Svanbjörn Thoroddsen með áhugaverðan fyrirlestur

Svanbj
Svanbj
Svanbjörn Thoroddsen partner hjá KPMG flutti áhugaverðan fyrirlestur á hádegisfundi FLE 6. febrúar.

Svanbjörn Thoroddsen partner hjá KPMG flutti áhugaverðan fyrirlestur á hádegisfundi FLE 6. febrúar. Umfjöllunarefni Svanbjörns voru annars vegar ráðgjöf varðandi kaup, sölu og samruna fyrirtækja og hins vegar umsjón með skráningu verðbréfa í kauphöll. Velti hann fyrir sér stöðu endurskoðunarfyrirtækja hvað þetta varðar.

Hann vakti athygli gesta á því að hið fyrrnefnda er ein af algengustu þjónustu allra alþjóðlegra endurskoðunarfyrirtækja en á Íslandi eru bankarnir stærstir á þessum markaði. Bankar hafa spyrt saman ráðgjöf og aðra þjónustu svo sem fjármögnun og fjárhagslega endurskipulagningu. Það vekur upp spurningar um hugsanlega hagsmunaárekstra. Endurskoðunarfyrirtæki eru meðal annarra sem hafa séð um ráðgjöf vegna kaupa, sölu og samruna fyrirtækja og að mati Svanbjörns væru þau betri kostur vegna þekkingar, reynslu og faglegrar færni. Hugsanlega eru þau einu aðilarnir sem tryggt geta að ekki sé um hagsmunaárekstra að ræða.

Það er líka algeng þjónusta alþjóðlegra endurskoðunarfyrirtækja að hafa umsjón með skráningu verðbréfa í kauphöll. Það er séríslenskt fyrirbæri að fjármálafyrirtæki hafi einkarétt á umsjón með skráningarlýsingum og undirbúningi skráningar verðbréfa í kauphöll. Heimild endurskoðunarfyrirtækja til þess að annast þessa þjónustu myndi auka samkeppni og vera hagsmunamál fyrir markaðinn og væri eðlileg þjónusta af hálfu þeirra.