Þá hefur Hæstiréttur Íslands staðfest að ef sambúð hefur varað í langan tíma, en hjónaband í skamman tíma beri að meta allan tímann sem aðilar voru með sameiginlegt heimili

FJÁRSKIPTI HJÓNA OG SAMBÚÐARFÓLKS

Pétur Steinn Guðmundsson, lögfræðingur hjá Skatta og lögfræðiráðgjöf Deloitte ehf.

INNGANGUR
Það er nokkuð algengt að málefni hjóna vegna skilnaðar komi með beinum eða óbeinum hætti inn á borð löggiltra endurskoðenda, sem oft á tíðum aðstoða við gerð fjárskiptasamnings, sem lagður er fram hjá sýslumanni við skilnaðar að borði og sæng eða við lögskilnað. Ef afstaða hjónanna er þannig að ekki verður gerður fjárskiptasamningur með samkomulagi, koma endurskoðendur oft að aðstoð við gerð uppgjörs fjárskipta, þar sem lögmenn fara með fyrirsvar málsins, en endurskoðandinn hefur oft yfirsýn yfir eignir og skuldir, t.d. vegna fyrri framtalsgerðar hjónanna. Um fjárhagslegt uppgjör hjóna við skilnað og sambúðarfólks við sambúðarslit, gilda um margt ólík réttindi, eftir því hvort um hjón er að ræða eða slit á óvígðri sambúð. Hér verður fjallað almennt um helstu þætti því tengdu en ekki verður fjallað um samkomulag um umgengni ef börn eru til staðar, sem þarf þó alltaf að ganga frá. Grein þessi byggir á námskeiði sem haldið var um miðjan janúar 2020 á vegum FLE undir nafninu „Skilnaður og sambúðarslit“.

SKYLDUR MAKA
Hugtakið maki nær aðeins til hjóna samkvæmt hjúskaparlögum nr. 31/1993. Sambýlismaki eða sambúðarmaki hafa þannig ekki sömu merkingu og það hefur samkvæmt hjúskaparlögum. Orðið maki finnst þó víða í lögum og hefur oft víðari skírskotun en í hjúskaparlögum. Í dæmaskyni má nefna notkun orðsins maki í lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, þar sem vísað er til makalífeyris, en í lögunum segir í 3. mgr. 16. gr. laganna:

Maki samkvæmt þessari grein telst sá eða sú sem við andlátið var í hjúskap eða óvígðri sambúð með sjóðfélaga enda hafi fjárfélagi ekki verið slitið fyrir andlát sjóðfélagans. Með óvígðri sambúð er átt við sambúð tveggja einstaklinga sem eiga sameiginlegt lögheimili, eru samvistum, eiga barn saman eða konan er þunguð eða sambúðin hefur varað samfleytt í a.m.k. tvö ár.

Í lögum nr. 130/1999 um ættleiðingar er vísað til einstaklinga sem hafa verið í óvígðri sambúð í a.m.k. fimm ár, sem þá heimilar ættleiðingu. Í þeirri umfjöllun sem hér fer á eftir er hugtakið maki notað samkvæmt hjúskaparlögum.

Þótt meginreglan um ráðstöfun eigna sinna sé til staðar í hjúskap, eru nokkrar takmarkanir á því hvernig heimilt er að ráðstafa einstaka eignum. Þannig er öðru hjóna óheimilt að afhenda eða veðsetja fasteign sem notuð er sem búsetustaður fjölskyldunnar, eða vinnustaður annars eða beggja, án skriflegs leyfis hins makans. Breytir engu hvort um hjúskapareign eða séreign sé að ræða. Þá er sú skylda sett á hjón að hvort hjóna fari með hjúskapareignir sínar þannig að þær skerðist ekki vegna ótilhlýðilegrar háttsemi.

