Ný lög um endurskoðendur og endurskoðun

Alþingi samþykkti þann 20. júní síðastliðinn ný lög um endurskoðendur og endurskoðun sem taka gildi 1. janúar 2020. Frá sama tíma falla úr gildi lög um endurskoðendur nr. 79/2008.

FLE hefur með þátttöku í vinnuhópi AN ráðuneytisins um nokkurra ára skeið unnið að því að gera lögin sem best úr garði og ítrekað kynnt fyrir félagsmönnum þær helstu breytingar sem felast í nýjum lögum. Á síðasta sprettinum færðist eftirlitshlutverkið frá FME en vegna sameiningar þess við Seðlabankann þótti löggjafanum rétt að fela Endurskoðunarráði hlutverkið áfram á meðan skoðað verður hvort hugmyndin um "eftirlitsstofnun" er betri kostur til langframa. Samkvæmt nýju lögunum verður Endurskoðendaráð alfarið stjórnskipað og stendur því til á næstunni að skipa í það upp á nýtt.

Óli Björn Kárason  formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis mælti fyrir frumvarpinu sem var samþykkt með 41 atkvæði.