Vegna þess mikla árangurs sem náðst hefur með endurgreiðslum til kvikmyndagerðar voru settar sambærilegar reglur um endurgreiðslur vegna hljóðritunar tónlistar hér á landi

ENDURGREIÐSLUR VEGNA KVIKMYNDA OG TÓNLISTAR

Alexander G. Eðvardsson, endurskoðandi hjá KPMG

ENDURGREIÐSLUR VEGNA KVIKMYNDAGERÐAR
Með setningu laga nr. 43/1999 voru tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi samþykktar. Upphaflegt markmið laganna var að laða að erlenda aðila til að framleiða kvikmyndir eða sjónvarpsefni hér á landi með því að endurgreiða tímabundið hluta af innlendum framleiðslukostnaði. Markmið þetta hefur tekið breytingum á gildistíma laganna og eru nú að stuðla að eflingu innlendrar menningar og kynningar á sögu landsins og náttúru með tímabundnum stuðningi við kvikmyndir og sjónvarpsefni sem framleitt er hér á landi. 

Vonast var til að setning laganna myndi hvetja til uppbyggingar atvinnugreinarinnar og væri til þess fallin að efla innlenda kvikmyndagerð samfara því að erlend fyrirtæki sæju sér hag í starfsemi hér á landi. Þannig myndu íslenskir kvikmyndagerðarmenn auka þekkingu sína í samstarfi við erlenda starfsbræður. Með því að laða að erlenda kvikmyndagerðarmenn yrði unnt að þjálfa íslenskt fagfólk til sjálfstæðra verka, bæta tækjakost kvikmyndaiðnaðarins hér á landi og síðast en ekki síst að koma Íslandi, náttúru landsins og íslenskri menningu á framfæri með þátttöku stórra erlendra kvikmyndaframleiðenda.

Endurgreiðslukerfið er einfalt og gegnsætt og er þar vísað til laga um tekjuskatt við mat á því hvaða kostnaður teldist mynda stofn til endurgreiðslu. Í lögunum segir að með framleiðslukostnaði sé átt við allan kostnað sem fellur til hér á land og heimilt er að draga frá tekjum af atvinnurekstri samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt. Þá er sérstaklega tekið fram að laun og verktakagreiðslur teljist eingöngu til framleiðslukostnaðar hafi þær sannanlega verið skattlagðar hér á landi. Þetta er einfalt endurgreiðslukerfi sem er talið mun heppilegra en ýmiss konar skattaívilnanir sem erfitt væri að fylgja eftir í framkvæmd og væru til þess fallnar að mismuna atvinnugreinum í skattalegu tilliti.

Í lögunum segir að ef beiðni um endurgreiðslu á hluta framleiðslukostnaðar nemur hærri fjárhæð en 20 m.kr. skuli kostnaðaruppgjör vera endurskoðað. Ákvæði þetta veitir mikið öryggi og hefur stuðlað að því að endurgreiðslubeiðnir eru almennt vel unnar og unnt að afgreiða þær hratt og örugglega. Endurgreiðslur á vegna kvikmyndagerðar námu samtals 9.131 m.kr. frá gildistöku laganna til loka árs 2018. Fyrstu árin voru endurgreiðslur lágar og í árslok 2011 höfðu samtals 1.688 m.kr. verið greiddar. Frá 2012 hefur orðið mikil aukning í endurgreiðslum og á árunum 2012 til 2018 voru 7.443 m.kr. endurgreiddar til 257 verkefna. Af þeim voru 79 verkefni þar sem endurgreiðslur voru yfir 20 m.kr. og því endurskoðunarskyld. Fjárhæðir sem greiddar hafa verið til einstakra verkefna eru misháar. Hæsta endurgreiðsla til eins verkefnis var 509 m.kr. og sú lægsta aðeins 0,2 m.kr.

Þar sem endurgreiðsla á þessum árum var 20% af framleiðslukostnaði hefur innlendur kostnaður við þau verkefni sem fengu endurgreiðslur numið að lágmarki 45.655 m.kr. þegar aðrir opinberir styrkir hafa verið dregnir frá framleiðslukostnaði. Af þessu er ljóst að erlendir aðilar hafa eytt milljörðum króna á hverju ári í kaup á vörum og þjónustu hér á landi. Endurgreiðsluhlutfallið var hækkað í 25% vegna verkefna sem samþykkt eru eftir 1. janúar 2017. Mikil samkeppni er um kvikmyndaverkefni milli landa og er þessi hækkun á endurgreiðsluhlutfalli viðbrögð við aukinni samkeppni.

Setning þessara laga hefur fyllilega staðist þær væntingar sem gerðar voru til þeirra. Mikill fjöldi kvikmyndaverkefna hefur verið unnin hér á landi og mikil sérhæfing og þekking hefur orðið til hjá innlendum kvikmyndagerðarmönnum. Sérfræðingar í markaðsmálum fullyrða að sú landkynning sem fólgin er í því að Ísland hefur verið notað sem tökustaður í erlendum stórmyndum sé nánast ómetanleg og hafi átt stóran þátt í auknum fjölda ferðamanna til landsins. Reynsla af lagasetningunni hefur verið það góð að gildistími þeirra hefur tvívegis verið framlengdur og er nú til ársloka 2021.

ENDURGREIÐSLUR VEGNA HLJÓÐRITUNAR Á TÓNLIST
Vegna þess mikla árangurs sem náðst hefur með endurgreiðslum til kvikmyndagerðar voru settar sambærilegar reglur um endurgreiðslur vegna hljóðritunar tónlistar hér á landi með lögum nr. 110/2016.

Kröfur sem gerðar eru til upplýsinga eru að stórum hluta sambærilegar við ákvæði laga um endurgreiðslur til kvikmyndagerðar og endurgreiðsluhlutfallið er það sama eða 25%. Þó eru nokkur ákvæði sem eiga einungis við um tónlist. Gerð er krafa um að sú tónlist sem hljóðrituð er á Íslandi og sótt er um endurgreiðslu fyrir uppfylli tiltekin skilyrði. Sem dæmi má nefna að samanlagður spilunartími tónlistarinnar þarf að ná 30 mínútum og að hljóðritin séu gefin út á 18 mánaða tímabili. Ekki mega vera liðnir meira en sex mánuðir frá því að nýjasta hljóðritið var gefið út.

Einn veigamikill munur er á lögum um endurgreiðslur vegna tónlistar og vegna kvikmyndagerðar. Í lögum um endurgreiðslur vegna tónlistar er ákvæði um að sami útgefandi geti ekki fengið hærri endurgreiðslu en 30 m.kr. á þriggja ára tímabili. Ekkert slíkt ákvæði er í lögum um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar, hvorki vegna einstakra framleiðenda né fjárhæðamörk. Einu takmörkin á endurgreiðslum vegna kvikmyndagerðar eru þær fjárhæðir sem ákveðið er að verja í endurgreiðslur á fjárlögum. Fram kemur í þeim vilyrðum sem veitt eru til framleiðenda að fjárveitingar til endurgreiðslna séu háðar framlögum á fjárlögum hverju sinni. Fari samþykktar endurgreiðslur umfram fjárveitingar hefur nefnd um endurgreiðslur heimild til að fresta endurgreiðslum milli fjárlagaára í heild eða hluta.

Hvort setning laga um endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist verði sama lyftistöng fyrir tónlistasköpun og upptökur hér á landi og endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á tíminn eftir að leiða í ljós.

FLE blaðið 2019 bls 24-25