Við andlát maka kemur sú grunnstaða upp að eftirlifandi maki getur setið í óskiptu búi en þessi heimild er ekki til staðar í óvígðri sambúð. Þá verður að skipta búshluta hins látna eftir almennum reglum erfðaréttar, en með erfðaskrá getur eftirlifandi sambúðaraðili erft 1/3 eftir sambýlismaka.

Samkvæmt hjúskaparlögum hvílir gagnkvæm framfærsluskylda á hjónum. Því er ekki þannig farið í óvígðri sambúð. Hjón skulu í sameiningu hjálpast að, við framfærslu fjölskyldunnar með fjárframlögum, vinnu á heimili eða á annan hátt, eins og segir í lögunum.  

Hjónum ber að veita hvort öðru upplýsingar um efnahag sinn og afkomu. Þannig eiga hjón að ræða saman um fjármál sín og taka sameiginlegar ákvarðanir um rekstur heimilisins. Hér er byggt á samstöðu hjóna, sameiginlegri ábyrgð þeirra og trúnaði sem ríkir á milli þeirra. Þótt meginreglan sé að hvort hjóna beri ábyrgð á þeim skuldbindingum sem á því hvíla og að annað hjóna geti ekki skuldbundið hitt með samningi, skal jafnframt bent á lögmæta ábyrgð á sköttum hvors annars, sbr. 116. gr. tekjuskattslaga nr. 90/2003.

SKILNAÐUR AÐ BORÐI OG SÆNG
Hjúskaparlög mynda lagagrundvöll fyrir hjúskap tveggja einstaklinga. Lögin gilda aðeins um hjónaband, en ekki óvígða sambúð. Þegar hjón hafa ákveðið að skilja eru að meginefni tvö atriði sem þarf að hafa í huga sem næstu skref. Skilnaður að borði og sæng eða lögskilnaður. Oftast er skilnaður að borði og sæng það úrræði sem hjón fara í gegnum, en fjallað er um skilnað að borði og sæng í 33. – 35. gr. hjúskaparlaga. Þar segir m.a. að ef hjón eru sammála um að óska leyfis um skilnað að borði og sæng ber þá að veita þeim leyfi slíks skilnaðar. Í 34. gr. laganna kemur fram að ef annað hjóna telur sig ekki geta haldið áfram hjúskap á það rétt á skilnaði að borði og sæng. Hinn aðili hjónabandsins þarf að sæta þeirri ákvörðun makans og getur þriðji aðili, svo sem sýslumaður ekki metið kröfuna. Sýslumaður verður að sinna þeirri kröfu sem fram er komin og veita leyfið að öðrum skilyrðum uppfylltum.

Ef hjón eru sammála um skilnað að borði og sæng, má gera ráð fyrir að samkomulag verði jafnframt milli þeirra um skiptingu eigna og skulda, með fjárslitasamningi, en slíkur samningur þarf að liggja fyrir til að leyfi verði veitt. Ef annað hjóna krefst skilnaðar, sem ekki er samþykkt af maka, má gera ráð fyrir að krafa um opinber skipti liggi fyrir, ef ekki næst samkomulag um fjárslitasamning milli hjónanna.

Skilnaður að borði og sæng er ekki endanlegur og því er sú staða uppi að ef hjón halda áfram sambúð, umfram stuttan tíma sem sanngjarnt er að ætla þeim eða taka upp sambúð aftur meðan tímabil skilnaðar að borði og sæng er enn virkt, falla réttaráhrifin niður og verður ekki grundvöllur til lögskilnaðar. Þetta kom skýrt fram í dómi Hæstarréttar Íslands í máli HRD. 46/2008, þar sem tekist var á um hvort skilyrði til skilnaðar að borði og sæng hefði fallið niður, þar sem hjónin höfðu tekið upp sambúð að nýju,  eftir að leyfi til skilnaðar að borði og sæng hefði verið leyft.

