Skráningaratriði v. hluta launakostnaðar í uppsagnarfresti - frá Skattinum

Í framhaldi af pósti til ykkar 30. júní er rétt að upplýsa að nú er þetta alveg að koma. Gerum ráð fyrir að opnað verði fyrir umsóknir seinna í dag – ef ekkert óvænt kemur upp – og þá alla vega á helginni.

Ítarlegar leiðbeiningar eru að fara á vef Skattsins, skatturinn.is. Þær verða vistaðar á sérstöku “Covid-svæði” sem finnst hér: https://www.rsk.is/einstaklingar/covid#tab2. Afar mikilvægt er að væntanlegir umsækjendur kynni sér þessar leiðbeiningar áður en þeir hefja útfyllingu á umsókn. Um leið og hægt verður að sækja um verður birt frétt þar um á skatturinn.is – og þar verður krækja á leiðbeiningarnar.

Athygli er vakin á því að umsóknarfrestur vegna maí- og júnílauna hefur verið ákveðinn 20. ágúst 2020. Þetta er gert þar sem ómögulegt var að uppfylla það að hægt væri að sækja um í síðasta lagi 20. júní og eins er stuttur tími til stefnu til að geta sótt um í síðasta lagi 20. júlí.

Eins og alltaf verða einhverjar breytingar “á leiðinni” þannig að eftirfarandi eru þau atriði sem skrá þarf vegna hvers og eins launamanns:

  • Ráðningardagsetningu hvort sem hún er samkvæmt skriflegum eða munnlegum ráðningarsamningi. Dagsetningin getur ekki verið 1. maí 2020 eða síðar.
  • Uppsagnardagur er sá dagur sem uppsögn viðkomandi launamanns kom til framkvæmda. Þetta verður að vera 1. dagur mánaðar á tímabilinu frá og með 1. maí til og með 1. október 2020. Einhver dæmi geta verið um að uppsagnardagur sé 1. apríl 2020 en hann getur ekki verið fyrr.
  • Uppsagnarfrestur. Hér eru gefnir fjórir möguleikar að velja úr: „Einn mánuður“, „Tveir mánuðir“, „Þrír mánuðir“ eða „Meira en þrír mánuðir“. Stuðningur er aldrei greiddur fyrir lengri uppsagnarfrest en þrjá mánuði eftir atvikum að viðbættu orlofi (sem getur eftir atvikum verið fjórði mánuðurinn, þ.e. ef uppgjörsmánuður er síðar).
  • Dagsetning starfsloka. Hér er átt við þann dag þegar viðkomandi starfsmaður lýkur störfum, hvort sem það er á uppsagnarfresti eða í lok hans.
  • Forgangsrétti lýkur. Þetta vísar til réttinda launamanns til endurráðningar og er reiknuð dagsetning. Uppsagnardagur + 12 mánuðir, þó ekki síðar en 30. júní 2021.
  • Dagsetning endurráðningar. Þessi reitur er einungis fylltur út ef launamaður hefur verið endurráðinn til starfa hjá launagreiðanda þegar sótt er um. Eftir endurráðningu skal launagreiðandi ekki njóta stuðnings fyrir viðkomandi launamann.
  • Starfshlutfall eins og það var 1. maí 2020. Getur hæst verið 100%. Ef launamaður hefur þegið hlutabætur atvinnuleysistrygginga og verið þannig í skertu starfshlutfalli skal miða við stöðuna eins og hún var áður en viðkomandi fór á bætur. Athuga þarf að launamaður getur ekki þegið hlutabætur vegna sama tímabils og stuðningur er ákvarðaður fyrir.
  • Mótframlag launagreiðanda í almennan lífeyrissjóð. Þetta hlutfall getur hæst verið 11,5% ef einnig er greitt í séreignarsjóð en 13,5% ef ekkert er greitt í séreign. Samanlagt hlutfall framlags í almennan og séreignarsjóð má ekki vera hærra en 13,5% af iðgjaldsstofni.
  • Mótframlag launagreiðanda í séreignarsjóð. Þetta hlutfall getur hæst orðið 2%.
  • Launagreiðslur. Hér er átt við laun og aðrar fastar greiðslur, þ.m.t. hlunnindi, samkvæmt ráðningarsamningi eins og staðan var miðað við 1. maí 2020. (Aukagreiðslur, eins og tilfallandi yfirvinna eða bónusgreiðslur eiga ekki að teljast með, enda ekki hluti af föstum launakjörum).
  • Staðgreiðslumánuður orlofs. Átt er við hvenær áunnið orlof var/verður gert upp við launamann, þ.e. hvaða staðgreiðslutímabili það tilheyrir.
  • Fjárhæð orlofs. Heildarfjárhæð orlofsréttar til uppgjörs við launamanns að meðtöldu mótframlagi í lífeyrissjóð.