Félagsmenn fá hrós frá Skattinum

Það er gaman að fá góða umsögn frá Skattinum en okkur bárust í dag skilaboð frá Elínu Ölmu vararíkisskattstjóra þar sem hún greinir frá því að skil á skattframtölum lögaðila 2020 voru með ágætum. Hér að neðan er vitnað áfram í skilaboð hennar.

Auðvitað var töluvert um að framtöl bærust seinna en fyrirfram var gert ráð fyrir en lokaniðurstaðan varð sú að 85,78% framtala bárust fyrir lok álagningar en þetta hlutfall var 81,77% í fyrra. Þannig voru áætlaðir skattstofnar hjá 14,04% lögaðila í ár en 18,04% árið 2019.

Á grunnskrá vegna álagningar 2020 voru 64.219 lögaðilar, þar af voru 46.652 skattskyld félög og sameignarfélög og 17.567 lögaðilar sem undanþegnir eru tekjuskatti. Framtöl bárust frá 40.019 skattskyldum lögaðilum það snemma að þau lentu ekki í áætlun. Niðurstaða álagningar verður birt í lok næstu viku. Í ljósi aðstæðna verður að telja þetta mjög góða niðurstöðu og vert að hrósa fagaðilum fyrir þeirra þátt í henni.

Þess má geta að lokum að framundan eru áætlaðir fundir félagsins með Skattinum, Ársreikningaskrá og Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu um frestmál og skil ársreikninga, en félagið hefur átt ágætt samstarf með þessum aðilum undangengin ár.