Höfðu hjónin tekið upp sambúð sem varað hafði í þrjá og hálfan mánuð og voru þau ekki sammála um hvort um hafi verið að ræða skammvinna tilraun til að endurvekja samvistir að nýju, eða hvort leyfisveitingin hafi fallið niður. Dómurinn staðfesti að þessi tími hefði verið lengri en svo að talist gæti til skammvinnrar tilraunar til að endurvekja samvistir þeirra. Var því talið að réttaráhrif skilnaðar að borði og sæng hefði fallið niður.

Hjón sem hafa fengið leyfi til skilnaðar að borði og sæng og eru á einu máli um að óska lögskilnaðar, geta fengið hann staðfestan eftir sex mánuði, frá því leyfi var veitt. Ef ekki er sátt milli aðila um að óska lögskilnaðar, á hvor maki fyrir sig, rétt á lögskilnaði þegar ár er liðið frá því leyfi til skilnaðar að borði og sæng var veitt. Skiptir þannig afstaða hins aðila hjónabandsins ekki máli. Ef hins vegar um ósamlyndi er að ræða, þ.e. að annar aðilinn flytur út af heimilinu og sambúðin er með þeim hætti að ekki er óskað eftir skilnaði að borði og sæng, þá þarf að bíða í tvö ár áður en möguleiki er að krefjast lögskilnaðar. Hér er sönnunin hjá þeim sem sækir um skilnað.

Þegar hjón eða annað þeirra, fer fram á skilnað að borði og sæng, helst gagnkvæm framfærsluskylda milli hjóna. Ef annar aðilinn krefst framfærslu, er oftast haft sem viðmið hvað viðkomandi getur aflað sjálfur og hvað hinn getur verið aflögufær um. Hér koma til skoðunar sjónarmið um lengd hjúskapar og annað sem kann að hafa áhrif á fjárhæðina svo sem hvort sá sem krefst framfærslu hafi unnið heima í langan tíma og fleira. Framfærsluskylda fellur oftast niður við lögskilnað, með undantekningum þó.

Lögskilnaður strax
Til þess að hjónaskilnaður gangi í gegn, án undangengins leyfis til skilnaðar að borði og sæng, eru ekki margir valkostir. Svo virðist sem löggjafinn hafi ákveðið að setja þröskulda til að gera fólki erfiðara fyrir að fá strax heimild til lögskilnaðar, án  undangengis leyfis til skilnaðar að borði og sæng.

Eins og áður er vikið að, þurfa hjón að bíða í sex mánuði eftir að leyfi er fengið til skilnaðar að borði og sæng, til að fá lögskilnað, ef hjónin eru sammála um skilnað. Það tímamark getur orðið 12 mánuðir eða 2 ár, líkt og nefnt var að framan. Það eru þrjú tilvik sem heimila lögskilnað án undangengis skilnaðar að borði og sæng, þ.e. tvíkvæni, hjúskaparbrot og líkamsárás eða kynferðisbrot.

Tvíkvæni
Í tilviki þegar annar makinn hefur gengið tvisvar í hjónaband, getur sá sem hann giftist fyrst, krafist hjónaskilnaðar sem þá tekur strax gildi. Sá sem hann giftist síðar hefur hins vegar ekki þennan skilnaðarrétt, því ef það kemur í ljós að hjónaband var ekki heimilt verður það ógilt, sbr. 11. gr. hjúskaparlaga sem segir að eigi má vígja þann sem er í hjúskap.

Hjúskaparbrot
Hjúskaparbrot er sú leið sem mjög oft er valin, þegar ákvörðun um skilnað liggur fyrir hjá öðru eða báðum aðilum, án þess að vilja fara í gegnum skilnað að borði og sæng fyrst. Í þeim tilvikum fá löggiltir endurskoðendur slík mál oft inn á borð. Þessi leið hefur oft verið notuð, án þess að um raunverulegt hjúskaparbrot er að ræða, heldur til að ljúka lögskilnaði svo hjónin geti farið hvort sína leið. Annað hjónanna staðfestir hjúskaparbrot frammi fyrir sýslumanni til að skilnaður gangi hratt í gegn. Fjárslitasamningur þarf að liggja fyrir sem og forsjá barna ef þau eru til staðar.

