Vegna skipunar skiptastjóra

Stjórn félagsins hefur beint augum sínum að gjaldþrotaskiptum og stöðu endurskoðenda í tengslum við uppgjör þrotabúa m.a. með nýlegu morgunkorni um efnið.  Að gefnu tilefni og í ljósi umræðu um skipun skiptastjóra við gjaldþrotaskipti að undanförnu hefur FLE sent eftirfarandi ábendingu til dómstjóra við héraðsdóma landsins.

Í lögum um gjaldþrotaskipti (21/1991) 5. tölulið 75. greinar segir að skiptastjóri skuli hafa lokið embættisprófi í lögum. Í 2. málsgrein 6. töluliðs sömu greinar segir jafnframt að ef sýnt þykir að störf skiptastjóra verði umfangsmikil geti héraðsdómari skipað tvo menn eða fleiri og í þeim tilfellum geti hann vikið frá framangreindum 5. tölulið um aðra en einn einstakling varðandi skilyrði um að hafa lokið embættisprófi í lögum.

Það er álit félagsins að þegar héraðsdómari metur umfang gjaldþrotaskipta það viðamikið að skipa þurfi að minnsta kosti tvo skiptastjóra að þá sé mjög mikilvæg sú sérfræðiþekking sem endurskoðendur búa yfir sem snýr m.a. að reikningshaldi og fjármálum fyrirtækja. Í slíkum tilfellum eigi héraðsdómari því að taka það til alvarlegrar skoðunar að annar af tveimur skiptastjórum sé endurskoðandi.

Félagið er reiðubúið til samtals um málefnið ef óskað er eftir því.