Endurskoðandinn getur aldrei veitt algjöra vissu um að reikningsskil séu laus við verulegar rangfærslur vegna eðlislægra takmarkana endurskoðunar.

Hvað er endurskoðun?

Ómar H. Björnsson löggiltur endurskoðandi og partner hjá PwC

Hlutverk endurskoðunar er að skapa traust í viðskiptum. Það er lykilatriði fyrir traust á fjármála-mörkuðum og í viðskiptum almennt að fyrirtæki geti látið óháða aðila endurskoða reikningsskil sín. Ávinningur af endurskoðun er að staðfesta að reikningsskil sem stjórn félags setur fram sýni ,,glögga mynd“ af fjárhagslegum árangri og stöðu félagsins. Endurskoðun styrkir trúnað og traust í samskiptum milli stjórnar félags, eigenda þess og annarra hagsmunaaðila, sem hafa þörf fyrir að reikningsskilin sýni glögga mynd af afkomu félagsins. Vegna mikilvægis endurskoðunar vakna oft ýmsar spurningar um hana, endurskoðendur og þá hagsmunaaðila sem þeir þjóna.

Almennt séð snýst endurskoðun um mat á viðfangsefni með það að markmiði að veita álit á því hvort það hafi verið réttilega framsett. Félög setja fram reikningsskil sem veita upplýsingar um fjárhagslega stöðu og rekstrarárangur þeirra. Þessar upplýsingar eru svo notaðar af breiðum hópi hagsmunaaðila, t.d. fjárfesta, til að taka hagrænar ákvarðanir. Hluthafar félags eru ekki endilega þeir sömu og stjórna því frá degi til dags. Hluthafar og aðrir hagsmunaaðilar s.s. bankar, birgjar og viðskiptavinir treysta á að staðfesting óháðs aðila á reikningsskilum félags sýni í öllum meginatriðum glögga mynd af fjárhagslegri stöðu og rekstrarárangri þess.

Til að auka traust á reikningsskilum er óháður og hæfur aðili, löggiltur endurskoðandi, fenginn til að rannsaka reikningsskilin og viðeigandi skýringar sem settar hafa verið fram af stjórnendum og gefa faglegt álit á því hvort þau veiti í öllum meginatriðum glögga mynd af fjárhagslegum árangri félags yfir tiltekið tímabil (rekstrarreikningur) og fjárhagslegri stöðu þess á tilteknum degi (efnahagsreikningur) í samræmi við viðeigandi reikningsskilareglur.

Stjórnendur félags bera ábyrgð á gerð reikningsskila þess. Endurskoðandinn ber ábyrgð á að veita álit um það hvort nægjanleg vissa sé til staðar um að reikningsskilin séu án verulegra annmarka, annað hvort af völdum sviksemi eða mistaka og að þau hafi verið framsett í samræmi við lög og settar reikningsskilareglur, t.d. alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS).

Óháðir staðlahöfundar setja endurskoðunarstaðla sem eru reglur og leiðbeiningar um hvernig endurskoðun skuli fara fram og kveða á um það stig vissu sem stefnt er að. Það er ábyrgð endur-skoðandans að skipuleggja og framkvæma endurskoðunina þannig að hún mæti kröfum viðeigandi endurskoðunarstaðla og að næg gögn séu til staðar til að styðja álit hans á reikningsskilunum.

Öflun og mat nægjanlegra endurskoðunargagna fer eftir faglegu mati endurskoðandans og álit endurskoðandans kemur skýrt fram í sérstakri málsgrein í áritun hans á reikningsskilin.

Endurskoðandinn tekur mið af settum og ítarlegum reikningsskilareglum við endurskoðunina, en þær segja til um hvernig fyrirtæki ber að skrá og skýra frá jafnvel flóknustu viðskiptum. Þrátt fyrir það fela mörg þau vandamál, sem koma fram í endurskoðun í sér matsatriði þar sem endurskoðandinn verður að beita faglegu mati og reynslu, sérstaklega ef um er að ræða verðmat eða forsendur um framtíðina.

Í mörgum tilvikum er reikningshaldslegt mat óhjákvæmilega byggt á takmörkuðum upplýsingum eða háð atburðum í framtíðinni. Við þær aðstæður verða endurskoðendur að nota reynslu sína og færni til að gefa álit á reikningsskilunum. Hugtökin „álit“ og „glögg mynd“ eru vísvitandi valin til að ljóst sé að um mat er að ræða. Þeir undirstrika það að álit endur-skoðandans er ekki fullvissa heldur niðurstaða byggð á faglegu mati og störfum endurskoðandans í samræmi við viðeigandi staðla.

Álit er ekki trygging á réttri niðurstöðu heldur frekar yfirlýsing um faglegt mat. Endurskoðandinn getur aldrei veitt algjöra vissu um að reikningsskil séu laus við verulegar rangfærslur vegna eðlislægra takmarkana endurskoðunar. Þessar takmarkanir eiga sér ólíkar ástæður, t.d. reikningshaldslegt mat.

Það er því ekki rétt að gera ráð fyrir að hvert einasta atriði í endurskoðuðum reikningsskilum hafi verið skoðað og sannreynt af endurskoðendum og að 100% vissa sé til staðar.

Birt í Viðskipta Mogganum fimmtudaginn 18. júní 2015 bls. 12.

Mbl.is - Viðskiptamogginn, 18. júní 2015
18.06.2015