Líkamsárás eða kynferðisbrot
Líkamsárás sbr. XXIII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eða kynferðisbrot skv. XXII. kafla sömu laga gegn maka sínum eða barni sem býr hjá þeim, er fullgild ástæða til að fá skilnað frá maka, án tafar. Hér er vísað til þess að ef maki er beittur ofbeldi eða ef annar aðilinn beitir börn sem búa á heimilinu ósæmilegu eða kynferðislegu ofbeldi. Hér miðast við að líkamsáras sé nokkur eða mikil, en minni háttar líkamsárás getur fallið utan marka ákvæðisins. Það spilar þó rullu hér að ef talið er að ofbeldismaðurinn komi til með að halda þessu áfram þá getur það leitt til skilnaðarástæðu strax. Þá er í greinagerð með lögunum bent á að hér er áskilinn ásetningur við líkamsáras. Gáleysi getur því verið utan vébanda ákvæðisins. Vegna kynferðisbrota er beinlínis vísað í kynferðisbrotakafla hegningarlaganna þannig að þau ákvæði og dómaframkvæmd sem þar hafa viðgengist eru hér undir líka. Í 2. mgr. 40. gr. hjúskaparlaga er bent á að ef atferli leiði til alvarlegs ótta á heimili, getur það orðið skilnaðarástæða, en hér er um matsatriði að ræða sem þarf að leggja fram. Sönnunarbyrði er á þeim sem krefst skilnaðar.

Óvígð sambúð
Með óvígðri sambúð er átt við tvo einstaklinga sem hafa ákveðið að búa saman, án þess að staðfesta sambúðina með hjónabandi. Þessir aðilar gera þannig með sér samkomulag sem geta verið bindandi fyrir þessa tvo einstaklinga, en almennt eru réttindi hvors um sig sem einstaklings en ekki sem sambúðarfólk. Þá eru ýmis réttindi og skyldur til staðar hjá þeim sem búa saman í óvígðri sambúð. Þannig veita lög um almannatryggingar fólki í óvígðri sambúð sama rétt og hjónum. Við slit á óvígðri sambúð þar sem ósjálfráða börn eru til staðar þurfa foreldrarnir að koma sér saman um forsjá og meðlag. Í óvígðri sambúð gilda ekki takmarkanir 60. gr. hjúskaparlaga um að maki verði að undirrita skjöl er varða sölu eða veðsetningu fasteigna sem fjölskyldan býr í.

Við slit sambúðar þurfa einstaklingar því að fara yfir þau mál sem varða fjárskiptin. Það er í engu tilviki einhver biðtími sem krafist er, þannig að „skilnaðurinn“ getur gengið strax í gegn og ákvörðun liggur fyrir. Það er nægjanlegt að annar aðili sambandsins ákveði að yfirgefa hinn aðilann, eða vísa honum út úr íbúð sinni ef þannig stendur á. Algengast er að vandamál koma upp við skiptingu við fjárslit þar sem engin helmingaskiptaregla er til staðar, líkt og er innbyggð í hjúskaparlög. Hér skiptir því máli hver kom með hvað inn í sambandið, hver er skráður fyrir t.d. íbúðinni eða bifreiðinni eða hvort verðmætin sem viðkomandi lagði til hins sameiginlega heimilis séu til staðar eða ekki.

Við andlát sambúðaraðila getur hitt ekki setið í óskiptu búi og skiptir því máli hvort einhverjir erfingjar eru til staðar eða ekki, eða hvort erfðaskrá hafi verið gerð um það hvernig fara skuli með dánarbúið. Sambúðaraðilar geta gert erfðaskrá um að erfa hvort annað um 1/3 af eignum sínum. Um aðrar eignir fer eftir almennum reglum erfðaréttar.

