Stefna og aðgerðaáætlun í baráttu gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Þann 25. september birti dómsmálaráðuneytið endurskoðaða stefnu stjórnvalda ásamt áætlun um frekari aðgerðir í baráttunni gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Eins og segir hér þá leitast stjórnvöld með þessu eftir því að styrkja varnir samfélagsins gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi. Aðgerðirnar eru tíu talsins. Í þessari endurskoðuðu stefnu leggja stjórnvöld nú sérstaka áherslu á þrjú lykilmarkmið sem eru að tryggja endurheimt ávinnings, takast á við áhættu tengda reiðufé og bregðast við áskorunum vegna sýndareigna.

Stefnu stjórnvalda er að finna hér og hér má finna aðgerðaáætlun stýrihóps dómsmálaráðherra. Í kafla 4 í síðarnefndu skýrslunni er fjallað um starfsemi tilkynningarskyldra aðila, þar á meðal endurskoðenda en þar segir:

„Hvað varðar aðrar starfsstéttir er áhætta megin veruleg hjá lögmönnum, endurskoðendum, bifreiða- og fasteignasölum …“. Vísað er til síðustu aðgerðaráætlunar þar sem lögð var áhersla á að efla varnir í fyrrnefndum starfsstéttum með aukinni fræðslu og virku samstarfi og að mikilvægt sé að viðhafa áframhaldandi fræðslu og forvarnir og gefa út bæði almennt og sértækt fræðsluefni sem sé sniðið að hverri starfsstétt.

Á bls. 12 í aðgerðaáætluninni er að finna nánari upplýsingar um eftirlit og leiðbeiningar:

Markmið

Að efla varnir og draga úr peningaþvættisáhættu hjá tilteknum starfsstéttum (lögmönnum, endurskoðendum, fasteigna- og bifreiðasölum) með áhættumiðuðu eftirliti, skýrum leiðbeiningum og markvissri fræðslu.

Lýsing aðgerðar

Skatturinn mun:

  • Framkvæma áfram reglulegar vettvangs- og þemaathuganir.
  • Draga saman og greina niðurstöður athugana til að kortleggja algenga veikleika.
  • Útbúa sértækar leiðbeiningar og lista yfir „rauð flögg“ fyrir hverja starfsstétt.
  • Þróa fræðsluefni byggt á niðurstöðum eftirlitsins, í samstarfi við viðeigandi fagfélög og aðra hagsmunaaðila, og koma því á framfæri með stuðningi þeirra og menntastofnana eftir því sem við á.
  • Koma á formlegu samstarfi og samráði við fagfélög og aðra hagsmunaaðila um fræðsluþarfir, miðlun upplýsinga og eftirfylgni.

Ábyrgð

Skatturinn

Afurð

Niðurstöður þemaathugana og útgáfa leiðbeininga.

Tímamörk

Verkefnið er viðvarandi en fyrstu leiðbeiningar verði gefnar út vorið 2026.

 

Við hvetjum félagsmenn og aðra haghafa til að kynna sér framangreindar skýrslur en FLE hefur þegar leitað eftir því að fjallað verði nánar um ofangreind mál á vettvangi félagsins á næstunni.