Fyrr á þessu ári voru samþykktar á Alþingi breytingar á lögum um ársreikninga. Tilgangur breytinganna var tvíþættur, annars vegar að innleiða nýja ársreikningatilskipun Evrópusambandsins og hins vegar að bæta og einfalda viðskiptaumhverfi lítilla fyrirtækja hér á landi og draga úr umsýslukostnaði.

Örfélög og hnappurinn

Sturla Jónsson er endurskoðandi hjá Grant Thornton

Fyrr á þessu ári voru samþykktar á Alþingi breytingar á lögum um ársreikninga. Tilgangur breytinganna var tvíþættur, annars vegar að innleiða nýja ársreikningatilskipun Evrópusambandsins og hins vegar að bæta og einfalda viðskiptaumhverfi lítilla fyrirtækja hér á landi og draga úr umsýslukostnaði.
Ein af þeim breytingum sem gerðar voru á lögunum var einföldun svonefndra örfélaga á skilum ársreikninga til opinberrar birtingar. Felst þessi einföldun í breytingu á rafrænum skilum sem nefnd hefur verið „hnappurinn“. Þannig verður örfélögum gert kleift við rafræn skil á skattframtali að tilteknar fjárhæðir úr framtalinu verði sendar ársreikningaskrá sem fullgildur ársreikningur.

Félag telst örfélag fari það ekki fram úr tveimur af þremur viðmiðum, en þau eru 20 milljóna króna efnahagsreikningur, hrein velta 40 milljónir króna á ári og meðalfjöldi ársverka þrjú. Þessum félögum verður, með ákveðnum undantekningum þó, gert kleift að skila einfaldri útgáfu ársreiknings til ársreikningaskrár, byggðum á skattframtali. Hann þarf hvorki að endurskoða né yfirfara af skoðunarmanni. Talið er að um 80% íslenskra fyrirtækja flokkist sem örfélög.

Þann 20. júní sl. birtist frétt á vef Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins þar sem sagt er frá samningi milli ráðuneytisins og ríkiskattstjóra um útfærslu á innleiðingu hnappsins. Segir þar að breytingin muni „einfalda skil skil fyrir 80% félaga á Íslandi og lækka kostnað þessara félaga verulega“. Í hverju mun þetta verulega kostnaðarhagræði felast? Er ekki unnt að skilja efni fréttarinnar öðruvísi en svo að sparnaðurinn felist í aðkeyptri þjónustu sérfræðinga. Nú þegar örfélög eru undanþegin gerð fullbúins ársreiknings munu þau ekki þurfa að kaupa sér sérfræðiþekkingu endurskoðenda eða annarra fagmanna við ársreikningagerðina.

Almennur skilningur á tilurð hnappsins hefur verið sá að örfélög þurfi ekki að gera hefðbundinn ársreikning. Það mun duga að vinna bókhald og uppgjör með hefðbundnum hætti, vinna skattframtal og láta svo hnappinn sjá um afganginn. Með hnappnum verður útbúið rekstrar- og efnahagsyfirlit sem notað verður til opinberrar birtingar og verður ígildi ársreiknings fyrir félagið. Hlýtur ráðuneytið sjálft að skilja ákvæðin með þessum hætti víst að boðaðar eru verulegar kostnaðarlækkanir fyrir örfélög eins og framan greinir.

Ef rýnt er þó í ákvæði laganna kemur í ljós að þetta er misskilningur. Undanþáguákvæðið nær eingöngu til skila á reikningi til opinberrar birtingar, en engin afsláttur er gefinn af gerð ársreikningsins. Örfélög munu, líkt og önnur félög, í öllum tilfellum þurfa að láta gera ársreikning og honum þarf að fylgja áritun skoðunarmanns eða endurskoðenda.

Í umsögn sinni um frumvarpið benti Ríkisskattstjóri sérstaklega á þennan misskilning og lagði til að undanþáguákvæðið væri fært til í lögunum. Með þeim hætti væri skýrara að það ætti eingöngu við um birtingu ársreiknings en ekki skylduna um að láta útbúa ársreikning. Þannig segir í umsögninni: “Staðsetningin í 3. gr. hefur valdið þeim misskilningi að sumir telja að örfélög þurfi ekki lengur að útbúa ársreikning og leggja fyrir hluthafafund en það var ekki ætlun frumvarpsins [..] Einföldunin felst því í því að samkvæmt b. lið er ársreikningurinn orðinn mun einfaldari og samkvæmt d.lið eru skilin gerð samhliða skilum á skattframtali. Félagið mun þó áfram þurfa að útbúa þennan einfalda ársreikning og leggja fram fyrir hluthafa [..] enda er slíkt mikilvæg upplýsingagjöf til hluthafa félagsins.“

En verður þessi ársreikningur þá eingöngu útbúinn fyrir hluthafana? Aldeilis ekki. Í lögum um tekjuskatt eru ákvæði þess efnis að ársreikningur skuli fylgja skattframtali lögaðila þegar það er sent til ríkisskattstjóra. Þeim ákvæðum hefur ekki verið breytt. Þvert á móti voru nýlega gerðar breytingar á ákvæðinu sem í reynd gera ítrari kröfur til ársreikninga sem fylgigögn með skattframtölum en áður. Er þar tekinn af allur vafi um að lögaðilar þurfi að láta útbúa ársreikning sem skal fylgja skattframtölum, jafnt örfélög sem önnur.

Þetta vekur nokkra furðu. Var þá tilgangurinn með hnappnum ekkert annað en pólitískur fyrirsláttur, að boða verulegar kostnaðarlækkanir fyrir 80% félaga sem ekki er innistæða fyrir? Eða kann að vera þegar öllu er á botninn hvolft sé stjórnkerfið ekki tilbúið til að afnema kröfuna um gerð ársreiknings? Skattyfirvöld eru stór haghafi þegar kemur að ársreikningum lítilla fyrirtækja. Það er því eðlilegt og sjálfsagt að skattyfirvöld geri ríkar kröfur um form og áreiðanleika þeirra upplýsinga.

Mbl.is - Viðskiptamogginn, 13. okt. 2016