Sambúðarfólk getur verið samskattað og notið þeirra réttinda sem samsköttun hefur í för með sér, að skilyrðum uppfylltum, sem eru að um einstaklingar í óvígðri sambúð eigi rétt á að telja fram og vera skattlagðir sem hjón, sem samvistum eru, enda óski þeir þess báðir skriflega við skattyfirvöld. Með óvígðri sambúð er átt við sambúð tveggja einstaklinga sem skráð er eða skrá má í þjóðskrá skv. 3. mgr. 5. gr. laga um lögheimili og aðsetur, enda eigi sambúðarfólk barn saman eða von á barni saman eða hafi verið samvistum í samfellt eitt ár hið skemmsta. Ríkisskattstjóra er heimilt að leita umsagnar Þjóðskrár Íslands þyki leika vafi á um að skráningarskilyrði séu uppfyllt. Undir þessum kringumstæðum nýtur parið þeirra réttinda sem samsköttuð hjón og taka þannig ábyrgð á sköttum hvors annars.

KAUPMÁLAR
Meginreglan er sú að eignir hjóna verða hjúskapareignir nema ef um séreignir er að ræða samkvæmt öðrum reglum svo sem erfðir eða með kaupmála. Þessi meginregla á við jafnt um eignir sem maki flytur í búið við hjúskaparstofnun eða eignast síðar. Þannig verður arfur sem ekki er sérstaklega skilgreindur sem séreign arftaka, hjúskapareign og kemur til skiptanna við skilnað. Kaupmálar innihalda greiningu á séreignum hvors aðila fyrir sig. Skráðar eignir annars makans verða þannig séreign sem ekki kemur til skipta við skilnað og er haldið utan fjárskiptasamnings. Sá sem heldur því fram að eign sé ekki hjúskapareign hefur sönnunarbyrði fyrir því. Þannig verða gjafir milli hjóna og hjónaefna ekki gildar nema með kaupmála.

Kaupmálar eru formlegt skjal, en formið er hér mjög mikilvægt til að geta kallast kaupmáli. Kaupmála er hægt að gera hjá hjónaefnum eða hjónum.

Kaupmáli skal vera skriflegur í tvíriti og um skjalið gilda reglur þinglýsingarlaga, enda skal kaupmálinn skráður hjá sýslumanni. Þannig er ekki nægjanlegt að vera með munnlegt samkomulag milli hjóna um tiltekin atriði. Undirritun hjóna eða hjónaefna skal staðfest af lögbókanda, lögmanni eða tveimur vottum, sem skulu vera lögráða og staðfestingarhæfir samkvæmt réttarfarsreglum og vottun skal fara fram samhliða undirritun kaupmálans. Þá skal skýrt tekið fram í skjalinu að verið sé að votta kaupmála. Kaupmálar taka ekki gildi fyrr en við skráningu hjá sýslumanni og um afturköllun gilda sömu reglur og um skráningu. Ef annað hjóna eða hjónaefna er ólögráða verður lögráðamaður að staðfesta kaupmála.

Hægt er að tímabinda kaupmála, þannig að t.d. séreign verði hjúskapareign ef hjúskap lýkur með andláti. Eignin kemur þannig ekki til skipta við skilnað en við andlát færist hún úr séreign hins látna til hjúskapareigna, en þá hefur makinn rétt til setu í óskiptu búi og fer með yfirráð eigna þess. Með kaupmála er ekki möguleiki að tryggja framtíðareignir sínar sem séreignir.
Skráning eignanna skiptir hér höfuðmáli og hefur dómaframkvæmd staðfest það, svo sem í dómi Hæstaréttar Íslands í
máli HRD. 2013/1959 þar sem segir:

Kaupmála hafa þau ekki gert, og eru því þær eignir, sem þau kunna að hafa komið með í búið, hjúskapareign hvors um sig. Hið sama gildir um erfðafé konunnar, enda ekki vitað, að arfláti hafi látið svo um mælt, að arfur sá, er hún hlyti, skyldi verða séreign hennar.

