Er vandasamara fyrir skattyfirvöld að meta gögn frá ríkjum sem ekki hafa stjórnmálasamband við Ísland? Nei, svo er ekki, en hér verða stjórnvöld að hafa skýra sýn.

Ómöguleiki skattrannsóknarstjóra nýtt sem skattlagningarheimild hjá ríkisskattstjóra?

Pétur Steinn Guðmundsson, Lögfræðingur hjá Deloitte ehf.

Íslensk skattyfirvöld hafa hafnað gögnum frá aðilum sem sæta rannsókn og hafa lagt fram gögn sem sýna skattskyldu þeirra í ríki, sem íslensk stjórnvöld hafa ekki stjórnmálsamband eða upplýsingaskiptasamning við, með rökstuðningi um að skattrannsóknarstjóra sé þröngur stakkur sniðinn varðandi upplýsingaöflun þaðan. Undir þetta sjónarmið hefur ríkisskattstjóri tekið. Hefur það leitt til niðurstöðu embættanna að gögnin séu ófullnægjandi og viðkomandi aðila gert að greiða skatta aftur af tekjum sínum.

Við rannsókn máls, hvort heldur það er hjá skatt-rannsóknarstjóra eða ríkisskattstjóra, er gerð krafa um að með rannsókninni fáist úr því skorið hvort farið hafi verið gegn gildandi lögum og í framhaldi verði málið sett í tilhlýðilegan farveg. En hvernig skal
farið með þann aðila sem er til rannsóknar og leggur fram gögn er skattyfirvöld meta sem ófullnægjandi?

Er vandasamara fyrir skattyfirvöld að meta gögn frá ríkjum sem ekki hafa stjórnmálasamband við Ísland? Nei, svo er ekki, en hér verða stjórnvöld að hafa skýra sýn. Heimurinn er stöðugt að verða minni með tilliti til markaðs- og vinnusvæða. Ef stjórnvald
telur að framlögð gögn séu ófullnægjandi verður að gera þá kröfu til stjórnvaldsins að það leggi fram ítarleg rök eða sýnileg gögn sem styðji afstöðu embættisins. Ef stjórnvald skirrist við að leggja fram slík gögn stendur lítið annað eftir en afstaða þeirra
starfsmanna sem fara með málið. Telja má fullvíst að það er ekki það framlag sem skattyfirvöld vilja leggja til málanna. Meginreglan um góða stjórnsýslu og réttaröryggi skipta hér miklu. Það má aldrei leika vafi á að endanleg niðurstaða rannsóknar sé þannig undirbyggð að hún standist hlutlæga skoðun.

Almennur ómöguleiki íslenskra yfirvalda um staðfestingu á framlögðum gögnum frá skattaðila sem sætir rannsókn verður þannig ekki notaður til að túlka gegn honum án rökstuðnings. Í greinargerð um rannsóknarreglu stjórnsýslulaga segir: „Því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun er þeim mun strangari kröfur verður almennt að gera til stjórnvalds um að það gangi úr skugga um að upplýsingar, sem búa að baki ákvörðun, séu sannar og réttar. Rannsóknarskylda beggja skattembætta, hvort heldur rannsókn fer fram hjá ríkisskattstjóra, vegna fyrirspurnar eða á grundvelli sakamálalaga hjá skattrannsóknarstjóra,
veita engan afslátt frá því að hið rétta komi í ljós. Þannig megi á grundvelli rannsóknar endurákvarða skatt á aðila, eða vísa máli til ákæruvaldsins, eða að tryggja að mál sé fellt niður ef ekki fæst sönnun í málinu. Aðeins þannig getur réttarríkið starfað, að hlutlægni sé gætt í hvívetna.

Í skýrslu fjármálaráðuneytisins frá desember 2013, þar sem fjallað var um stjórnsýslu skattamála, með tilliti til réttaröryggis, jafnræðis og skilvirkni, segir um réttaröryggið: „[…], að lögin eigi ekki að nota til að níðast á fólki, hvorki viljandi [...] – né óviljandi, með því að villa um fyrir fólki eða gera því ókleift að lifa lífinu eins og það telur best.“

Í inngangskafla frumvarps sem varð að stjórnsýslu-lögum segir: „Helsta markmiðið með setningu stjórnsýslulaga er að tryggja sem best réttaröryggi manna í skiptum við hið opinbera,[…].“ Það er veganestið sem við viljum í samskiptum við stjórnvöld. Notum það sem viðmið.

Birt í Viðskipta Mogganum fimmtudaginn 12. mars 2015 bls. 12.

Mbl.is - Viðskiptamogginn, 12. mars 2015
12.03.2015