Viðamiklar breytingar á íslensku ársreikningalögunum voru samþykktar í júní síðastliðnum. Eitt atriði við lagabreytinguna var að hún var afturvirk, lögin eru samþykkt í júní 2016 en gilda frá 1. janúar 2016 og gilda því fyrir ársreikninga ársins 2016.

Enn um breytingar á ársreikningalögunum

Herbert V. Baldursson löggiltur endurskoðandi og partner hjá PwC

Viðamiklar breytingar á íslensku ársreikningalögunum voru samþykktar í júní síðastliðnum. Eitt atriði við lagabreytinguna var að hún var afturvirk, lögin eru samþykkt í júní 2016 en gilda frá 1. janúar 2016 og gilda því fyrir ársreikninga ársins 2016. Þetta er óþægilegt þar sem í reynd er ekki gefinn neinn aðlögunar- eða undirbúningstími fyrir fyrirtæki til að meta áhrif breytinganna og að gera viðeigandi ráðstafanir hjá sér til að undirbúa og laga reikningsskilin að nýjum reglum. Hins vegar var í nýrri reglugerð Evrópusambandsins gert ráð fyrir að hún væri innleidd inn í lög aðildarlandanna fyrir 25. júní 2015 og tæki gildi fyrir ársreikninga fyrir árið 2016, af þeirri ástæðu voru lögin látin gilda afturvirkt frá ársbyrjun 2016.

Í lögunum um breytingar á ársreikningalögunum var ekki tekið sérstaklega á atriðum er varða innleiðingu laganna, hvernig fara eigi með ýmis atriði sem breytast og hvort eigi að breyta samanburðartölum. Því gildir hin almenna regla 13. gr. nýju laganna um að ef félag breytir reikningsskilaaðferð á grundvelli ákvæða laga skulu þeir liðir í ársreikningnum sem það hefur áhrif á breytast í samræmi við nýja aðferð. Mismunurinn færist á eigið fé, og breyta skal samanburðarfjárhæðum til samræmis við nýja aðferð. En eftir standa vandamál sem ekki er alveg augljóst hvernig á að leysa, en það tengist nýjum ákvæðum um takmörkun á arðsúthlutun, t.d. á tekjum af hlutdeildarfélögum. Þar þarf að velta fyrir sér hvort þessi ákvæði eigi að gilda afturvirkt eða ekki, eða: eru ákvæði um takmörkun arðsúthlutunar breyting á reikningsskilaaðferð? Ég tel að svo sé ekki heldur eru þessi ákvæði tengd náið meðferð eigenda á eign sinni í félögunum, og hefðu frekar átt heima í lögum um hlutafélög en um ársreikninga. Enda er það svo að reikningsskilareglur eru yfirleitt þöglar um skipan eiginfjárreikninga, það hvernig eigið fé er skipað og sundurliðað í ársreikningum fer eftir þörfum um upplýsingar til eigenda hlutafélaga og hugsanlega kaupenda að eignarhlutum og jafnvel kröfum laga eins og hlutafélagalaga. Því ætti aðgreining óinnleysts hagnaðar frá óráðstöðu eigin fé að gilda frá 1. janúar 2016 en ekki afturvirkt. Eins verður að færa strax inn á bundna eiginfjárreikninga viðeigandi fjárhæðir, til dæmis hlutdeild dóttur- og hlutdeildarfélaga fyrir árið 2016 og arðgreiðslur frá þessum félögum sem eru greiddar árið 2016 vegna ársins 2015, enda eru ekki ákvæði í lögunum um aðlögun vegna þessa.

Einnig hef ég verið að velta einu atriði varðandi fjármálagerninga fyrir mér, sem er að nú eru heimildir til að færa þá á gangvirði settir upp sem flokkun annað hvort á gangvirði í gegn um rekstrarreikning eða sem fjáreign til sölu. Þessi flokkun er í samræmi við nýjan alþjóðlegan reikningsskilastaðal um fjármálagerninga, en er breyting frá eldri ársreikningalögunum og eldri reikningsskilastaðli. Sú breyting er í raun lítil, en áður var heimildin til að færa á gangvirði orðuð í ársreikningalögunum sem „ef þeirra er aflað í þeim tilgangi að selja aftur eða til að hagnast á skammtímaverðbreytingum“. Í nýju lögunum er orðalagið um selja aftur eða hagnast á skammtímaverðbreytingum dottið út en inn er komið í staðinn „annað hvort sem fjáreign á gangvirði í gegn um rekstrarreikning eða sem fjáreign til sölu“. Fjáreign á gangvirði í gegn um rekstrareikning innfelur nú í sér fjáreignir sem selja á aftur eða hagnast á skammtímaverðbreytingum, í samræmi við nýjan reikningsskilastaðal. Það felur þá í sér að ekki má greiða út arð af þessum breytingum fyrr en þær eru innleystar, skv. 38. gr. ársreikningalaganna.

Mbl.is - Viðskiptamogginn, 24. nóv. 2016