Fyrir einstaklinga í óvígðri sambúð gildir kaupmáli ekki. Hins vegar eru eignir sem skráðar eru á hvorn einstakling fyrir sig, hans eign og sambúðinni óviðkomandi við slit sambúðar. Hér geta vaknað spurningar um hvort sá aðili sem ekki er skráður fyrir eigninni hafi lagt eitthvert fé til við kaupin, eða t.d. viðhalds sem skiptir máli til að meta sem hlutdeild í eigninni.

FJÁRSKIPTI HJÓNA
Eins og áður er vikið að þarf að liggja fyrir skriflegur samningur um fjárskipti milli hjóna til að geta fengið leyfi til skilnaðar. Fjárskiptasamningur er oftast staðfestur af sýslumanni en dómara ef mál er þar til meðferðar. Frá staðfestingu fjárskipta eru eignir og skuldir makanum óviðkomandi. Ef hjón eru eignarlaus, þá er nægjanlegt að yfirlýsing hjónanna um eignaleysi liggi fyrir í stað fjárskiptasamnings, sem þó skal staðfest fyrir sýslumanni eða dómara.

Í ákvæði 95. gr. hjúskaparlaga er opnað fyrir að fella fjárskiptasamning að nokkru leyti eða öllu úr gildi, ef hann er bersýnilega ósanngjarn á þeim tíma þegar til hans var stofnað. Þetta verður aðeins gert innan árs frá því leyfi til skilnaðar var veitt, fyrir dómi, enda er um að ræða samning sem staðfestur var af hjónunum við skilnað. Sá sem heldur því fram að samningurinn sé bersýnilega ósanngjarn hefur sönnunarbyrði fyrir því fyrir dómi.

Meginreglan við skilnað er að líta til helmingaskiptareglunnar sbr. 103. gr. hjúskaparlaga. Þó koma reglulega fyrir skáskiptareglur sbr. 104. gr. laganna.

Helmingaskiptareglan
Helmingaskiptareglan er meginreglan við fjárskipti hjóna við skilnað. Skírri hjúskapareign hvors um sig skal skipt til helminga, sbr. 6. gr. hjúskaplaga, sbr. 103. gr. sömu laga. Hvor maki um sig á þannig tilkall til helmings úr skírri hjúskapareign hins. Þegar helmingaskiptareglunni er beitt þá eru skráðar allar eignir og allar skuldir og svo síðan deilt niður á hjónin til helminga. Það kemur fyrir að skiptingin verður ekki alveg jöfn og greiðir þá sá sem hefur fengið hærri úthlutun, mismun til hins makans með peningum, þannig að skiptin verði jöfn.

Skáskipti
Með skáskiptareglunni sbr. 104. gr. hjúskaparlaga er vikið frá helmingaskiptareglunni, en þar segir að víkja megi frá reglum um helmingaskipti og ákvæðum um skipti á séreign ef skipti yrðu að öðrum kosti bersýnilega ósanngjörn fyrir annað hjóna. Á þetta einkum við þegar tekið er tillit til fjárhags hjónanna og lengdar hjúskapar, svo og ef annað hjóna hefur flutt í búið verulega miklu meira en hitt við hjúskaparstofnun eða hefur síðar erft fé eða fengið það að gjöf frá öðrum en maka sínum. Hér er því lagt mat á hvaða verðmæti hvort hjóna kom með inn í hjónabandið og tímalengdar hjúskapar. Stutt hjónaband getur þannig haft meiri áhrif á fjárslitasamning, ef hann er bersýnlega ósanngjarn og ekki hafi stofnast til raunverulegs fjárfélags í hjónabandi.

