Ennfremur mikilvægi þess að endurskoðendur þekki sína vegferð í að miðla upplýsingum til viðskiptavina um hlutverk þeirra svo hægt sé að ná þeim. Komust þátttakendur að niðurstöðu um þau heimsmarkmið þar sem endurskoðendur í opinbera- og einkageiranum hafa mikilvægu hlutverki að gegna.

HEIMSMARKMIÐ SAMEINUÐU ÞJÓÐANNA

UM SJÁLFBÆRA ÞRÓUN – SAMFÉLAGSLEG ÁBYRGÐ ENDURSKOÐENDA
Margrét Pétursdóttir endurskoðandi, Sigurður S. Jónsson og Guðmundur Már Þórsson hjá EY

Á undanförnum árum hefur félagslegt, umhverfislegt og efnahagslegt virði sem fyrirtæki skapa fyrir hagsmunaaðila sína fengið mikla athygli í viðskiptalífinu. Þrátt fyrir að lengi hafi verið viðurkennt að samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja leiki einstakt hlutverk í að bæta velferð þjóðfélaga, þá hafa markmið um samfélagsmál ekki skilað sér nægilega vel í stefnumótun fyrirtækja. Litið hefur verið á þetta hlutverk sem óbeina afleiðingu af starfsemi þeirra og að ólíklegt sé að það muni leiða til verðmætasköpunar til lengdar (1).

Þetta hefur verið að breytast og víða um heim hafa fyrirtæki í auknu mæli verið gerð ábyrg fyrir hlutverki sínu í að skapa samfélagslegt virði. Þá eru vaxandi vísbendingar um að hagsmunaaðilar geri kröfu um að fyrirtæki taki að sér stærra hlutverk til að taka á samfélagsmálum. Á Íslandi hefur til dæmis tilskipun Evrópusambandsins 2014/95/EU um ófjárhagslegar upplýsingar verið innleidd í lög um ársreikninga nr. 3/2006. Innleiðingin er gerð til að bæta upplýsingagjöf til hagsmunaaðila þannig að þeir geti með áreiðanlegum hætti lagt mat á „þróun, umfang, stöðu og áhrif félagsins í tengslum við umhverfis-, félags- og starfsmannamál“(2). Ófjárhagslegar upplýsingar eru sagðar gefa betri mynd af rekstri félags til lengri tíma heldur en einungis fjárhagslegar upplýsingar. Félög hafa því gefið út samþættar skýrslur sem gefa fjárfestum og öðrum hagsmunaaðilum skýrari heildarmynd af félaginu og horfum þess.

Árið 2015 voru Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun (e. Sustainable Development Goals) samþykkt af aðildarríkjum samtakanna. Heimsmarkmiðin tóku yfir hlutverk þúsaldarmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, sem samþykkt voru um síðustu aldarmót og höfðu það markmið að stuðla að betri heimi fyrir alla. þúsaldarmarkmiðin voru átta talsins og beindust aðeins að þróunarríkjum heimsins, en með Heimsmarkmiðunum hefur markmiðunum verið fjölgað og gilda þau nú fyrir öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna, sem hafa skuldbundið sig til að innleiða þau og vinna markvisst að þeim, bæði í sínum heimaríkjum sem og í öðrum löndum. Heimsmarkmiðin eru 17 en innan þeirra eru 169 undirmarkmið. Markmiðin gilda til ársins 2030.

Heimsmarkmiðin geta verið notuð sem öflugt og leiðbeinandi verkfæri til að taka á félagslegum, umhverfislegum og efnahagslegum málum sem hafa verið í brennidepli undanfarin misseri.

Í kjölfar þess að heimsmarkmiðin voru samþykkt hélt IFAC tvær vinnustofur árið 2016. Á vinnustofunum komu aðilar úr stéttinni, úr atvinnulífinu og aðilar frá Sameinuðu þjóðunum saman og ræddu um hvernig endurskoðendur um allan heim gætu sýnt samfélagslega ábyrgð og þannig tryggt árangur heimsmarkmiðanna. Ennfremur mikilvægi þess að endurskoðendur þekki sína vegferð í að miðla upplýsingum til viðskiptavina um hlutverk þeirra svo hægt sé að ná þeim. Komust þátttakendur að niðurstöðu um þau heimsmarkmið þar sem endurskoðendur í opinbera- og einkageiranum hafa mikilvægu hlutverki að gegna. Bæði hvað varðar sjálfbærni í eigin rekstri og einnig fyrir almannahagsmuni.

