FLE-blaðið komið út

FLE-blaðið er komið út og unnið er að því að senda blaðið til félagsmanna. Félag löggiltra endurskoðenda sendir nú frá sér 40. tölublaðið, en blaðið hefur verið gefið út árlega frá árinu 1978. SKOÐA  BLAÐIÐ HÉR. Blaðið er gefið út á bæði prentuðu og rafrænu formi, en blaðið er sent á prentuðu formi til allra félagsmanna auk þess sem því er dreift til ýmissa stofnanna og fyrirtækja. Í blaðinu er almennt fjallað um málefni líðandi stundar er varða skatta, endurskoðun og reikningshald. Þá er reynt að skyggnast inn í heim endurskoðandans á léttum nótum hvort sem um er að ræða innan eða utan skrifstofunnar. Starfsemi félagsins á árinu fær svo almennt sitt pláss en henni er gerð góð skil bæði í máli og myndum.
Margt áhugavert er í blaðinu að þessu sinni. Fjallað er um erfðafjárskatt og önnur erfðatengd málefni en ýmsar flækjur geta komið upp í þeim efnum. Grein um reikningshald er á sínum stað að venju en í henni er fjallað um flækjur og rembihnúta á bundnu eigin fé. Mikið hefur verið fjallað um heimagistingu á síðustu misserum, en í grein sinni tekur Ágústa Katrín Guðmundsdóttir saman upplýsingar um þau atriði sem þarf að hafa í huga við útleigu á húsnæði til ferðamanna. Ný persónuverndarlöggjöf mun brátt taka gildi en fjallað er um hana út frá starfi endurskoðandans. Þá líta fjórir félagar úr stéttinni yfir farinn veg en margt hefur breyst frá því að þeir hófu störf á endurskoðunarskrifstofu fyrir um 40 árum.