Í lengri hjónaböndum eru því meiri líkur á að fjárfélag myndist og helmingaskiptareglan verði virk. Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli HRD. 41/2005 höfðu hjónin verið gift í þrjú ár, en eiginmaðurinn átti íbúð við upphaf hjónabandsins sem hann seldi og þau  keyptu sér aðra íbúð sem skráð var til helminga á hvort þeirra. Maðurinn freistaði þess að fá þessa eign sína metna við fjárskiptin á grundvelli skáskiptareglunnar. Dómurinn segir:

Maðurinn krafðist þess að vikið yrði á nánar tiltekinn hátt frá helmingaskiptum við opinber skipti til fjárslita milli hans og Konunnar vegna hjónaskilnaðar. Hjúskapur aðila hafði staðið í þrjú ár og á þeim tíma hafði myndast með þeim fjárhagsleg samstaða. Að öllum atvikum virtum var ekki talið að skilyrði væru til þess að víkja frá helmingaskiptareglu hjúskaparlaga. Þá var Konunni gert að greiða Manninum leigu fyrir þann tíma sem hún hafði búið í íbúð þeirra eftir samvistarslit.

Helmingaskiptareglan var látin ráða, en svo virðist sem einhvers konar sárabót hafi verið fyrir manninn sem fékk greidda húsaleigu fyrir þann tíma sem konan var í íbúðinni eftir skilnað.

Fjölmargir dómar hafa fallið um skiptingu eigna og má álykta að meginreglan sé sú að skáskiptareglan eigi frekar við ef hjónaband hefur varað skamman tíma. Þá hefur Hæstiréttur Íslands staðfest að ef sambúð hefur varað í langan tíma, en hjónaband í skamman tíma beri að meta allan tímann sem aðilar voru með sameiginlegt heimili. Þá kann að skipta máli hvort kaupmáli hafi verið gerður. Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli HRD. 191/2008 voru uppi sjónarmið um hvort meta ætti fjárskipti hjóna á grundvelli helmingaskiptareglunnar eða skáskiptareglunnar. Hjónin voru í annað sinn á þremur árum að ganga í gegnum skilnað sín á milli. Dómurinn segir:

Maðurinn og Konan fengu leyfi til skilnaðar að borði og sæng árið 2003 og gerðu af því tilefni með sér fjárskiptasamning. Talið var að réttaráhrif þess skilnaðar hefðu fallið niður þar sem þau hefðu tekið upp sambúð að nýju. Maðurinn og Konan fengu aftur skilnað að borði og sæng árið 2006. Var talið að við fjárslit vegna síðari skilnaðarins skyldi á grundvelli 111. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 vikið frá helmingaskiptareglu 103. gr. laganna sbr. 1. mgr. 104. gr. sömu laga, að því er varðaði lán sem Konan hafði tekið í tengslum við hinn fyrri fjárskiptasamning og upplýst var að hún hefði greitt Manninum vegna kaupa á hlut Mannsins í fasteign þeirra. Á þessum grundvelli var talið að Konan gæti fengið fasteign búsins og bifreið sér útlagða gegn nánar tiltekinni greiðslu.

Að kröfu annars hjóna er hægt að halda tilgreindum eignum utan skipta. Oftast er um persónuréttindi að ræða svo sem réttindi í opinberum lífeyris- eða einkalífeyrissjóðum sem og önnur réttindi eða verðmæti sem ekki er hægt að afhenda eða eru svo persónulegs eðlis, svo sem munir sem eru því nauðsynlegir til að halda áfram atvinnu eða menntun sinni. Undanþága fyrir að halda verðmætum utan skipta geta verið munir sem eru svo verðmætir að það verði talið ósanngjarnt gagnvart hinu hjónanna að halda þeim utan skipta. Sama gegnir um muni sem hafa minjagildi fyrir annan maka eða fjölskyldu hans. Þá geta fébætur, almannatryggingabætur, vátryggingafé vegna líkams- eða heilsutjóns komið hér til skoðunar.