Í kjölfarið gaf IFAC út niðurstöðurnar í útgáfu sem ber heitið The 2030 agenda for sustainable development: a snapshot of the accountancy profession´s contribution. Þessi grein byggir á þeirri útgáfu en hún er aðgengileg í heild sinni á vef IFAC. Verkefnið að stuðla að sjálfbærni í samfélaginu er risastórt en umfjöllun IFAC var bara ætlað að vera fyrsta skrefið í ferðalaginu framundan.

Eftirfarandi eru þau 8 markmið og 19 undirmarkmið sem IFAC hefur tilgreint sem þau atriði sem við sem stétt höfum einna helst hlutverki að gegna (3).


Menntun fyrir alla: felur í sér að tryggja jafnan aðgang allra að góðri menntun og stuðla að símenntun fyrir alla.

Eigi síðar en árið 2030 verði öllum konum og körlum tryggður jafn aðgangur að góðu tækni-, starfs- og framhaldsnámi, þar á meðal á háskólastigi, á viðráðanlegu verði.
Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að öll ungmenni og stór hluti fullorðinna, bæði karlar og konur, hafi náð tökum á lestri og skrift og öðlast talnaskilningi.

Ljóst er að viðeigandi og sanngjörn menntun á viðráðanlegu verði er mikilvægur þáttur í að binda enda á fátækt og stuðla að hagvexti í samfélögum. Leggja þarf sérstaka áherslu á að endurskoðendur viðhaldi faglegri þekkingu sinni og hæfni með markvissri og skilvirkri endurmenntun sem endurspeglar þá þætti sem nefndir voru hér fyrir ofan. Það er mikilvægt fyrir stéttina að finna nýjar leiðir til að vekja áhuga einstaklinga á faginu og að tekin verði mikilvæg skref í að fjarlæga þær fyrirstöður sem leiða til ójafnra kynjahlutfalla í stéttinni.


Jafnrétti kynjanna: felur í sér að tryggja jafnrétti kynjanna og styrkja frumkvæðisrétt allra kvenna og stúlkna.

Tryggð verði virk þátttaka kvenna og jöfn tækifæri þeirra til að vera leiðandi við ákvarðanatöku á öllum sviðum stjórn- og efnahagsmála sem og á opinberum vettvangi.

Fjölbreytt starfsstétt er öflugri starfsstétt. Þannig þurfum við að stuðla að jafnari kynjahlutföllum í endurskoðun, fjármálum og stjórnunarstöðum félaga. Í mörgum löndum hefur tekist vel að fá konur til starfa í greininni og jafna þar með kynjahlutföll starfsmanna en verr gengur að jafna hlutföllin í stjórnunarstöðum bæði í atvinnulífinu og eins hjá endurskoðunarfyrirtækjunum. Til að mynda skipa konur rúmlega helming allra starfa hjá endurskoðunarfyrirtækjum í Bandaríkjunum en aðeins 21% af meðeigendum félaganna eru konur. Til að ná þessu markmiði þurfa félög að fagna fjölbreytileikanum, einkum hvað varðar kyn, þar sem það hefur í mörgum tilvikum sýnt sig að það hefur skilað sér í skilvirkari og árangursríkari rekstri félaga.


Góð atvinna og hagvöxtur: fjallar um að markmið um góða atvinnu og hagvöxt stuðli að viðvarandi sjálfbærum hagvexti, arðbærum og mannsæmandi atvinnutækifærum fyrir alla.

Haldið verði við hagvexti á hvern einstakling í samræmi við aðstæður í hverju landi og að minnsta kosti 7% vexti vergrar landsframleiðslu á ári í þeim þróunarlöndum sem eru skemmst á veg komin.
Unnið verði að framgangi þróunarmiðaðra stefnumála sem styðja við afkastamikla framleiðslustarfsemi, frumkvöðlastarfsemi, sköpunarmátt og nýsköpun og fjölga mannsæmandi störfum. Lítil og meðalstór fyrirtæki fái meðbyr, meðal annars með aðgengi að fjármálaþjónustu.

Hagvöxtur hefur margvísleg áhrif á heimsmarkmiðin og má þar helst nefna minnkun fátæktar. Þetta heimsmarkmið undirstrikar tvö mismunandi en tengd atriði sem krefjast athygli endurskoðenda. Í fyrsta lagi er þörf fyrir að endurskoðendur beiti sérfræðiþekkingu og færni sinni til að hlúa að öflugri og ábyrgari skipulagsheildum. Það getum við gert með því að gera okkar besta til þess að allar ákvarðanir sem eru teknar hjá þeim byggi á áreiðanlegum upplýsingum og að bæði skammtíma og langtíma efnahagslegar, félagslegar og umhverfislegar afleiðingar af ákvörðunum séu teknar með inn í reikninginn. Í öðrum, og víðari skilningi, er framlag stéttarinnar til meiri velmegunar og bættra lífskjara. En áhrif endurskoðenda á betri upplýsingar, skýrslur, mælikvarða og ákvörðunartöku skipulagsheilda eru beintengd bættum lífskjörum, heilsu, vellíðan og velmegun þjóða og þegna þeirra.


