta opinberlega.
Áformaskjalið má nálgast hér og hér fylgiskjal um mat á áhrifum lagasetningar. Umsagnarfrestur er til 29. janúar og er öllum er heimilt að senda inn umsögn. Bæði reikningsskilanefnd FLE og álitsnefnd munu funda um málið á næstu dögum.
