Verðgildi hlutabréfanna hækkaði og hækkaði og félögin skiluðu góðum hagnaði þannig að skilyrði fyrir arðgreiðslu voru fyrir hendi, og einnig veð fyrir frekari lánum sem nýtt voru til greiðslu arðs.

Á að heimila greiðslu arðs af gangvirðisbreytingum?

Herbert V. Baldursson löggilturendurskoðandi og meðeigandi hjá PwC

Í tilvonandi frumvarpi til laga um ársreikninga voru ákvæði um arðgreiðslur sem vöktu verulega athygli og urðu tilefni til athugasemda frá fjöl- mörgum aðilum. Helst eru það ákvæði um að banna arðgreiðslur af gangvirðisbreytingum sem vöktu athygli, en með þeim er verið að reyna að stýra arðgreiðslum úr félögum þannig að einungis væri greiddur arður af innleystum tekjum, en að sumar áfallnar tekjur, óinnleystar gangvirðisbreytingar, væru látnar bíða þar til þær væru greiddar. Núverandi skilyrði hlutafélagalaganna eru fyrst og fremst þau að heimilt sé að greiða arð af hagnaði að frádregnu tapi sem ekki hefur verið jafnað, það er að segja af jákvæðu óráðstöfuðu eigin fé.

Hér er verið að takmarka verulega arðgreiðsluheimildir sumra félaga sem byggja slíkum tekjum, svo sem fasteignafélaga, fjárfestingarsjóða og annarra félaga sem fjárfesta í hluta og skuldabréfum. En hvers vegna er verið að reyna að koma inn slíkum séríslenskum ákvæðum?Jú, hér er hrunið enn ríkt í minni. Á árunum fyrir hrun má sem dæmi nefna  félög sem stofnuð voru um kaup á hlutabréfum í t.d. bönkunum. Verðgildi hlutabréfanna hækkaði og hækkaði og félögin skiluðu góðum hagnaði þannig að skilyrði fyrir arðgreiðslu voru fyrir hendi og einnig veð fyrir frekari lánum sem nýtt voru til greiðslu arðs. En síðan súrnaði allt, gangvirði hlutabréfanna fór niður og hvarf og eftir stóðu gjaldþrota skeljar. En eigendurnir voru samt búnir að taka arð af þessum viðskipum.

Ef við lítum einangrað á ársreikninginn og stöðu fyrirtækisins samkvæmt honum, þá var og er þetta í lagi, því ársreikningurinn á að gefa og gefur rétta mynd á þeim tímapunkti sem hann er gerður. Ársreikningurinn gefur ekki og getur ekki gefið mynd af hugsanlegum slæmum framtíðaratburðum, í mesta lagi getur hann upplýst um fyrirsjáanlega atburði í nánustu framtíð. Þannig að ársreikningur 2006 og 2007 gaf rétta mynd af stöðu fyrirtækja á þeim tíma en sagði ekki til um það hver staðan gæti orðið í október 2008. Að sama skapi getur ársreikningur fyrir árið 2015 ekki gefið upp stöðuna eins og hún verður árið 2017, en þá eru einhverjir að spá öðru hruni. Það er auðvelt að vera vitur eftir á.

En það er vitað mál að ef eignir eru færðar á gangvirði verða sveiflur í virði þeirra á milli tímabila, stundum upp og stundum niður. Og því er spurning hvort það sé eðlilegt að viðhafa ákveðna varkárni í útdeilingu arðs, með því að fresta henni að hluta eða öllu leyti þar til innlausn hefur átt sér stað. En þá hefur verið bent á að í ársreikningi geta verið ýmsir aðrir reiknaðir eða áfallnir liðir en gangvirðisbreytingar sem eru færðir til gjalda og skuldar, og með færslu þeirra er verið að lækka raunverulega innleystar tekna og þar með arðsheimildir. Sem dæmi má nefna tekjuskattsskuldbindingu og verðbætur langtímalána sem voru tekin til að fjármagna fjárfestingarnar.

Hér kemur þá einnig til sú spurning hvort ekki eigi að jafna saman og leysa upp áfallnar og reiknaðar tekjur og gjöld með sama hætti. Jafnvel mætti ímynda sér að búið yrði til nýtt yfirlit í ársreikningi sem sýndi raunverulega innleystar tekjur að frádregnum greiddum gjöldum sem eru lausar til greiðslu arðs.

En svarið við spurningunni er að þetta pólitísk ákvörðun sem fer eftir viðhorfum á hverjum tíma og kemur reikningshaldi í raun ekkert við.

Birt í Viðskipta Mogganum fimmtudaginn 29. október  2015 bls. 12. 

Mbl.is - Viðskiptamogginn, 29. okt. 2015
29.10.2015