Prófnefnd - Löggilding til endurskoðunarstarfa

Í prófnefndinni sitja Jón Arnar Baldurs, Margret G. Flóvenz og Helgi Einar Karlsson
Í prófnefndinni sitja Jón Arnar Baldurs, Margret G. Flóvenz og Helgi Einar Karlsson

Endurskoðendaráð skipaði í upphafi þessa árs prófnefnd til næstu fjögurra ára en skipunartími eldri prófnefndar rann út í lok síðasta árs. Í prófnefndinni sitja Jón Arnar Baldurs, sem er formaður prófnefndar, Margret G. Flóvenz og Helgi Einar Karlsson.

Jón Arnar Baldurs

Jón Arnar er aðjúnkt við Háskóla Íslands þar sem hann kennir námskeið í bæði reikningsskilum og endurskoðun. Auk þess situr hann í endurskoðendaráði og starfar sem sjálfstæður ráðgjafi. Jón Arnar varð löggiltur endurskoðandi árið 2000. Hann býr að fjölbreyttri starfsreynslu og hefur meðal annars starfað hjá PwC, sem fjármálastjóri og verkefnastjóri hjá alþjóða reikningsskilaráðinu. Jón Arnar hefur verið formaður prófnefndar frá árinu 2017.

Margret G. Flóvenz

Margret er kennari við Háskólann í Reykjavík þar sem hún kennir endurskoðun og kemur að umsjón með meistaranámi í reikningsskilum og endurskoðun, m.a. við undirbúning kennslu í gerð og staðfestingu sjálfbærniupplýsinga. Hún er einnig sjálfstætt starfandi ráðgjafi. Margret lauk löggildingarprófum árið 1993. Hún starfaði sem endurskoðandi og var meðeigandi hjá KPMG í 20 ár og þar áður hjá Ernst & Young um 10 ára skeið.

Helgi Einar Karlsson

Helgi Einar varð löggiltur endurskoðandi árið 2017. Hann er yfirmaður reikningsskila hjá Deloitte þar sem hann hefur starfað frá árinu 2010. Hjá Deloitte sinnir Helgi Einar margvíslegri reikningsskilaráðgjöf, einkum við stærri félög, og aðstoð við endurskoðunarteymi þegar kemur að reikningshaldslegum álitaefnum.

Löggildingarpróf 2024

Fyrirkomulag löggildingarprófa árið 2024 verður með sama hætti og á síðastliðnum árum. Prófhlutar verða tveir sbr. 3. gr. reglugerðar 595/2020 um próf til löggildingar til endurskoðunarstarfa; annars vegar próf í endurskoðun og reikningsskilum og hins vegar próf í skattalögum, félagarétti, kostnaðarbókhaldi og stjórnendareikningsskilum.

Dagsetning prófa liggur ekki fyrir en þau munu verða haldin í október.