Fréttaflutningur vegna áritana ríkisendurskoðanda á ársreikninga

Eins og margir hafa án efa tekið eftir var mikið ritað um áritanir ríkisendurskoðanda á ársreikninga ríkisfyrirtækja í gær. Hér að neðan er samantekt, ekki endilega tæmandi, um skrif fjölmiðla og tenglar í fréttirnar.

RÚV

Ríkisendurskoðandi tilkynntur til lögreglu

Fréttaflutningurinn hófst með frétt á vef RÚV sem var birt rétt fyrir klukkan sjö að morgni en uppfærð eftir það. Í fréttinni kemur m.a. fram að endurskoðendaráð, sem sinnir gæðaeftirliti með störfum endurskoðenda, hafi vísað málinu til lögreglu og að FLE hafi vísað málinu til atvinnuvegaráðuneytisins og til ESA, eftirlitsstofnunar EFTA-dómstólsins.

Eins og ef löglærður forstjóri Landspítala skæri upp sjúklinga

Í fréttinni er fjallað um skrif Gylfa Magnússonar, prófessors í viðskiptafræði og fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, á Facebook þar sem hann skrifar meðal annars:

Slík endurskoðun þarf alltaf að vera á ábyrgð löggiltra endurskoðenda. Þeir hafa til þess sérfræðiþekkingu, eftir viðamikið nám, starfsþjálfun, erfið próf og símenntun eftir löggildingu. Forstjóri Ríkisendurskoðunar (sem er titlaður Ríkisendurskoðandi, sem er hluti flækjunnar þegar viðkomandi er ekki endurskoðandi) getur auðvitað verið með menntun í öðru en endurskoðun en getur ekki borið faglega ábyrgð á verkum sem löggiltir endurskoðendur einir geta sinnt og getur ekki skrifað upp á ársreikninga sem endurskoðandi. Það væri eins og ef forstjóri Landspítalans væri lögfræðingur en myndi í krafti stöðu sinnar skera upp sjúklinga eða ávísa lyfjum. Eða ef Vegamálastjóri væri dýralæknir en myndi burðarþolsmæla brýr.“

Tekur undir sjónarmið um að ríkisendurskoðandi eigi ekki að árita ársreikninga án löggildingar

Í þessari frétt tekur Sveinn Arason, fyrrverandi ríkisendurskoðandi, undir ábendingar endurskoðendaráðs og FLE um að ríkisendurskoðandi eigi ekki að árita ársreikninga án löggildingar sem endurskoðandi.

Lögreglan vísar frá kæru gegn ríkisendurskoðanda

Í fjórðu frétt RÚV um málið kemur fram að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi vísað frá kæru endurskoðendaráðs á hendur ríkisendurskoðanda vegna áritunar hans á ársreikningum ríkisfyrirtækja en að stjórnsýslukæra vegna sama máls sé til meðferðar hjá atvinnuvegaráðuneytinu

Viðskiptablaðið

Tilkynna ríkis­endur­skoðanda til lög­reglu

Eins og ef vegamála­stjóri væri dýralæknir

Lögreglan vísar frá kæru Endur­skoðendaráðs

Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um málið í gær. Í fyrstu frétt blaðsins er að finna góða umfjöllun um það sem FLE hefur gert í málinu undir millifyrirsögninni „FLE fer með málið til ESA“ en þar segir:

Félag löggiltra endurskoðenda (FLE) hefur gagnrýnt áritun ríkisendurskoðenda í ársreikningum framangreindra ríkisfyrirtækja. Í febrúar síðastliðnum birti FLE ítarlegt minnisblað sem Hróbjartur Jónatansson hæstaréttarlögmaður vann fyrir félagið, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að áritun ríkisendurskoðanda sé andstæð lögum um ársreikninga og lögum um endurskoðendur og endurskoðun. FLE fór í kjölfarið þess á leit við ársreikningaskrá ríkisskattstjóra að hún endurupptaki ákvörðun sína um skráningu samstæðureiknings Isavia ohf. og dótturfélaga vegna reikningsársins 2023. Ásreikningaskrá hafnaði beiðninni í lok apríl síðastliðnum og sagði að vísa beri málinu frá „sökum skorts á aðild og án þess að tekin sé efnisleg ákvörðun í málinu varðandi það hvort skilyrði fyrr endurupptöku séu til staðar“. FLE sendi atvinnuvegaráðuneytinu bréf í maí síðastliðnum þar sem farið var á leit við ráðuneytið að það ógilti þá ákvörðun ársreikningaskrár að færa ársreikning og samstæðuársreikning Isavia ohf. fyrir árið 2024 á skrá og til opinberrar birtingar og taka erindi FLE til efnislegrar meðferðar. Jafnframt ákvað félagið í apríl síðastliðnum að senda eftirlitsstofnun EFTA (ESA) formlega beiðni um að taka þetta mál fyrir „enda varðar það innleiðingu á tilskipunum Evrópusambandsins í íslenskan rétt“, að því er segir í fréttabréfi FLE til félagsmanna. FLE bíður enn svara frá ráðuneytinu og ESA.“

DV

Ríkisendurskoðandi tilkynntur til lögreglu fyrir að árita reikninga án þess að vera löggiltur endurskoðandi

DV fjallaði um málið í ítarlegri grein þar sem m.a. kemur fram að á árum áður hafi verið gerð krafa að lögum að ríkisendurskoðandi væri löggiltur endurskoðandi en að skilyrðið hafi verið fellt út með nýjum lögum um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga árið 2016.

 

Vísir

Tilkynntur til lögreglu

Eins og löglærður for­stjóri spítala væri að skera upp sjúk­linga

Vísir skrifaði einnig fréttir um málið. Fjallað er um FLE og rætt við Kristrúnu Ingólfsdóttur, formann félagsins, sem bendir á að það sé langt og strangt nám sem þarf til að verða löggiltur endurskoðandi auk þess sem því fylgi endurmenntun og ákveðið eftirlit. Þess vegna hafi félaginu þótt mjög sérstakt að ríkisendurskoðandi, sem er ekki löggiltur endurskoðandi, áritaði ársreikninga endurskoðunarskyldra aðila. Fjallað er um viðbrögð félagsins með eftirfarandi hætti:

„Félagið leitaði til lögmanns sem komst að þeirri niðurstöðu að aðeins löggiltir endurskoðendur gætu áritað endurskoðaða ársreikninga. Ársreikningaskrá hefði engu að síður sett ársreikninga á skrá hjá sér sem Kristrún telur óeðlilegt enda reikningarnir ekki áritaðir af löggiltum endurskoðanda. Fyrir vikið hefði félagið vísað málinu til ráðuneytisins og ESA til skoðunar.“