Fjárskipti sambúðarfólks
Eins og áður segir gildir helmingaskiptaregla hjúskapalaga ekki um óvígða sambúð. Fer hún eftir almennum reglum  fjármunaréttar og verður mögulega byggt á samkomulagi milli sambúðarfólksins, en að öðru leyti fer um skiptinguna eftir skráningu og sönnun fyrir því hvernig verðmætin urðu til. Ef annar aðilinn hafði keypt allt innbú og getur sannað það, tekur hann allt með sér. Þá geta annar eða báðir aðilar krafist opinberra skipta sbr. 100. gr. skiptalaga nr. 20/1991, ef sambúð hefur varað í  a.m.k. tvö ár eða ef einstaklingarnir eiga barn saman.

Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli HRD. 487/2005 var tekist á um skipti í óvígðri sambúð. Dómurinn segir:

Við opinber skipti til fjárslita milli Mannsins og Konunnar við lok óvígðrar sambúðar deildu aðilar um eignarhlut í fasteign. Við upphaf sambúðarinnar átti Konan fasteign og lagði andvirði hennar til kaupa hinnar umdeildu fasteignar, sem í veðmálabókum  var talin eign þeirra Mannsins og Konunnar að jöfnu. Talið var sýnt að Konan hefði lagt meira að mörkum til kaupa fasteignarinnar þannig að ekki yrði í málinu byggt á hinni þinglýstu eignarheimild. Ekki var ágreiningur um fjárframlag hvors um sig til kaupanna utan það að Maðurinn byggði á því að tiltekið lán sem tekið var til kaupa fasteignarinnar hafi átt að greiðast af honum einum og teljast með framlagi hans. Þessu mótmælti Konan og lagði fram gögn um að þau væru bæði skuldarar að umræddu láni. Gögn málsins þóttu veita nægilega vísbendingu um að það hefði verði ætlun aðila að líta á umrætt lán sem framlag Mannsins og var lagt til grundvallar að svo hefði verið. Var þá meðal annars litið til þess að Maðurinn hafði einn skráð skuldina á skattframtal sitt og virtist hafa greitt afborganir af henni. Þá lá einnig fyrir uppkast að eignaskiptasamningi sem þótti veita vísbendingu í sömu veru þótt ekki yrði byggt á honum að fullu. Var því lagt til grundvallar að Maðurinn væri eigandi 42,4% fasteignarinnar en K 57,6%.

Í þessum dómi er það viðurkennt að Maðurinn hafði tekið lán sem hann greiddi einn af og var það því hans framlag til kaupanna. Konan fékk sinn hluta metinn eins og hún lagði fram við upphaf kaupanna. Það skiptir því máli í óvígðri sambúð að halda utan um þau verðmæti sem sett eru til sameiginlegra kaupa á fasteign. Með skuldir þurfa aðilar að vera vakandi, því skuldir sem  skráðar eru á hvorn aðilann fyrir sig leiða meiri líkur á að þær muni fylgja viðkomandi við slit óvígðrar sambúðar.

AÐ ENDINGU
Í grein þessari hefur verið fjallað um skilnað og slit óvígðrar sambúðar. Það eru mörg önnur sjónarmið sem koma til skoðunar svo sem ef hjón, eða annar aðili sambandsins, hafa verið með rekstur, saman í félagi, eða á kennitölu annars þeirra. Hvaða eignir eru þá skráðar atvinnurekstrareignir og hvaða eignir eru mögulega eign viðkomandi. Við andlát annars makans eða sambúðaraðila koma upp sjónarmið um erfðir, en nokkur mismunur er á meðhöndlun dánarbús eftir því hvort um hjón var að ræða eða tvo einstaklinga, eins og aðeins er vikið að hér að framan. Bíður umfjöllun um þessi efni síðari tíma.
                                                                                                                                                 

Pétur Steinn Guðmundsson

 

FLE blaðið, janúar 2021 1. tbl, 43. árg.