Áritun ríkisendurskoðanda
Við höfum margoft fjallað um áritun ríkisendurskoðanda, sem er ekki löggiltur endurskoðandi, bæði í fréttum á heimasíðu okkar og fréttabréfum og því óþarfi að fjalla um forsögu málsins enn og aftur en meðal þess sem félagið hefur gert er að afla ítarlegs lögfræðiálits um málið, skorað á ársreikningaskrá að fella ársreikning af skrá sem ríkisendurskoðandi áritaði einn (ársreikningaskrá hafnaði þeirri beiðni), sent inn kvörtun til Atvinnuvegaráðuneytisins með áskorun um að taka málið til efnislegrar meðferðar og loks kvartað til eftirlitsstofnunar EFTA (ESA).
Á dögunum barst svar frá ESA þar sem beiðni félagsins var hafnað með þeim rökstuðningi að ESA þyrfti að forgangsraða málum og að málið væri enn til skoðunar hjá íslenskum stjórnvöldum. Félagið hefur hins vegar ekki enn fengið svar frá Atvinnuvegaráðuneytinu.
Loks má nefna að þann 2. desember fengu fulltrúar FLE fund með starfsmönnum Alþingis þar sem farið var yfir málið frá sjónarhóli félagsins. Málinu er því ekki lokið. Það var töluvert mikið í fréttum í haust og má finna umfjöllun um fréttaflutning og slóðir á viðkomandi fréttir í þessari frétt á heimasíðu félagsins.
