Trúverðugleiki ársreikningsins í heild er undir og þar með trúverðugleiki og mikilvægi þeirra upplýsinga sem þeir, sem stjórnendur, leggja fram og birta í honum.

Mikilvægi óhæðis endurskoðenda

Ragnar Jóhann Jónsson endurskoðandi hjá Deloitte og stundakennari við Háskólann á Akureyri

Ársreikningar eru mikilvægir í nútíma viðskipta- efnahags- og félagslífi. Upplýsingar sem fram koma í þeim eru notaðar sem grundvöllur ákvarðana sem í flestum tilvikum snúast um fjárhagslega hagsmuni í einni eða annarri mynd. Helstu notendur ársreikninga eru því bæði margir og ólíkir og eiga oft ólíkra hagsmuna að gæta. Helstu notendur, sem jafnframt eiga mestra fjárhagslegra hagsmuna að gæta, eru fjárfestar, hvort sem þeir eru eigendur viðkomandi félags (t.d. hluthafar) eða lánardrottnar. Það eru þeir sem hafa lagt viðkomandi félagi til fjármagn í einni eða annarri mynd, auk birgja og fleiri aðila. Aðrir notendur eru t.d. starfsmenn, stéttarfélög, stjórnendur, mögulegir fjárfestar, opinberir aðilar, innheimtuaðilar, samkeppnisaðilar
og jafnvel almenningur, allt eftir mikilvægi viðkomandi starfsemi og félags í samfélaginu og efnahagslífinu.

Samkvæmt lögum um ársreikninga bera stjórnendur, það er stjórn og framkvæmdastjóri, ábyrgð á gerð ársreikninga fyrirtækja og félaga fyrir hvert reikningsár. Ákvæði annarra sérlaga og reglna um gerð ársreikninga gera sambærilegar kröfur til stjórnenda. Ársreikningurinn skal hafa að geyma rekstrarreikning, efnahagsreikning, sjóðstreymi, skýringar og skýrslu stjórnar. Í lögunum er jafnframt ákvæði um að endurskoðendur, sem kjörnir eru á aðalfundi eða félagsfundi viðkomandi félags, skuli að lokinni endurskoðun árita ársreikninginn.

Þessari áritun og viðeigandi áliti verða lesendur ársreikningsins að geta treyst og þar með áreiðanleika þeirra upplýsingar sem fram koma í ársreikningum og máli skipta fyrir viðkomandi lesendur hverju sinni.

Ein af grundvallarforsendum áritunar endur-skoðandans og trúverðugleika hennar og þar með ársreikningsins í heild, er óhæði þeirra sem taka að sér endurskoðunina, auk faglegrar hæfni og þekkingar þeirra, trúnaðar, faglegrar hegðunar, heilinda og annarra hæfniskrafna sem geta tengst óhæðinu bæði beint og óbeint. Endurskoðandinn skal tryggja óhæðið og ber ábyrgð á því. Það breytir því hins vegar ekki, að stjórnendur viðkomandi félags hafa mikilla hagsmuna að gæta, þeir þurfa að geta treyst því að óhæði endurskoðandans sé hafið yfir allan vafa. Trúverðugleiki ársreikningsins í heild er undir og þar með trúverðugleiki og mikilvægi þeirra upplýsinga sem þeir, sem stjórnendur, leggja fram og birta í honum. Þannig er sú krafa til dæmis gerð af endurskoðunarnefndum félaga tengdra almannahagsmunum, sem eru undirnefndir stjórna, að endurskoðendur viðkomandi félaga leggi fram staðfestingu á óhæði sínu.

Í lögum um endurskoðendur (nr. 79/2008) eru ítarleg ákvæði um óhæði endurskoðenda. Of langt mál yrði að telja upp allt það sem þar kemur fram, en sem dæmi má nefna að þar er að finna ákvæði um að tengsl endurskoðanda við viðskiptavini sína skuli vera óháð bæði í ásýnd og reynd. Jafnframt er ákvæði um það að þóknun fyrir endurskoðun skuli við það miðuð að hún geri endurskoðandanum kleift að komast að rökstuddri niðurstöðu í samræmi við faglegar kröfur um störf endurskoðenda o.s.frv. Við mat á óhæði ber endurskoðendum að fylgja ákvæðum siðareglna endurskoðenda sem staðfestar voru af efnahags- og viðskiptaráðherra í febrúar 2011.

Allar þessar kröfur eru settar fram meðal annars til að tryggja óhæði endurskoðandans. Stjórnendur viðkomandi félaga, sem bera ábyrgð á gerð reikningsskilanna, eiga þar einnig hagsmuna að gæta og það er þeim brýnt, ekki síður en endurskoðandanum, að óhæðið sé til staðar bæði í ásýnd og reynd.

Birt í Viðskipta Mogganum fimmtudaginn 21. maí 2015 bls. 12.

Mbl.is - Viðskiptamogginn, 21. maí 2015