Tekjuskattsskuldbinding myndast þegar tímabundinn mismunur verður á annars vegar bókfærðu (þ.e. reikningshaldslegu) verði eigna (eða skulda) í efnahagsreikningi og hins vegar á skattalegu verðmæti þeirra. Tekjuskattsskuldbindingin er sú fjárhæð sem ber að greiða í tekjuskatt á síðari tímabilum vegna þessa skattskylda tímabundna mismunar.

Dulin tekjuskattsskuldbinding

Ragnar Jóhann Jónsson, endurskoðandi hjá Deloitte og kennari við Háskólann á Akureyri.

Tekjuskattsskuldbinding myndast þegar tímabundinn mismunur verður á annars vegar bókfærðu (þ.e. reikningshaldslegu) verði eigna (eða skulda) í efnahagsreikningi og hins vegar á skattalegu verðmæti þeirra. Tekjuskattsskuldbindingin er sú fjárhæð sem ber að greiða í tekjuskatt á síðari tímabilum vegna þessa skattskylda tímabundna mismunar.

Slíkur tímabundinn mismunur getur myndast í viðskiptum með atvinnurekstrartengdar eignir og skuldir. Þannig getur afmarkaður rekstur og tilheyrandi efnahagur gengið kaupum og sölu, oft í formi viðskipta með eignarhluti í félögum (fyrirtækjum). Verðmyndun í slíkum viðskiptum, sem kaupendur og seljendur ná saman um, grundvallast aðallega annaðhvort á upplausnarvirði eða rekstrarvirði. Þannig geta ýmsar duldar eignir í raun komið fram í endanlegu kaupverði/söluverði viðkomandi rekstrareininga. Kaupandinn yfirtekur þá með óbeinum hætti undirliggjandi eignir félagsins á virði sem getur myndað fyrrnefndan tímabundinn mismun og þar með í raun tekjuskattsskuldbindingu, sem hann þá yfirtekur við kaupin. Skuldbindingu sem í mörgum tilvikum getur numið umtalsverðum fjárhæðum og ætti eðli málsins samkvæmt að endurspeglast í endanlegu verði þess sem keypt er. Hins vegar er allur gangur á því. Dæmi eru um að ekkert tillit sé tekið til slíkra skuldbindinga í endanlegu verði eignarhluta í félögum, en þær myndu hreinlega innleysast í beinum kaupum á viðkomandi undirliggjandi eignum.

Gefum okkur einfalt dæmi. Einkahlutafélag er til sölu og einu eignir þess eru skuldlausir varanlegir rekstrarfjármunir samtals að verðmæti 200 milljónir króna, verðmæti sem enginn ágreiningur er um á milli kaupanda og seljanda. Skattalegt (bókfært) verðmæti þeirra og þar með eigið fé félagsins er 50 milljónir króna. Breytir það einhverju hvort félagið er selt í heild sinni á umræddar 200 milljónir króna eða að eignirnar sem slíkar séu seldar, þ.e. að kaupandinn kaupi hina varanlegu rekstrarfjármuni beint af félaginu? Skiptir sem sagt form sölunnar einhverju máli, þ.e. hvort hinir varanlegu rekstrarfjármunir eru seldir sem slíkir eða félagið í heild sinni?

Ef hinir varanlegu rekstrarfjármunir eru seldir út úr félaginu eignast kaupandinn þá og nýir fyrningarstofnar myndast í hans hendi sem hann getur nýtt til skattalegs frádráttar í formi fyrninga á komandi árum. Skattskyldur söluhagnaður að fjárhæð 150 milljónir króna myndast þá í félaginu, sem það getur annaðhvort frestað eða látið koma til skattlagningar. Tekjuskattsskuldbinding myndast sem sagt í félaginu að fjárhæð 30 milljónir króna, þ.e. 20% af 150 milljóna króna skattskyldum söluhagnaði. Skuldbinding sem félagið verður að greiða í formi tekjuskatts ef ekki kemur til frestunar.

Ef félagið er hins vegar selt, en ekki eignirnar sem slíkar, yfirtekur kaupandinn í raun þessa 30 milljóna króna duldu tekjuskattsskuldbindingu. Eðlilega ætti þessi yfirtekna skuldbinding þá að koma til lækkunar á kaupverði félagsins og það vera 170 milljónir króna en ekki 200. Til að skýra þetta betur gefum við okkur til frekari einföldunar að kaupandi félagsins, sem greitt hefur 200 milljónir króna fyrir það, ákveði daginn eftir kaupin að selja eignir þess og slíta því. Félagið seldi þá eignir sínar á nefndar 200 milljónir króna, greiddi 30 milljónir króna tekjuskatt af skattskyldum söluhagnaði og eigandinn fengi þá restina, þ.e. 170 milljóni króna, sem hann í raun greiddi 200 milljónir króna fyrir daginn áður. Hann hefur einfaldlega tapað 30 milljónum króna. Ef hann hefði hins vegar keypt eignirnar sem slíkar á 200 milljónir gæti hann nýtt fyrningarnar af því kaupverði til frádráttar skattskyldum tekjum þeim sem eignirnar myndu skila í framtíðinni.

Hér að framan er gengið út frá mjög einföldu dæmi. Yfirleitt eru svona viðskipti mun flóknari og sjónarmið uppi um óverulegt núvirði skuldbindingarinnar þegar um langtímaverkefni er að ræða eins og t.d. fasteignarekstur. Og þegar öllu er á botninn hvolft er það alltaf endanlegt samkomulag kaupanda og seljanda sem ræður verðmæti þeirra eigna sem eru til sölu hverju sinni.

Sjá grein hér

Mbl.is - Viðskiptamogginn, 17. júlí 2017
17.07.2017