Nýsköpun og uppbygging: felur í sér að byggja upp sterka innviði, stuðla að sjálfbærri iðnvæðingu fyrir alla og hlúa að nýsköpun.

Eigi síðar en árið 2030 verði innviðir styrktir og atvinnugreinar endurskipulagðar til að gera þær sjálfbærar, nýting auðlinda verði skilvirkari og í auknum mæli innleiði hvert og eitt land tækni og umhverfisvæna verkferla eftir getu.
Stuðlað verði að sjálfbærri uppbyggingu innviða í þróunarlöndum með sveigjanleika að viðmiði, auknum fjárhagsstuðningi og tæknilegum stuðningi við Afríkuríki, þróunarlönd sem eru á skemmst á veg komin, landlukt þróunarlönd og þróunarlönd sem eru smáeyríki.

Hágæða hagrænir innviðir renna stoðum undir aukin efnahagsumsvif, bæði innan sem utan landamæra þjóða. Þeir eru ein mikilvægasta vogarstöngin sem býðst til að styðja fyrirtæki í að fara í þær fjárfestingar sem knýja sjálfbæran vöxt. Forsendur iðnvæðingar eru nýsköpun og tækniuppbyggingu. Það er því mikilvægt að við séum vakandi fyrir spennandi fjárfestingatækifærum í nýrri tækni og innviðum sem stuðla að sjálfbærri þróun. Starfsmenn endurskoðunarfyrirtækja eru í lykilstöðu til þess að hafa jákvæð áhrif á nýsköpun og uppbyggingu samfélaga með því að bera kennsl á og meta þessi tækifæri fyrir félög og stofnanir.


Ábyrg neysla og framleiðsla: felur í sér að tryggja sjálfbæra neyslu og framleiðslumynstur.

Fyrirtæki, einkum stór og alþjóðleg fyrirtæki, verði hvött til þess að innleiða sjálfbæra þróun í starfsemi sína og veita upplýsingar um sjálfbærni í skýrslum sem gefnar eru út á þeirra vegum.

Þetta markmið er sérstaklega viðeigandi fyrir stéttina. Innleiðing sjálfbærni í starf og stjórnunarhætti félaga er lykilatriði fyrir þau til að ná mikilvægustu tækifærunum sem bjóðast vegna heimsmarkmiðanna og draga úr áhættu. Félög þurfa að grípa öll þau tækifæri sem bjóðast vegna heimsmarkmiðanna og er besta leiðin til þess að líta á þau sem hluta af grunnstoðum þeirra. Endurskoðendur þurfa því í hefðbundnum störfum sínum að vinna að því að ná sem mestu út úr vinnuferlum og draga úr sóun. Einnig þurfa endurskoðendur að vera vakandi fyrir nýsköpun og tækniþróunum, til að tryggja að þeir styðji við þróun ferla sem eru arðbærir og stuðli þannig beint eða óbeint að Heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun.


Aðgerðir í loftslagsmálum: Grípa þarf til bráðra aðgerða gegn loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra.

Auka viðbragðsáætlanir og forvarnir við vá af völdum loftslagsbreytinga og náttúruhamfara alls staðar í heiminum.
Ráðstafanir vegna loftslagsbreytinga verði að finna í landsáætlunum, stefnumótun og skipulagi.
Menntun verði aukin til að vekja fólk til meðvitundar um hvernig mannauður og stofnanir geta haft áhrif og brugðist við loftslagsbreytingu, þar á meðal með snemmbúnum viðbúnaði og viðvörum.

Með markmiðinu er áherslan sett á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda ásamt því að lönd efli viðnámsþol og aðlögunargetu sína til að bregðast við afleiðingum loftslagsbreytinga. Innri endurskoðendur og aðrir starfsmenn á fjármálasviðum félaga ættu að leggja sitt að mörkum að ná markmiðinu með því að hvetja sín félög til að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda á þeirra eigin forsendum og sýna þar með frumkvæði og ábyrgð gagnvart umhverfinu og samfélaginu. Þá ber endurskoðendum að stuðla að því að markmið félaga í loftslagsmálum séu skýr, viðráðanleg og að hægt verði að meta árangur og framfarir þeirra með áreiðanlegum hætti.


Friður og réttlæti: byggir á því að stuðla að friðsælum og sjálfbærum samfélögum fyrir alla, tryggja jafnan aðgang að réttarkerfi og koma á fót skilvirkum og ábyrgum stofnunum fyrir alla á öllum stigum.

