Stjórnendur þurfa að feta hinn gullna meðalveg og yfirfara með gagnrýnum hætti hvaða skýringar þarf að leggja áherslu á og hverju má sleppa.

Upplýsingamengun í ársreikningum

Árni Claessen löggiltur endurskoðandi og hluthafi hjá KPMG ehf

Skýringar í ársreikningum félaga sem fylgja alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS) hafa þanist út á undanförnum árum og hlaupa nú á tugum blaðsíðna. Komið hefur fram sú gagnrýni frá greiningaraðilum, fjárfestum og öðrum notendum ársreikninganna að of mikið sé um almennar og staðlaðar textaskýringar í ársreikningnum og að þau atriði sem raunverulega skipti máli týnist í skýringa-flóðinu. Einnig hefur verið kallað eftir því að skýringar verði betur aðlagaðar að hverju fyrirtæki
fyrir sig. Félög þurfi því að vanda sig meira við upplýsingagjöf og veita upplýsingar í skýringum sem eru meira viðeigandi fyrir rekstur þeirra og fjárhagslega stöðu í stað staðlaðra textaskýringa.

Alþjóðlega reikningsskilaráðið (IASB) hefur brugðist við þessari gagnrýni og setti af stað sérstakt
verkefni árið 2012 í þeim tilgangi að bæta framsetningu og upplýsingagjöf í ársreikningum. Verkefnið er viðamikið og hefur því verið skipt í nokkra þætti, meðal annars að:

  • Efla og bæta leiðbeiningar sem nú þegar eru í gildi um upplýsingagjöf í ársreikningum.
  • Útbúa viðmið um skýringar sem byggt verður á við gerð nýrra reikningsskilastaðla.
  • Skilgreina með skýrari hætti hvernig stjórnendur geta sjálfir beitt dómgreind við val og framsetningu á skýringum.

Nú þegar er unnið að breytingum á nokkrum reikningsskilastöðlum með það að markmiði að bæta upplýsingagjöf í ársreikningum. Einnig er unnið að því að útbúa sérstakar leiðbeiningar um hvernig nýta eigi mikilvægi við gerð skýringa og munu drög að þeim leiðbeiningum liggja fyrir seinni hluta þessa árs. IASB hefur þó lokið einu skrefi í þessu verkefni, en það eru breytingar á staðli IAS 1 um framsetningu ársreikninga sem taka gildi í ársreikningum frá 1. janúar 2016. Ekki er um miklar efnislegar breytingar að ræða. Hins vegar er undirstrikað með breyting-unum að beita eigi forsendunni um mikilvægi við framsetningu og val á skýringum í ársreikningi og að ónauðsynlegar skýringar geti dregið úr gagnsemi ársreikningsins. Það er líka mat og ákvörðun hvers fyrirtækis í hvaða röð skýringar eru settar fram í ársreikningi svo stjórnendur geti dregið fram þau atriði sem þeir telja mestu máli skipta við lestur ársreikningsins.

Í ljósi ofangreindra áherslna er ástæða fyrir stjórnendur að kanna hvort tilefni sé til þess að breyta og bæta skýringar í ársreikningum félaga sinna. Stjórnendur þurfa að feta hinn gullna meðalveg og yfirfara með gagnrýnum hætti hvaða skýringar þarf að leggja áherslu á og hverju má sleppa á grundvelli mikilvægis. Til dæmis gæti verið ástæða til þess að skýra enn betur frá þeim liðum ársreikningsins sem byggjast á forsendum og mati stjórnenda, t.d. um mat óskráðra eigna á gangvirði og virðisrýrnunarpróf á viðskiptavild. Á móti að sleppa þá öðru sem minna máli skiptir, t.d. ítarlegum skýringum um rekstrarfjármuni í árs-reikningum fjármálastofnana, þar sem þeir vega yfirleitt ekki þungt. Einnig þarf að kanna hvort skýringarnar séu nægilega vel sniðnar að félaginu. Oft má til dæmis finna mjög almennt orðaðar skýringar um innlausn tekna, án þess að útskýrt sé hvaða aðferðum félagið beitir sjálft.

Mörg fyrirtæki hafa nú þegar stigið skrefið og unnið talsvert í því að bæta skýringarnar og gera árs-reikninginn um leið gegnsærri og hnitmiðaðri. Dæmi um jákvæðar breytingar er til dæmis að byrja skýringarnar á þeim upplýsingum sem stjórnendur telja mikilvægar og færa skýringar um reikningsskilaaðferðir aftast í ársreikninginn. Einnig að sameina í eina skýringu upplýsingar um reikningsskilaaðferðir og tölulegar sundurliðanir um einstaka liði, en oft er erfitt fyrir lesendur að tengja saman viðeigandi upplýsingar í ársreikningum ef þeim er deilt á margar skýringar.

IASB hefur lengi verið duglegt við að setja nýja staðla og auka kröfur um skýringar en verið tregt við að draga úr kröfum þegar það hefur átt við. Þetta er nú að breytast enda er meira ekki endilega betra þegar kemur að upplýsingagjöf í ársreikningum. Hér gildir að meta heildstætt hvort upplýsingarnar í ársreikningnum endurspegli lykilatriði, breytingar á árinu og nýtist notendum reikningsskilanna um leið sem best.

Birt í Viðskipta Mogganum fimmtudaginn 2. júlí 2015 bls. 12.

Mbl.is - Viðskiptamogginn, 2. júlí 2015