Tekur skjölunarskyldan því aðeins til viðskipta innlendra lögaðila við tengda aðila sem eru heimilisfastir erlendis eða eru með fasta starfsstöð utan Íslands.

Milliverðlagsreglurnar loks tilbúnar

Símon Þór Jónsson, meðeigandi á skatta- og lögfræðisviði Deloitte og Haraldur I. Birgisson lögfræðingur á skatta- og lögfræðisviði Deloitte

Á mánudaginn í síðustu viku afgreiddi Alþingi frumvarp sem a.m.k. höfundar þessarar greinar hafa beðið eftir með talsverðri eftirvæntingu og vafalaust einstaka aðrir. Umrætt frumvarp var lagt fram 4. nóvember síðastliðinn og fól m.a. í sér breytingar á nýlegum milliverðlagsreglum sem tóku gildi 1. janúar 2014. Segja má að með samþykkt frumvarpsins hafi smiðshöggið loks verið rekið á innleiðingarferli og umfang reglnanna.

Í stuttu máli þá fela reglurnar í sér innleiðingu leiðbeininga OECD um milliverðlagningu en þær hafa að geyma tiltekna aðferðafræði sem ætlað er að tryggja betur armslengdargrundvöll viðskipta milli tengdra aðila. Með því má svo aftur draga úr hvötum til að færa hagnað frá einu landi til annars þar sem skattlagning er hagfelldari. Auk þess að þurfa að fylgja leiðbeiningum OECD felst í reglunum skylda fyrir tiltekna lögaðila að útbúa svokallaða milliverðlagsskjölun. Frekari skilyrði um þá skjölun voru svo útfærð með reglugerð sem birt var tæpu ári eftir innleiðingu reglnanna eða 16. desember síðastliðinn.

Bæði reglurnar sjálfar og innleiðingarferli þeirra eru fyrir margar sakir áhugaverð. Til marks um það þá er þetta í fjórða skipti á ekki ýkja löngum tíma sem undirritaðir stinga niður penna um efnið. Tilefnið nú er m.a. að upphaflegu reglurnar tóku jafnt til viðskipta milli tveggja innlendra tengdra aðila og þeirra sem áttu í viðskiptum við erlenda tengda aðila. Var aðilum í fyrrnefndu stöðunni því einnig gert að útbúa áðurnefnda skjölun, þrátt fyrir að þeir hefðu enga möguleika á að færa hagnað milli landa með óeðlilegri verðlagningu í sínum viðskiptum. Við meðferð frumvarpsins benti Deloitte auk annarra því á að skjölunarskylda í tilviki innlendra aðila væri í reynd óþörf reglubyrði, þvert á markmið ríkis-stjórnarinnar í þeim efnum. Á þetta féllst loks meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar í síðara nefndaráliti sínu. Með samþykki umrædds frumvarps er sú skylda þannig felld brott og eiga meirihlutinn sem og fjármála- og efnahagsráðuneytið þakkir skildar fyrir það. Tekur skjölunarskyldan því aðeins til viðskipta innlendra lögaðila við tengda aðila sem eru heimilisfastir erlendis eða eru með fasta starfsstöð utan Íslands.

Innlendir tengdir lögaðilar sem eiga í viðskiptum sín á milli eru þó enn undir reglurnar settir að því leyti að viðskipti þeirra á milli þurfa að vera á armslengdargrunni. Þetta áréttaði meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar í áliti sínu og því hugsanlega skynsamlegt fyrir einhverja slíka aðila að útbúa ákveðna lágmarksskjölun. Með því getur staða þeirra, ef til úttektar skattayfirvalda kemur, orðið töluvert betri auk þess sem skjölun getur bætt ferla og aukið yfirsýn.

Má þar hafa í huga að Ríkisskattstjóri lagðist gegn þessari breytingu á reglunum og nefndi að unnt væri eftir atvikum að kalla eftir sambærilegum upplýsingum á grundvelli almennu ákvæða laganna, hvort heldur viðskipti væru við innlenda eða erlenda tengda aðila. Þessi afstaða rímar ágætlega við svör Ríkisskattstjóra í ákvarðandi bréf nr. 1/2015 þar sem embættið svaraði nokkrum fyrirspurnum Deloitte. Þá er ljóst að enginn frestur mun verða veittur hvað viðurlög varðar.

Þótt samþykki frumvarpsins hafi markað ákveðin þáttaskil hvað umfang þessara nýju og umfangsmiklu reglna varðar þá er ljóst að engin reynsla er komin á framkvæmd þeirra og því viðbúið að skattayfirvöld muni túlka þær frekar. Framangreind viðbrögð Ríkisskattstjóra og sú staðreynd að áðurnefnd reglugerð felur í sér tilteknar viðbótarkvaðir umfram það sem þekkist í nágrannalöndum okkar veitir ákveðna vísbendingu í þeim efnum. Vonandi auðnast þó öllum aðilum að sýna meiri forsjá en kapp á næstu misserum með því að stíga varlega til jarðar og tryggja sem mest samræmi við alþjóðlega framkvæmd – bæði í orði og á borði.

Birt í Viðskipta Mogganum fimmtudaginn 25. júní 2015 bls. 12.

Mbl.is - Viðskiptamogginn, 25. júní, 2015