Stuðningur vegna hluta launakostnaðar í uppsagnarfresti

Skatturinn sendi eftirfarandi til félagsins miðvikudaginn 1. júlí 2020. Leiðbeiningar frá Skattinum sem snýr að stuðningi vegna hluta launakostnaðar í uppsagnarfresti sem er liður í aðgerðum stjórnvalda vegna Covid 19.

Nú styttist í að hægt verði að sækja um stuðning vegna hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti samkvæmt lögum nr. 50/2020. Stefnt er að því að þetta verði hægt í næstu viku en á þessari stundu er ekki unnt að segja nákvæmlega hvenær.

Uppfylla þarf þó nokkuð mörg skilyrði til að eiga rétt á greindum stuðningi og verða sum þeirra staðreynd þegar sótt er um. Ljóst er að óskað verður eftir ýmsum upplýsingum sem þarf að skrá í umsókn. Í því skyni að flýta fyrir þeim sem ætla að sækja um stuðning er með þessum pósti listaður upp hluti þeirra atriða sem óskað verður eftir og nauðsynleg eru til að ákvarða stuðninginn. Væntanlegir umsækjendur geta því hafið undirbúning fyrir að fylla út umsókn.

Tekjur
Óskað verður eftir sundurliðun tekna á árinu 2019 og það sem af er 2020 miðað við hvern almanaksmánuð. Með tekjum í þessu sambandi er átt við allar tekjur, þ.m.t. fjármagnstekjur og óreglulegar tekjur, þó ekki hagnað af sölu rekstrareigna, sbr. sundurliðun niður á ýmsa reiti í skattframtölum og rekstrarskýrslum, RSK 1.04, RSK 4.10 og RSK 4.11. Þetta er gert til þess að hægt sé að reikna út tekjufall, en það þarf að hafa verið a.m.k. 75% miðað við eina af fjórum útreikningsaðferðum. Þegar búið er að fylla inn upplýsingar um tekjur umsækjanda velur Skatturinn hagstæðustu niðurstöðu fyrir viðkomandi.

Launamenn
Skrá þarf í umsókn tilteknar upplýsingar um hvern launamann sem sagt hefur verið upp störfum hjá umsækjanda og sótt er um stuðning vegna.

  • Ráðningardagsetning – þarf að vera fyrir 1. maí 2020.
  • Uppsagnardagur – er almennt 1. dagur mánaðar á tímabilinu frá og með 1. maí til og með 1. október 2020. Þó getur einnig verið að stuðningur verði greiddur vegna uppsagnardagsins 1. apríl 2020 – en ekki fyrr.
  • Uppsagnarfrestur í mánuðum, 1, 2, 3 eða fleiri en 3 mánuðir.
  • Dagsetning starfsloka – getur ekki verið fyrr en uppsagnardagur.
  • Dagsetning endurráðningar ef hún er orðin.
  • Starfshlutfall – mest 100%.
  • Mótframlag launagreiðanda í lífeyrissjóð. Getur mest orðið 11,5% af iðgjaldsstofni í almennt framlag og 2% í séreign. Ef ekkert er greitt í séreign getur hlutfallið orðið 13,5% í almennt.
  • Ráðningarkjör/launakjör miðað við 1. maí 2020. Hér er átt við laun og aðrar fastar greiðslur s.s. hlunnindi og fríðindi.
  • Uppgjörstímabil orlofs. Gera þarf grein fyrir því á hvaða tímabili orlof verður gert upp.
  • Tölvupóstur launamanns. Þetta svæði er valkvætt en æskilegt að fylla út ef unnt er.

Vakni einhverjar frekari spurningar má senda tölvupóst á Elin.Arthursdottir@skatturinn.is