Tarragona í október

Opnað hefur verið fyrir skráningu í ferð félagsmanna og maka þeirra til Tarragona á Spáni en í haust verða liðin sjö ár frá því að við fórum síðast saman til útlanda en það var árið 2018 þegar farið var til Brussel. Sú ferð þótti afar vel heppnuð og hafa margir kallað eftir því að við endurtökum leikinn og förum saman út. Ferðin verður 10. til 13. okt. (fös. – mán.). Við hvetjum félagsmenn til að fjölmenna í ferðina og taka dagana strax frá í dagatalinu!

Flogið verður beint til Barcelona og svo tekur við rútuferð suður til Tarragona sem tekur um klukkustund. Ferðin er skipulögð með TangoTravel en það fyrirtæki hefur í fjölmörg ár skipulagt árshátíðarferðir fyrirtækja (þar á meðal fyrir endurskoðunarfyrirtæki) og aðrar fjölmennar ferðir.

Haldinn var kynningarfundur á Teams þar sem nánari grein var gerð fyrir ferðatilhögun, sagt frá Tarragona og spurningum félagsmanna svarað. Hægt er að nálgast upptökuna frá fundinum inni á Teams spjallinu.

Við ákvörðun á tímasetingu ferðar var tekið mið af því að félagsmenn eru oft önnum kafnir fram að mánaðamótum sept./okt. Svo það er tilvalið að kasta aðeins mæðinni og skella sér svo í haustsólina til Spánar.

Tarragona er yndisleg strandborg staðsett rétt hjá Barcelona eins og fyrr segir. Tarragona er forn höfuðborg Rómverja og þar er að finna stórkostlegar minjar frá tímum Rómaveldis sem gaman er að skoða. Gaman er að rölta um gamla bæinn þar sem er að finna fjölda veitingastaða og ströndin er kjörin staður til að slaka á og njóta. Það er margt hægt að gera sér til dægrastyttingar í Tarragona. Tekið skal sérstaklega fram að það eru fínir golfvellir í Tarragona.