Einkafjárfestingarfélög láta til sín taka
Í sumar gaf Accountancy Europe út mjög athyglisverða samantekt um fjárfestingar einkafjárfestingarfélaga (e. private equity firms) í félögum í Evrópu sem veita þjónustu á sviði bókhalds, launavinnslu, reikningsskila og endurskoðunar. Samantektina, sem nefnist Private equity investments in accountancy firms og tekur til áranna 2015-2025, má nálgast hér.
Rétt er að benda á að enska hugtakið accountancy firm er víðfeðmt og getur þannig hvort heldur sem er náð til fyrirtækja sem eingöngu veita bókhalds-, launa- og reikningsskilaþjónustu en einnig til fyrirtækja sem bjóða upp á endurskoðun. Fjárfestingum einkafjárfestingarfélaga í síðarnefndu fyrirtækjunum, eða kaupum á tiltekinni starfsemi þeirra svo sem á ákveðnum landssvæðum, hefur fjölgað mjög á síðustu árum, t.d. á norðurlöndunum eins og lesa má um hér og hér.
Í samantektinni eru nefnd til sögunnar ein viðskipti á Íslandi en það eru kaup norska fyrirtækisins ECIT AS á 90% í KPMG bókað ehf., bókhalds- og launaþjónustu KPMG, sjá fréttir um kaupin hér og hér.
Samkvæmt Accountancy Europe hafa örar tækniframfarir, stafræn umbreyting og aukin samkeppni leitt til aukinnar fjárfestingaþarfar hjá fyrirtækjum í þessum geira og á sama tíma telji einkafjárfestingarfélög að fyrirtækin séu áhugaverðir fjárfestingarkostir, enda einkennist starfsemi þeirra af stöðugu sjóðstreymi, endurteknum tekjum og vaxtartækifærum.
Í samantektinni kemur fram að um 60% viðskiptanna snúi að staðbundnum reikningsskila-, skatta- og ráðgjafarfyrirtækjum, en að um 40% beinist að fyrirtækjum sem veiti einnig endurskoðunar- og staðfestingartengda þjónustu. Tekið er fram að samkvæmt 3. grein tilskipunar ESB um lögbundna endurskoðun (2006/43/EB) skuli endurskoðunarfyrirtæki vera í meirihlutaeigu löggiltra endurskoðenda eða annarra endurskoðunarfyrirtækja og jafnframt að löggiltir endurskoðendur eða endurskoðunarfyrirtæki skuli skipa meirihluta stjórnarmanna. Í samantektinni segir að þetta regluverk geri fjárfestingarfélögum á sviði einkafjárfestinga mun erfiðara en ella að öðlast yfirráð í endurskoðunarfyrirtækjum og dragi úr möguleikum þeirra til að hafa áhrif á stjórnarhætti og stefnumótun fyrirtækjanna. Því standi fjárfestar í einkafjárfestingum oft frammi fyrir lagalegum og skipulagslegum hindrunum þegar þeir beina sjónum sínum að endurskoðunarfyrirtækjum.
Framangreindar takmarkanir endurspeglast í 4. gr. laga um endurskoðun og endurskoðendur þar sem segir að meirihluti atkvæðisréttar í endurskoðunarfyrirtæki skuli vera í höndum endurskoðenda eða endurskoðunarfyrirtækja sem hlotið hafa viðurkenningu á Evrópska efnahagssvæðinu eða í aðildarríkjum stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum og að í endurskoðunarfélagi skuli meirihluti stjórnarmanna vera endurskoðendur eða fulltrúar endurskoðunarfyrirtækja en ef stjórnarmenn eru tveir skuli a.m.k. annar þeirra vera endurskoðandi eða fulltrúi endurskoðunarfyrirtækis.
Einkafjárfestingar í fyrirtækjum sem veita þjónustu sviði reikningshalds og endurskoðunar munu að öllum líkindum fara vaxandi eftir því sem samþjöppun eykst og stafræn þróun hefur áhrif á viðskiptalíkön þeirra. Samhliða þessari þróun, eins og Accountancy Europe bendir á, kunna að vakna álitamál varðandi stjórnarhætti, óhæði og gæði þjónustunnar.
Accountancy Europe mun áfram fylgja þessari þróun eftir og skapa umræðuvettvang um vaxandi hlutverk einkafjárfesta í reikningskila- og endurskoðunarþjónustu.