Samkeppniseftirlitið beinir tilmælum til stjórnvalda vegna gæðaeftirlits endurskoðendaráðs
Þann 30. júní birti Samkeppniseftirlitið frétt á heimsíðu sinni ásamt áliti varðandi framkvæmd gæðaeftirlits með störfum endurskoðenda sem fjallar um tilhögun og framkvæmd gæðaeftirlits með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum en sem kunnugt er þá annast endurskoðendaráð eftirlitið samkvæmt ákvæðum laga nr. 94/2019 (sjá VII. kafla laganna). Eins og fram kemur í 4. gr. álitsins er það niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að núgildandi tilhögun á gæðaeftirliti með endurskoðunarfyrirtækjum og endurskoðendum sé til þess fallin að skaða samkeppni á viðkomandi markaði og stríði þannig gegn markmiði samkeppnislaga. Með álitinu beinir Samkeppniseftirlitið þeim tilmælum til stjórnvalda að breyta núverandi framkvæmd á eftirlitinu, en á meðan sú endurskoðun stendur yfir að sporna gegn því að eftirlitið sé í höndum beinna keppinauta þeirra aðila sem sæta eftirliti hverju sinni. Við hvetjum félagsmenn til að kynna sér álitið og frétt Samkeppniseftirlitsins.
FLE mun að sjálfsögðu fylgjast með málinu, upplýsa félagsmenn um framvindu þess þegar viðbrögð stjórnvalda liggja fyrir og eftir atvikum koma sínum sjónarmiðum á framfæri.