Það þarf ýmislegt að hafa í huga við sölu á sumarhúsum og öðrum fasteignum.

Skattur af sölu sumarhúsa

Eymundur Sveinn Einarsson, löggiltur endurskoðandi hjá Endurskoðun og ráðgjöf ehf. í Garðabæ.

Söluhagnaður af íbúðarhúsnæði er almennt skattfrjáls hjá einstaklingum utan atvinnurekstrar, ef eignarhald hefur varað í tvö ár eða lengur. Þetta á hins vegar ekki við um söluhagnað einstaklinga af öðrum fasteignum svo sem af frístundahúsnæði, sumarhúsum og hesthúsum og er það almennur misskilningur.

Skattskylda hagnaðar af sölu fasteigna, annarra en íbúðarhúsnæðis, fer eftir ákvæðum 15. gr. laga um tekjuskatt. Söluhagnaður ákvarðast af mismuni á söluverði eingar og stofnverði hennar. Stofnverð eignar er upphaflegur byggingakostnaður eða kaupverð á nafnverði en um eignir sem keyptar eru 1996 eða fyrr gilda sérstakar reglur um framreikning byggingarkostnaðar. Fjármagnstekjuskattur reiknast 20% af mismun söluverðs að frádregnum sölukostnaði og stofnverði. 

Hinsvegar getur einstaklingur alltaf nýtt sér 3. mgr.15. greinar skattalaganna og einfaldlega greitt 20% skatt af helmingi söluverðs - þessi regla virðist oftar en ekki koma hagstæðar út fyrir framteljanda, frekar en að reikna skatt af mismun kaupverðs og söluverðs. Til einföldunar má því segja að hámarksskattur sem einstaklingur gæti þurft að greiða af sölu frístundahúsnæðis væri 10% af söluverði.

Sala á frístundahúsnæði sem einstaklingur eignast við arftöku:

Sala frístundahúsnæðis sem einstaklingur hefur eignast gegnum arftöku er skattskyld sbr. 15. gr. Slík eignayfirfærsla hefur ekki í för með sér "nýtt stofnverð" þrátt fyrir að erfðafjárskattur hafi verið greiddur af gildandi fasteignamati eignar.

Sala lausafjár: 

Er almennt skattfrjáls. Slík tilvik geta komið upp við sölu á frístundahúsnæði til dæmis ef það er selt með innbúi. Væri þá ekki óeðlilegt að innbú væri sélt sérstaklega á matsverði og væri því ekki tilgreint sem hluti af kaupsamningi fasteignarinnar heldur gert um það sérstakt samkomulag.

Skerðingar á bótum og tekjutengingar: 

Allur söluhagnaður, hvorri reikniaðferðinni sem beitt er, reiknast sem fjármagnstekjur og skattleggst sem slíkur. Fjármagnstekjur geta haft umtalsverð áhrif á útreikning bóta frá Tryggingastofnun þar sem fjármagnstekjur skerða bætur verulega. Í þessu samhengi er rétt að benda á að fjármagnstekjur hjóna og samskattaðra aðila eru sameiginlegar.

Að ofangreindu má ráða að það þarf ýmislegt að hafa í huga við sölu á sumarhúsum og öðrum fasteignum. Þeim aðilum sem hyggja á sölu á eignum er því ráðlagt að kanna skattalega stöðu sína hjá fagmönnum áður en ákvörðun um sölu er tekin.

 

03.09.2016