Samanburður á endurskoðunarmörkum í Evrópu

Nú í janúar gáfu Evrópusamtökin Accountancy Europe út samantekt þar sem endurskoðunarmörk í 32 löndum í Evrópu eru borin saman og breytingar á mörkum frá árinu 2021 dregnar fram en það ár gáfu samtökin síðast út sambærilega samantekt. FLE er aðili að Accountancy Europe og Ísland er með í samanburðinum. Samantektina, sem nefnist Audit exemption thresholds in Europe, má nálgast hér. Eins og sjá má í samanburðartöflu á bls. 5 - 6 eru endurskoðunarmörkin mjög misjöfn milli landa.

Í flestum löndum Evrópu skal endurskoða ársreikninga ef félag fer yfir a.m.k. tvö af þremur viðmiðunarmörkum um tekjur, eignir og meðalfjölda starfsmanna á reikningsári. Stærðarmörk lítilla, meðalstórra og stórra félaga voru nýverið hækkuð um 25% í Evrópusambandinu en hámarksviðmið endurskoðunarskyldunnar þar, nú sem fyrr, eru miðuð við mörk lítilla og meðalstórra félaga. Samkvæmt ársreikningatilskipuninni eru þau mörk því nú hrein velta 15,0 milljónir EUR, heildareignir 7,5 milljónir og 50 starfsmenn.

Á Íslandi eru mörkin 400 milljóna kr. tekjur (2,8 milljónir EUR), 200 milljóna eignir (1,4 milljónir EUR) og 50 starfsmenn sbr. 98. gr. laga um ársreikninga.

Íslensku mörkin eru lægri en í mörgum landanna en líka hærri en í sumum löndum. Sem dæmi má nefna að mörkin á Íslandi eru mun hærri en bæði í Svíþjóð og Finnlandi. Í Danmörku eru mörk endurskoðunarskyldunnar umtalsvert hærri en hérlendis en á móti kemur að gerð er krafa um víðtæka könnun (e. extended review) á ársreikningum félaga sem eru talsvert undir íslensku mörkunum.

Sérstaka athygli vekur að í Noregi eru viðmiðunarmörk eigna miklu hærri en hér á landi en miklu lægri þegar kemur að tekjum. Þá er í Noregi miðað við 10 starfsmenn á sama tíma og miðað er við 50 starfsmenn á Íslandi. Auk þess eru félög í Noregi aðeins undanskilin endurskoðun ef þau eru undir öllum þremur viðmiðunarmörkunum.

Í samráðsgátt stjórnvalda er að finna áformaskjal um lagasetningu sem varðar lög um ársreikninga. Eins og fram kemur hér er áformað að gera þríþættar breytingar á lögum um ársreikninga, þar á meðal á stærðarmörkum. Stærðarmörk félaga í lögum um ársreikninga eru nú þau sömu og innan EES og stendur til að hækka þau til samræmis við breytingar innan ESB, nánar tiltekið um 25%. Í áformaskjalinu kemur fram að um leið verði farið yfir endurskoðunarmörkin en fyrrgreind mörk hafa verið óbreytt á Íslandi í meira en áratug. Áformaskjalið má nálgast hér og hér er fylgiskjal um mat á áhrifum lagasetningar. Umsagnarfrestur er til 29. janúar og er öllum er heimilt að senda inn umsögn. Í framhaldinu mun verða lagt fram frumvarp til breytinga á lögunum og verður þá aftur gefið færi á því að senda um umsagnir. Álitsnefnd FLE mun senda inn umsögn um áformaskjalið á næstu dögum.