Staðallinn tekur á ýmsum álitaefnum og setur fram ítarlegri leiðbeiningar um tekjuskráningu en þeir staðlar sem honum er ætlað að leysa af hólmi.

Breytingar á tekjuskráningu í reikningsskilum félaga

Signý Magnúsdóttir löggiltur endurskoðandi og Helgi Einar Karlsson, sérfræðingur hjá Deloitte

Undirbúningur á nýjum alþjóðlegum reiknings-skilastaðli (IFRS) um tekjuskráningu hefur verið langur, eða um 12 ár. Staðallinn kom loks út í lok maí á þessu ári og ber hann nafnið IFRS 15, Tekjur af samningum við viðskiptavini.

Nýr staðall um tekjuskráningu ætti að vera öllum hagsmunaaðilum að reikningsskilum gleðiefni. Staðallinn tekur á ýmsum álitaefnum og setur fram ítarlegri leiðbeiningar um tekjuskráningu en þeir staðlar sem honum er ætlað að leysa af hólmi. Staðallinn er efnismikill og er í heild um 350 blaðsíður, en til samanburðar eru þeir staðlar og túlkarnir sem hann kemur í staðinn fyrir um 25 blaðsíður. IFRS 15 mun án nokkurs vafa teljast til grundvallarstaðla í regluverkinu.

Tekjur eru mikilvægur hluti af öllum reikningsskilum og grunnurinn að skilningi á rekstri félaga. Þrátt fyrir að staðallinn verði seint talinn gallalaus, þá setur hann fram nauðsynlegar leiðbeiningar á einu erfiðasta viðfangsefni reikningsskilanna, skráningu tekna. En þessi nýi staðall, eins nauðsynlegur og hann er, mun ekki verða óumdeildur. Sú staðreynd að IASB og FASB hafa þegar sett á laggirnar nefnd til að fjalla um hinar ýmsu spurningar sem væntanlega munu vakna við innleiðingu staðalsins undirstrika það.

Staðallinn er afrakstur samræmingarverkefnis alþjóðlega reikningsskilaráðsins (IASB) og bandaríska reikningsskilaráðsins. Í alþjóðlegum reikningsskila-stöðlum hefur leiðbeiningum um tekjuskráningu verið ábótavant og mikil gagnrýni verið uppi um að núverandi staðlar fjalli hreinlega ekki um ýmis lykilatriði tekjuskráningar. Markmiðið með nýjum staðli er að koma til móts við þessa gagnrýni með því að gefa út staðal sem setur fram meginreglu um tekjufærslu ásamt því að lýsa reikningshaldslegri meðferð tekna með ítarlegum dæmum og leiðbeiningum. Meginreglan sem fyrr er sú að tekjufærsla félags skal endurspegla vænt gagngjald í skiptum fyrir afhenta vörur eða veitta þjónustu.

Nauðsynlegt er að félög sem gera reikningsskil sín í samræmi við IFRS kynni sér fljótt efnistök staðalsins. Einhverjir gætu litið svo á að þar sem gildistökudagurinn er ekki í nánustu framtíð (1. janúar 2017, háð samþykki Evrópusambandsins) þá sé það ekki forgangsatriði að kynna sér áhrif hans. Slíkt viðhorf er ekki æskilegt. Áhrif staðalsins geta í sumum tilfellum verið umtalsverð. Nýi staðallinn mun hafa áhrif á flestar atvinnugreinar. Dæmi um slíkt áhrif getur verið tekjuskráning bílaframleiðanda vegna sölu á nýjum bíl, undir núverandi staðli hafa slíkar tekjur verið skráðar um leið og sala á sér stað. Viðskiptin fela þó oftar en ekki í sér ábyrgð á bílnum í ákveðinn tíma eftir söluna.

Undir nýja staðlinum ber bifreiðaframleiðandanum að skipta upp samningsverðinu á milli seldrar bifreiðar og þeirrar þjónustu sem veitt er á ábyrgðartímabilinu. Þetta myndi leiða til þess að tekjuskráning félagsins yrði yfir lengra tímabil en undir núverandi staðli. Öfugt við þetta gætu leiðbeiningarnar í nýja staðlinum leitt til þess að hugbúnaðar- og símafyrirtæki myndu færa tekjur fyrr inn í reikningsskilin. Í tilfelli símafyrirtækja gæti verið um að ræða verulegar breytingar á tekjuskráningu. Dæmi um það geta verið viðskipti þar sem viðskiptavinur skuldbindur sig í 24 mánaða áskrift og fær í upphafi samnings símtæki án endurgjalds. Undir nýjum staðli ber fyrirtækinu að skipta upp áskriftartekjunum á milli áskriftarinnar og símtækisins. Sú aðferðafræði leiðir til þess að tekjuinnlausn verður meiri í upphafi samnings en undir núverandi staðli.

Nýjar skýringarkröfur eru mun ítarlegri en undir núverandi staðli og munu reyna á dómgreind stjórnenda. Þá munu breytingarnar í einhverjum tilfellum kalla á uppfærslu kerfa og ferla sem þurfa að sýna fram á að félögin uppfylli kröfur staðalsins. Nú sem aldrei fyrr verður þörf á góðum upplýsinga-kerfum sem ráða við þá flóknu útfærslu sem staðallinn kallar á. Sein viðbrögð geta leitt til þess að félög lendi í erfiðleikum með að uppfæra kerfi og brenni inni á tíma. En þegar öllu er á botninn hvolft er útgáfa staðalsins í raun þrekvirki. Samanburðarhæfi fjárhagsupplýsinga, þvert á landamæri og atvinnugreinar, verður mun betra fyrir tilstuðlan hans.

Birt í Viðskipta Mogganum fimmtudaginn 8. janúar 2015 bls. 12.

Mbl.is - Viðskiptamogginn, 8. janúar 2015