Erindi til endurskoðendaráðs

Í framhaldi af óformlegri fyrirspurn frá félagsmanni í haust þá sendi FLE tvö erindi til endurskoðendaráðs og óskaði eftir áliti þess á þeim málum.

Önnur fyrirspurnin snýst um það frá hvaða tímapunkti eigi að telja regluna um að skipta þurfi um áritunarendurskoðanda á sjö ára fresti þegar um einingu tengda almannahagsmunum (ETA) er að ræða, þ.e. þegar félag verður ETA í fyrsta sinn og kýs að hafa sama endurskoðanda og áður. Spurningin snýr að því hvort telja eigi starfstíma áritunarendurskoðandans frá því hið endurskoðaða félag verður ETA eða frá því viðkomandi endurskoðandi tók fyrst við sem endurskoðandi félagsins. Það virðist hvergi tekið beint á þessu álitamáli, hvorki í reglugerð 537/2014 né túlkunum sem komið hafa á þeirri reglugerð frá Evrópuráðinu. Hins vegar er í alþjóðlegu óhæðisstöðlunum, sem gilda um endurskoðun og endurskoðendur á Íslandi, skýrt að það skuli skipta um áritunarendurskoðanda hjá ETA félögum eigi sjaldnar en á sjö ára fresti og skuli þá telja frá því viðkomandi tók við endurskoðuninni, þó svo það hafi verið áður en félagið varð ETA. Erindið til endurskoðendaráðs snýr því að því hvort þetta taki af öll tvímæli um að það skuli ætíð telja frá því viðkomandi áritunarendurskoðandi tók við, óháð því hvenær hið endurskoðaða félag varð ETA.

Hin fyrirspurnin snýr að því hvernig skuli reikna hlutfall þóknunar, fyrir aðra þjónustu en endurskoðun, af þóknun fyrir endurskoðun í samræmi við ákvæði 2. tl. 4. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 537/2014 en samkvæmt texta reglugerðarinnar virðist ekki liggja ljóst fyrir hvernig reikna skuli þetta hlutfall. Sérstaklega er óskað eftir túlkun ráðsins á því hvort telja eigi þóknun fyrir könnun árshlutareiknings með sem aðra þjónustu og ef svo er hvort slík þóknun eigi að koma inn í teljara eða bæði teljara og nefnara í slíkum útreikningi eða hvort taka eigi þóknun vegna könnunar árshlutareiknings alveg út fyrir sviga.

Félagið mun að sjálfsögðu upplýsa félagsmenn um niðurstöður fyrrgreindra mála þegar svör hafa borist frá endurskoðendaráði.