Mikilvægt er að vanda vel til verka við gerð erfðaskráa enda geta allmörg atriði ógilt erfðaskrána samkvæmt lögum og því miður er vel þekkt að erfingjar deili um gildi erfðaskráa fyrir dómstólum.

Hjúskapur eða sambúð - skiptir það máli í erfðarétti

Halla Björg Evans hdl. og sérfræðingur á skatta- og lögfræðisviði KPMG

Ákveðins misskilnings virðist gæta um að réttarstaða giftra einstaklinga og einstaklinga í sambúð sé sú sama þegar kemur að erfðarétti og því er mikilvægt að vekja athygli á því máli. Reglurnar eru eftirfarandi: Við andlát annars hjóna skiptast heildareignir þeirra í jöfnum hlutum milli dánarbúsins og eftirlifandi maka, nema ef hjónin hafi gert kaupmála sem skilgreinir séreignir þeirra. Ef par er gift þá erfast eignir þess skammlífara að fullu til maka ef engin eru börnin en annars erfist 1⁄3 hluti af helmingshluta þess skammlífara til maka hans en 2⁄3 til barna. Langlífari makinn greiðir engan erfðafjár-skatt af arfinum, en börnin greiða 10% erfðafjárskatt af sínum arfi. Hins vegar skiptast eignir sambúðarpars ekki við andlát annars, sá sem er skráður fyrir eignunum á þær og aðeins hans lögerfingjar (börn ef þau eru til staðar, annars foreldrar, síðan systkini) erfa hans eignir. Það skiptir ekki máli hversu lengi par hefur verið í sambúð, erfðaréttur þess breytist ekki nema með gerð erfðaskrár. Samkvæmt erfðalögum þá geta allir 18 ára og eldri ráðstafað eignum sínum með erfðaskrá, svo lengi sem þeir eru heilir heilsu andlega. En arfleifanda er aðeins heimilt að ráðstafa 1⁄3 eigna sinna með erfðaskrá sé hann giftur eða á barn, þ.e. sé um svokallaða skylduerfingja að ræða.

Sambúðarpar getur samkvæmt þessu gert réttarstöðu sína eins og hjá pari í hjúskap ef þau eiga engin börn og gera erfðaskrá. Þegar sambúðarparið eignast barn þá getur parið aðeins arfleitt hvort annað að 1⁄3 eigna sinna, í slíkum tilfellum. Þá fellur sjálfkrafa úr gildi áður gerð erfðaskrá. Eftirlifandi sambúðaraðili sætir ekki álagningu erfðafjárskatts af arfi sem honum hlotnast á grundvelli erfðaskrár milli hans og sambúðaraðila.

Annað sem þörf er að vekja athygli á er að ef hjón eiga eingöngu sameiginleg börn þá á langlífari makinn sjálfkrafa rétt á setu í óskiptu búi nema ef sá skammlífari hafi mælt fyrir í erfðaskrá að skipti skuli fara fram. Ef hjónin eiga börn utan hjónabandsins (stjúpbarn hins) geta hjónin mælt svo fyrir í erfðaskrá að langlífari makinn megi sitja í óskiptu búi og geta þá stjúpbörnin ekki stöðvað þá gerð. En annars segir svo í lögum að langlífari makinn geti aðeins setið í óskiptu búi með ófjárráða stjúpbörnum sínum með samþykki lögráðamanna þeirra eða ef stjúpbörnin eru fjárráða með samþykki þeirra sjálfra. Því getur skipt miklu máli að gera erfðaskrá, sé vilji til að bú sé óskipt.

Þriðja atriðið sem vert er að minnast á er ákvæði sem margir setja nú í erfðaskrár sínar en það er að arfur verði séreign þeirra er við taka. Almenna reglan er sú, að samkvæmt lögum þá verður arfur sem fellur erfingja í skaut sameign hans og maka hans nema ef arfleifandi hafi kveðið á um annað í erfðaskrá sinni. Mörgum þykir slíkt ákvæði mikilvægt til að standa vörð um framtíðareignir barnasinna.

Mikilvægt er að vanda vel til verka við gerð erfðaskráa enda geta allmörg atriði ógilt erfðaskrána samkvæmt lögum og því miður er vel þekkt að erfingjar deili um gildi erfðaskráa fyrir dómstólum. Með erfðaskrá getur arfleifandi ráðstafað eignum sínum að sinni ósk og enginn maður er of ungur til að huga að þessum málum, þ.e. ef hann hefur náð 18 ára aldri. Greinarhöfundur útbjó sína erfðaskrá 29 ára, enda veit enginn sína ævi fyrr en öll er.

Rétt er að hafa í huga að af arfi skulu allir erfingjar greiða 10% erfðafjárskatt aðrir en langlífari maki og sambúðaraðili sem tekur arf samkvæmt erfðaskrá. Að lokum er vert að geta þess að yfirfærsla eigna, að verðmæti umfram hæfilega tækifærisgjöf, telst vera tekjuskattskyld gjöf, nema gengið sé frá eignayfirfærslunni sem fyrirframgreiddum arfi og erfðafjárskattur greiddur eftir því sem við á.

Birt í Viðskipta Mogganum fimmtudaginn 30. apríl 2015 bls. 12.

Mbl.is - Viðskiptamogginn, 30. apríl 2015
30.04.2015