Samkvæmt lögum um skipan ferðamála þýðir „ferðaskrifstofa“ aðili sem býður fram og selur alferðir í atvinnuskyni, innanlands eða erlendis.

Leyfisveitingar í ferðaþjónustu

Ólafur Gestsson, löggiltur endurskoðandi hjá PwC

Samkvæmt lögum um skipan ferðamála þýðir „ferðaskrifstofa“ aðili sem býður fram og selur alferðir í atvinnuskyni, innanlands eða erlendis. Alferð/pakkaferð er fyrirfram ákveðin samsetning tveggja eða fleiri þátta sem seldir eru saman á einu verði:

•Flutningur og gisting.

•Gisting og afþreying s.s. hesta-, skoðunar-, göngu ferðir, sigling o.s.frv.

•Flutningur og afþreying.

Sótt er um ferðaskrifstofuleyfi á þjónustugátt Ferðamálastofu og upplýsingar um fylgigögn með umsókn um leyfi má finna á heimasíðu hennar. Þau gögn sem m.a. þarf eru rekstrar-, greiðslu- og efnahagsáætlun.

Það sem einkum greinir ferðaskipuleggjanda frá ferðaskrifstofu er að sá viðburður, ferð, sýning eða annað sem ferðaskipuleggjandi annast má ekki taka lengri tíma en sólarhring því um leið og gisting bætist við þarf ferðaskrifstofuleyfi.

Leiðsögumenn geta starfað hjá ýmsum sem koma að ferðaþjónustu s.s. ferðaskipuleggjendum, ferðaskrifstofum og opinberum stofnunum.

Þeir sem starfa sem leiðsögumenn þurfa að hafa til þess leyfi, hvort sem viðkomandi er lærður leiðsögumaður eða ekki. Ef sjálfstætt starfandi leiðsögumaður selur ferðir sem eru styttri en 24 tímar þarf ferðaskipuleggjendaleyfi. Ef ferðirnar eru lengri en 24 tímar þarf viðkomandi leiðsögumaður að hafa ferðaskrifstofuleyfi. Hver sá sem ætlar að reka bókunarþjónustu eða upplýsingamiðstöð skal skrá starfsemi sína hjá Ferðamálastofu en þarf ekki sérstakt starfsleyfi.

Bókunarþjónusta þýðir starfræksla hvers kyns bókunarþjónustu til almennings, fyrir ferðaskipuleggjendur og ferðaskrifstofur, hvort sem er innanlands eða erlendis, þar með talin rafræn bókunarþjónusta. Þessir aðilar geta því hvorki sett saman né boðið til sölu ferðir né ferðatengda starfsemi.

Umsóknir um leyfi til sölu gistingar, veitinga, skemmtanahalds o.s.frv. eru afgreiddar hjá leyfisveitanda í því umdæmi þar sem hin leyfisskylda starfsemi á að fara fram. Leyfisveitendur eru sýslumenn að undanskildum sýslumanninum í Reykjavík en lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gefur út leyfi í umdæmi hans. Leyfið er veitt til fjögurra ára í senn. Umsóknareyðublaðið má finna á heimasíðu sýslumanna. Fjallað er um leyfi til sölu gistingar, veitinga, til skemmtanahalds o.fl. í lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007, og reglugerð sama efnis nr. 585/2007.

Umsóknaraðilinn er annaðhvort einstaklingur eða lögaðili. Umsóknaflokkarnir eru nokkrir og eru vel skilgreindir á umsóknareyðublaðinu ásamt þeim gögnum sem fylgja þurfa umsókninni. Þegar formleg umsókn um rekstur gististaðar hefur borist sýslumanni eða lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu leitar hann eftir vottorði eða umsögn frá vinnueftirliti, heilbrigðiseftirliti, eldvarnaeftirliti og sveitarstjórn á viðkomandi svæði.

Þeir sem selja gistingu þurfa að greiða sérstakan skatt, gistináttaskatt, sem er lagður á hverja selda gistináttaeiningu. Útleiga á fasteign eða hluta fasteignar til skemmri tíma er sala á gistiþjónustu og telst til virðisaukaskattsskyldrar starfsemi. Aðilar sem hyggja á sölu gistiþjónustu þurfa að hafa eftirfarandi atriði í huga við upphaf rekstrar:

1. Sækja þarf um gistileyfi hjá viðkomandi sýslumanni (í Kópavogi vegna höfuðborgarsvæðisins).

2. Ef gistiþjónusta er veitt í heimahúsi hækka fast eignagjöld.

3. Ef gert er ráð fyrir að velta fari yfir 1 milljón króna á hverju 12 mánaða tímabili er hagkvæmt að skrá sig á virðisaukaskattsskrá til að geta nýtt innskatt af aðföngum vegna þjónustunnar.

Hafa ber í huga að nýtt frumvarp er í vændum um heimagistingu og því gætu leyfisveitingar tekið breytingum. Samgöngustofa gefur út rekstrarleyfi til fólksflutninga á landi, starfsleyfi til leigubílastöðva og bílaleiga ásamt því að gefa út atvinnuleyfi til leiguaksturs og eðalvagnaþjónustu.

Sækja skal um starfsleyfi til reksturs bílaleigu að jafnaði a.m.k. 1-2 mánuðum áður en fyrirhuguð starfsemi á að hefjast. Öll gögn sem þurfa að fylgja umsókninni eru tilgreind á heimasíðu Samgöngustofu.

Hér má nálgast greinina á Mbl.

Mbl.is - Viðskiptamogginn, 23. júlí 2016
23.07.2016