Dregið verði verulega úr hvers kyns spillingu og mútum.
Byggðar verði upp skilvirkar og ábyrgar stofnanir á öllum sviðum sem hafa gegnsæi að leiðarljósi.

Markmið 16 hefur verið skilgreint sem „markmið fólksins”, þar sem fjársvik og spilling hindrar viðskipti, dregur úr samkeppni, beinir auðlindum frá þeim sem þær þurfa, dregur úr fjárfestingu hins opinbera og aftrar erlendri fjárfestingu. Markmið um sjálfbæra þróun eru gagnslaus í umhverfi þar sem spilling og slæmir stjórnarhættir viðhafast. Þannig geta endurskoðendur verið leiðandi ljós í baráttu gegn fjársvikum og spillingu, með því að sýna fagmannleg og siðferðisleg vinnubrögð m.a. með því að fara eftir siðareglum fyrir endurskoðendur og stuðla þannig að menningu og umhverfi fyrir siðferðislega hegðun. Þá þurfum við, endurskoðendur, að vera talsmenn fyrir góðum stjórnarháttum og lagasetningu sem byggir á gegnsæi.


Samvinna um markmiðin: byggir á því að samvinna um markmiðin snúist um að styrkja framkvæmd og blása lífi í alþjóðlegt samstarf um sjálfbæra þróun.

Úrræði heimamanna verði styrkt, meðal annars með alþjóðlegum stuðningi við þróunarlönd, til að bæta skattkerfið og aðra tekjuöflun.
Kallað verði eftir viðbótarfjármagni hvaðanæva að til handa þróunarlöndum.
Efldur verði alþjóðlegur stuðningur við þróunarlönd til að ýta úr vör skilvirkri og hnitmiðaðri uppbyggingu með hliðsjón af landsáætlunum sem fela í sér sjálfbær þróunarmarkmið, þ.m.t. samstarf milli svæða í norðri og suðri, innan suðursvæða og þríhliða samstarf.
Auka efnahagslegan stöðugleika um allan heim, meðal annars með samræmdri stefnumörkun.
Bæta samræmda stefnu varðandi sjálfbæra þróun.
Alþjóðlegt samstarf um sjálfbæra þróun verði aukið með stuðningi fjölda hagsmunaaðila, sem miðla af þekkingu sinni og sérfræðikunnáttu, veita tæknilegar úrlausnir og fjármagn, í því skyni að ná fram þróunarmarkmiðunum um sjálfbærni í öllum löndum, einkum þróunarlöndunum.

Heimsmarkmiðin munu ekki nást nema atvinnulífið styðji við samvinnu aðila til að takast á við þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir. Samvinnan getur verið þvert yfir virðiskeðjuna, innan atvinnugreinar, með stjórnvöldum eða öðrum samtökum. Endurskoðendastéttin, ásamt stjórnvöldum og skattgreiðendum, gegna þar mikilvægu hlutverki við að betrumbæta tekjuöflun á landsvísu, koma í veg fyrir undanskot frá skatti og ólöglegt sjóðstreymi.


Öll 17 heimsmarkmiðin tengjast innbyrðis. Þegar unnið er að einu markmiði þá hefur það keðjuverkandi áhrif á önnur markmið. Aðalinntak heimsmarkmiðana er að engir einstaklingar eða hópar verði skildir eftir. Meginatriði markmiðanna er að útrýma fátækt í allri sinni mynd, tryggja öllum mannréttindi, stuðla að friði um allan heim og þar með auka frelsi fólks.
Ljóst er að endurskoðendur hafa mikilvægu hlutverki að gegna í heimsmarkmiðunum og mun meira heldur en flest okkar gera sér grein fyrir. Mikilvægt er að við í stéttinni séum vakandi fyrir öllu sem við getum gert til að vinna að markmiðunum, bæði hvað varðar okkar eigin vinnustaði og einnig með því að aðstoða viðskiptavini okkar. Eitt er að vinna í samræmi við markmiðin, annað að segja frá því hvaða árangur hefur náðst og/eða veita öðrum aðstoð við frásögnina og hið þriðja að veita óháða staðfestingu á upplýsingagjöf fyrirtækja til markaðarins um hvernig þau vinna að markmiðunum en sá akur er alveg óplægður hér á landi.


1. EPIC (Embankment project for inclusive capitalism) report
2. https://www.althingi.is/lagas/nuna/2006003.html
3. The 2030 agenda for sustainable development: a snapshot of the accountancy profession‘s contribution

FLE blaðið, janúar 2020 1. tbl, 42. árg.
24.01.2020