FLE veitir tveimur aðilum styrki

Félagið auglýsti styrki til úthlutunar í febrúar 2019 og bárust sjóðnum þrjár umsóknir. Stjórn Námsstyrkja- og rannsóknarsjóðs félagsins hefur ákveðið að veita styrki til tveggja aðila þeirra: Hönnu Kristínar Skaftadóttur vegna doktorsrannsóknar og Páls Ríkharðssonar fyrir hönd Viðskiptadeildar HR í samstarfi við Vitvélastofnun.

Stjórnin samþykkti að veita Hönnu Kristínu styrk til að skoða "Áhrif íhlutunar við mat á eðlislægri áhættu við endurskoðun lífeyrissjóða". Gerð verður tilraun þar sem könnuð er og metin eðlislæg áhætta varðandi stöðu lífeyrissjóða og síðan verður kannað hvort munur verði á mati endurskoðenda á áhættu eftir starfsreynslu, sérhæfingu ofl. Markmið verkefnisins er skoða hvaða áhrifaþættir séu til staðar og hvort það sé hægt að byggja upp gervigreind sem myndi mögulega minnka áhættu á hlutdrægni þegar kemur til áhættumats á eðlislægri áhættu.

Stjórnin veitti Páli Ríkharðssyni og Vitvélastofnun styrk til að vinna verkefni um "Endurskoðun smárra og meðalstórra fyrirtækja og gervigreind, tækifæri og framtíð". Til að kanna hvaða tækifæri felast í að nota gervigreind í störfum löggiltra endurskoðenda mun þetta verkefni leitast við að svara rannsóknarspurningunni: Hvaða tækifæri felast í beitingu gervigreindar í starfi löggiltra endurskoðenda á Íslandi þegar kemur að endurskoðun smárra og meðalstórra fyrirtækja? Ávinningur verkefnisins felst meðal annars í að dregnar verða ályktanir um ávinning og kostnað af notkun gervigreindar í endurskoðun smárra og meðalstórra fyrirtækja á Íslandi og metið verður hvaða hæfni og menntun löggiltir endurskoðendur þurfa að hafa þegar gervigreind er notuð við endurskoðun fyrirtækja.