Heimsókn í Háskólann í Reykjavík

Eins og félagsmenn margir vita er nýliðun í stétt endurskoðenda alltof lítil og brýnt að fá fleira fólk til starfa á endurskoðunarstofum, hvort sem það stefnir á löggildingu eða ekki. Sú áskorun sem stéttin stendur frammi fyrir er ekki bundin við Ísland heldur er nýliðun og skortur á fólki til starfa á endurskoðunarstofum alþjóðlegt vandamál. Bæði á Norðurlöndunum og hjá alþjóðasamtökum endurskoðenda (IFAC) er í gangi vinna sem miðar af því að laða að fleira fólk í stéttina.

Fyrir þá sem vilja rifja upp dönskukunnáttuna úr grunnskóla þá má benda á flotta auglýsingaherferð danska endurskoðunarsambandsins.

Einn þáttur í stefnumótun FLE, sem verður kynnt félagsmönnum fljótlega, felst í því að auka sýnileika félagsins út á við og kynna þau fjölbreyttu og skemmilegu verkefni sem endurskoðendur og annað starfsfólk á endurskoðunarstofum fæst við. Þess má geta að ný rannsókn Accountancy Europe hefur leitt í ljós að fólk veit lítið um störf endurskoðenda. Hluti af markaðssókn FLE felst í því að ná beint til nemenda í grunnnámi í háskóla og hvetja þá til að kynna sér meistaranám í reikningsskilum og endurskoðun sem bæði Háskólinn í Rvík. og Háskóli Íslands bjóða upp á.

Á dögunum var farið í heimsókn í Háskólann í Rvík. og spjallað við nema á öðru ári í grunnnámi í viðskiptafræði. Við á skrifstofunni fengum þau Margreti G. Flóvenz, kennara við skólann, Signýju Magnúsdóttur frá Deloitte og Gísla Pál Baldvinsson frá KPMG til liðs við okkur. Öll eru þau löggiltir endurskoðendur. Þau fjölluðu um störf endurskoðenda auk þess sem Margret ræddi við nemendur um hvernig best væri fyrir að undirbúa sig fyrir meistaranám með því að velja valnámskeið í skattskilum og reikningshaldi á 3ja ári í grunnnámi. Heimsóknin tókst vel og greinilegt var að þau Margret, Signý og Gísli Páll náðu vel til nemenda enda stóðu þau sig öll með prýði.

Stefnan er svo sett á að fá fljótlega að halda sambærilegar kynningar í öðrum háskólum.